- Advertisement -

Ætla að svæfa afnám krónu á móti krónu skerðinguna

„Við Píratar lögðum fram breytingartillögu við fjárlög sem fól í sér aukningu til málefna öryrkja í þeim tilgangi að afnema krónu á móti krónu skerðingar. Sú tillaga, sem var felld, var hluti af frumvarpi um afnám krónu á móti krónu skerðingar sem hefur verið til umfjöllunar í velferðarnefnd. Í frumvarpinu er kveðið á um að gildistaka skuli vera 1. janúar 2019 en í ljósi þess að breytingartillaga við fjárlög var felld og að nokkur kostnaður mun hljótast af samþykkt frumvarpsins lagði ég til að gildistöku yrði frestað til 1. janúar 2020. Þar með gefst nægt svigrúm árið 2019 til að gera nauðsynlegar breytingar á fjármálaáætlun og fjárlögum til að taka tillit til kostnaðar við lagabreytinguna,“ sagði Halldóra Mogensen á Alþingi, fyrir skömmu.

„Það voru því mikil vonbrigði í gær þegar ég lagði fram tillögu um að afgreiða frumvarpið úr velferðarnefnd og meiri hlutinn felldi tillöguna. Ég lagði fram bókun sem ég les hér upp, með leyfi forseta:

„Á fundinum var lögð fram tillaga um að afgreiða úr nefnd mál nr. 54, um afnám krónu á móti krónu skerðinga. Meiri hluti nefndarinnar felldi tillöguna á þeim grundvelli að ekki væri tímabært að taka málið úr nefnd þar sem nú stæði yfir vinna samráðshóps um breytt framfærslukerfi almannatrygginga og faghóps um mótun og innleiðingu starfsgetumats sem heyra undir velferðarráðuneytið. Afgreiðsla þess máls sem hér um ræðir er þó óháð þeirri vinnu sem fram fer á vegum ráðuneytisins. Hvorki samráðshópurinn né fagnefndin sem nú starfa hefur fengið það verkefni að afnema krónu á móti krónu skerðingar. Þá er það hlutverk Alþingis sem handhafa löggjafarvalds að setja lög og breyta gildandi lögum. Það að lýsa því að vinna framkvæmdarvaldsins komi í veg fyrir að Alþingi sinni stjórnarskrárbundnu hlutverki sínu er ótækt. Búið er að taka á móti umsögnum og gestum í málinu og því fullar forsendur fyrir því að afgreiða málið úr nefnd.“

„Hér er meiri hlutinn að halda málum minni hlutans í gíslingu til þess eins að þurfa ekki að taka afstöðu til þessa mikilvæga máls í þingsal. Slík vinnubrögð eru svo sem ekki ný af nálinni, en það veldur mér miklum vonbrigðum að ríkisstjórn í forystu Katrínar Jakobsdóttur, sem hefur ítrekað lofað nýjum vinnubrögðum, skuli viðhalda þeim. Forseti. Það eru engin ný vinnubrögð að sjá hér. Afnám krónu á móti krónu skerðinga skal svæfð í nefnd.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: