- Advertisement -

5% RÍKUSTU GEFNIR 207 MILLJARÐAR

Gunnar Smári Egilsson.

Gunnar Smári skrifar: Afnám eignaskatta á Íslandi um áramótin 2005/06 er ein af ástæðum aukin eignaójafnaðar. Eignaskattar eru eitt allra besta tækið sem til er til að vega upp eituráhrif kapítalismans, sem færir sífellt fé frá þeim sem lítið eiga til þeirra sem mikið eiga. Franski hagfræðingurinn Thomas Piketty mælir með um 2% til 2,5% eignaskatti til að vega upp óréttlæti kapítalismans og hægja á þróun í átt til þess að innan fárra áratuga eigi örfáir allt.

Í þessu svari sést m.a. hreint eigið fé 5% auðugustu íslensku fjölskyldnanna, 1% og 0,1%. Með því að leggja á eignaskatt á þetta fé eins og hann var lengst af hérlendis, 1,2% plús 0,25% sérstakur eignaskattur, kemur í ljós að frá 2006 hefur auður 5% auðugustu fjölskyldnanna aukist um rúma 207 milljarða króna vegna niðurfellingar eignaskattsins eða um 17,3 milljarða króna á ári að meðaltali.

Niðurfelling eignaskatta jók eignir þessa hóps en gróf á sama tíma undan velferðarkerfinu og þyngdi skattbyrði venjulegs launafólks.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ef aðeins eru tekin 0,1% auðugustu fjölskyldurnar, 229 fjölskyldur, þá losnuðu þær við að borga 33,9 milljarða króna á núvirði frá 2006. Þessi aðgerð færði hverri þessara fjölskyldna að meðaltali um 148 milljónir króna. Í stað þess að hver þessara fjölskyldna hafi átt um síðustu áramót að meðaltali 1061 milljón króna ætti hún 927 milljónir króna í dag.

Var það svo áríðandi aðgerð? Að auka auð 0,1% ríkustu fjölskyldnanna úr 927 milljónum króna í 1061 milljón króna? Að það væri þess virði að auka skattheimtu af lágmarkslaunum, láta innviði samfélagsins koðna niður og draga úr afli velferðarkerfisins?

Tja, svari hver fyrir sig.

Athugið að hér er aðeins fjallað um skattaafslátt til hinna auðugu vegna afnáms eignaskatts. Þau hafa líka auðgast gríðarlega vegna lækkunar fjármagnstekjuskatts og erfðafjárskatts, afnám aðstöðugjalda og lækkun tekjuskatta fyrirtækja.

Ef við tökum efri mörk þess sem Piketty nefndi sem vörn gegn fjárflutningum innan kapítalismans, frá þeim sem lítið eiga til þeirra sem mikið eiga, þá hefði 2,5% eignaskattur á auð 5% ríkustu fjölskyldnanna gefið rúma 338 milljarða króna í ríkissjóð frá 2006 eða um 28 milljarða árlega. Auður þessara fjölskyldna hefði eftir sem áður aukist um rúm 15% á tímabilinu, svo því fer fjarri að 2,5% eignaskattur sé eitthvað sem kalla mætti eignaupptöku, en það voru áróðursrök hinna ríku í aðdraganda þess að eignaskattar voru aflagðir. Afnám eignaskatta snerist ekki um neitt slíkt; aðeins um að færa enn meira fé frá þeim sem lítið eiga til þeirra sem eiga mikið, með því að létta sköttum af hinum ríku en leggja þá í staðinn á fólk með miðlungstekjur eða lágar tekjur.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: