- Advertisement -

322 prósent aukning hjá Airbnb

Margföldun er á gistinóttum hjá Airbnb utan höfuðborgarsvæðsins. Nýting hefur aldrei verið meiri sem og eftirspurnin. Fjöldi gistinátta erlendra ferðamanna hér á landi í Airbnb nam tæplega 3,2 milljónum á síðasta ári.

Ferðaþjónusta „Vöxtur Airbnb gistingar hefur verið ævintýralega mikill hér á landi líkt og víða annars staðar. Með sama áframhaldi er skammt að bíða þess að Airbnb taki við af hótelum sem stærsti söluaðili gistinátta hér á landi,“ segir í Hagsjá Landsbankans.

Fjöldi gistinátta erlendra ferðamanna hér á landi í Airbnb nam tæplega 3,2 milljónum á síðasta ári. Það eru tæplega 1,6 milljón fleiri gistinætur en árið 2016 og nemur hlutfallsleg aukning 96%. Stærsti hluti aukningarinnar kemur til vegna fjölgunar utan höfuðborgarsvæðisins. Þannig fjölgaði gistinóttum um 556 þúsund á höfuðborgarsvæðinu en 1.002 þúsund utan höfuðborgarsvæðisins. Hlutfallsleg aukning á höfuðborgarsvæðinu nam 42% en 322% utan höfuðborgarsvæðisins. Mesta hlutfallslega aukningin utan höfuðborgarsvæðisins var 443% á Austurlandi en minnst 181% á Suðurnesjum. Þrátt fyrir töluvert meiri hlutfallslega fjölgun utan höfuðborgarsvæðisins á síðasta ári er hlutdeild þess í Airbnb enn langstærst af svæðum landsins en um 59% allra gistinátta á landinu eru á höfuðborgarsvæðinu. Heildarfjöldi gistinátta á höfuðborgarsvæðinu var tæplega 1,9 milljón á síðasta ári.

Meðalnýting í Airbnb var 59% á síðasta ári sé litið á landið í heild. Það er töluvert betri nýting en árið áður þegar hún nam 51%. Nýtingin batnaði á öllum svæðum landsins milli ára en mest á Austurlandi, Norðurlandi eystra og Suðurlandi. Á öllum þessum svæðum jókst nýtingin um 21-22 prósentustig milli ára. Nýtingin batnaði minnst á Norðurlandi vestra (9 prósentustig) og höfuðborgarsvæðinu (10 prósentustig). Bætt nýting virðist hafa haldist töluvert vel í hendur við þá nýtingu sem fyrir var með öfugum formerkjum. Þannig jókst nýtingin annars vegar mest þar sem hún var minnst fyrir og hins vegar minnst þar sem hún var mest fyrir.

Upplýsingarnar eru í Hagsjá Landsbankans.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: