- Advertisement -

Að fyrirgera rétti sínum til valda og áhrifa

Nú er það Alþingi sjálft sem þarf að sýna hvort það ætlar að samsama sig menningarstigi sexmenninganna, eða loksins reka af sér slyðruorðið og sýna að ruddaskapur, klámkjaftur og ofbeldisfullt þrugl hefur afleiðingar.

Gagnsæi gegn spillingu segir: „Þingmennirnir sex sem græskulausir voru teknir upp við sitt miður aðlaðandi bjórspjall í síðustu viku hafa sumir verið látnir svara þeirri spurningu hvort þeir ætli að segja af sér – og það ætla þeir ekki að gera, þótt einn segist vera að „íhuga stöðu sína“.
Hættan er hinsvegar sú að við förum að líta á þetta sem þeirra persónulegu ákvörðun: Enginn geti jú vikið þingmanni úr starfi, flokkarnir hafi ekkert formlegt vald yfir þingmönnum og svo framvegis.
En þetta er rangt.
Framhald þessa máls veltur ekki á þingmönnunum sex: Viðbrögð þeirra eru fyrirsjáanleg. Þeir munu reyna að halda sætum sínum og segjast sjá eftir öllu saman eins lengi og aðrir leyfa þeim það.
Nei, framhaldið veltur á hinum: Hvort flokksfélagarnir sniðganga þá eða fyrirgefa þeim „stráksskapinn“, hvort aðrir þingmenn neita að vinna með þeim eða láta eins og ekkert hafi í skorist – svona þegar verstu lætin eru liðin hjá.
Nú er það Alþingi sjálft sem þarf að sýna hvort það ætlar að samsama sig menningarstigi sexmenninganna, eða loksins reka af sér slyðruorðið og sýna að ruddaskapur, klámkjaftur og ofbeldisfullt þrugl hefur afleiðingar.
Þetta gera hinir 57 þingmennirnir og flokkar sexmenninganna með því einfaldlega að sniðganga þá og sýna þeim að það er hægt að fyrirgera rétti sínum til valda og áhrifa, jafnvel þó að formlega takist manni að hanga á þingsæti sínu.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: