- Advertisement -

Alexander Dubcek og vorið í Prag

„Pólitíkin er skrýtin skepna“, var einhvern tíma sagt. Þeim sem erja hinn pólitíska akur eru oft búin undarleg örlög, þeir vinna sæta sigra og bíða auðmýkjandi ósigra. Sumir komast í sögubækur, verða hetjur eða píslarvottar, en aðrir verða að standa úti í kuldanum um aldir þótt þeir hafi kannski ekki síður unnið til frægðar en hinir. Og alltaf er pólitíkin að koma manni á óvart, þar er ekkert eins og það á að vera til langframa, breytingar verða oft óvæntar og skyndilegar.

Eftir síðari heimsstyrjöld lentu löndin í Mið- og Austur-Evrópu á áhrifasvæði Sovétríkjanna. Sum þeirra voru rótgróin lýðræðisríki og átti það ekki síst við um Tékkóslóvakíu. Á skömmum tíma útrýmdu Sovétmenn og þjónar þeirra síðustu leifum lýðræðis í landinu og stofnuðu alþýðulýðveldi, oftast í andstöðu við óskir íbúanna. Þegar umrótinu sem fylgdi í kjölfar heimsstyrjaldarinnar lauk komst hins vegar kyrrð á í þessum löndum og þegar kom fram um miðjan 7. áratuginn var fátt sem benti til þess að mikilla breytinga eða stórtíðinda væri að vænta á þessum slóðum. Það átti hins vegar eftir að breytast fyrr en varði.

Sumarið 1967 var heimsmeistaramót stúdenta í skák haldið í bænum Harrachow í Tékkóslóvakíu. Íslendingar sendu sveit til þátttöku og var höfundur þessara lína meðal þeirra sem hana skipuðu. Ekki renndi okkur í grun þegar við lögðum af stað, að við ættum eftir að upplifa með mjög sérkennilegum hætti pólitísk stórtíðindi, einhver hin mestu sem orðið höfðu í þessum heimshluta frá uppreisninni í Ungverjalandi árið 1956.

Við komum til Prag á regnvotum sumardegi og biðum þar um stund á meðan þátttakendum í mótinu var safnað saman í rútu. Allt var heldur grátt og drungalegt og fátt fólk á ferli, eins og almennt gerðist í borgum Austur-Evrópu á þessum tíma. Eftir u.þ.b. klukkustund var lagt af stað og ekið sem leið lá til Harrachow, sem er í Tatrafjöllum skammt frá landamærum Póllands og Tékkóslóvakíu. Þar var okkur fengin vist á skíðahóteli þar sem keppnin fór fram. Fátt vakti athygli þar annað en að á ganginum fyrir framan herbergi okkar stóð gamall sjónvarpsgarmur, sem ekki virtist hafa verið kveikt á í mannaminnum, og þegar við komum í borðsalinn sáum við upp á vegg mynd af ábúðarmiklum eldri manni. Þar þóttumst við kenna Antonín Novotný forseta Tékkóslóvakíu; höfðum séð myndir af honum í Mogganum og sumir kannski í Þjóðviljanum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Fyrst í stað fór allt fram með eðlilegum hætti, Rússarnir unnu flestar viðureignir og hin Austur-Evrópulöndin fylgdu fast á eftir. Svo gerðist það einn morguninn að myndin af forsetanum var horfin af veggnum og nokkrum dögum seinna var komin mynd af öðrum manni sýnu yngri. Ekki veittum við þessu mikla athygli, við vorum komnir til að tefla skák, ekki til að glápa á myndir. Hitt þótti okkur merkilegra, að um þetta sama leyti urðu keppendur frá Austur-Evrópulöndum býsna friðsamir, tóku að bjóða jafntefli eftir stutta taflmennsku og þyrptust að sjónvarpinu á ganginum þar sem margt var sýnilega skrafað þótt ekki skildum við orð af því sem fram fór. Svo lauk mótinu og við héldum aftur til Prag. Þar var nú allt með öðrum hætti en hálfum mánuði fyrr. Allir voru brosandi, blóm í hverjum glugga og létt yfir mannlífinu. Þegar við komum til London og sáum blöð sem við gátum lesið voru þau full af fréttum að austan. Þá rann upp fyrir okkur að við höfðum upplifað upphaf þess sem síðar var kallað vorið í Prag. Myndaskiptin á hótelinu stöfuðu af því að Alexander Dubcek og bandamenn hans í kommúnistaflokknum höfðu steypt Novotný af stóli og Dubcek tekið við sem aðalritari Kommúnistaflokksins. Hann boðaði „sósíalisma með mannlegu yfirbragði“ en mætti brátt andspyrnu annarra Austur-Evrópuríkja. Lauk þeim átökum svo að sumarið 1968, réttu ári eftir að við vorum þarna á ferð, réðust hersveitir Varsjárbandalagsins undir forystu Sovétmanna inn í Tékkóslóvakíu. Dubcek var hrakinn frá völdum og gerður að sendiherra í Tyrklandi. Síðar var hann rekinn úr flokknum og gerður að skógarhöggsmanni. Hann átti hins vegar mikinn þátt í „flauelsbyltingunni“ svonefndu árið 1989, er kommúnistar voru hraktir frá völdum í Tékkóslóvakíu. Þá var hann kosinn forseti þings landsins og gegndi því embætti uns hann lést í bílslysi árið 1992.

Nú  munu flestir á einu máli um að Dubcek hafi verið einn merkasti stjórnmálamaður tékkneskur á síðari hluta 20. aldar. Ferli hans svipar að sumu leyti til Mikhails Gorbatjovs, en báðir ollu þeir miklum breytingum í landi sínu.

 (Birtist áur í Mannlífi árið 2008. Höfundur er Jón Þ. Þór sagnfræðingur)


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: