- Advertisement -

Alþingi, ákærur og Landsdómur

Þingmenn eru hins vegar ekki hæfir til þess, hafa sýnt það og sannað, ættu ekki að koma nálægt þessu máli. Þeir hafa gert nægar skammir þegar.

Gunnar Smári Egilsson.

Alþingi Gunnar Smári Egilsson hefur farið einna fremst þeirra sem eru ósammála þingmönnum um stöðu Landsdóms, eftir að dómur féll fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu í máli Geirs H. Haarde. Gunnar Smári skrifar ítarlega grein um málið og birti á Facebook. Greinin fer hér á eftir.

Til upprifjunar þá benti Rannsóknarnefnd Alþingis á að þrír ráðherrar hefðu sýnt af sér vanrækslu í starfi með vítaverðu gáleysi: Geir H. Haarde forsætisráðherra, Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra og Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra. Í skýrslu nefndarinnar kom fram að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hafði ekki borið beina ábyrgð sem ráðherra þótt hún hafi verið formaður Samfylkingarinnar og annar oddviti ríkisstjórnarinnar. Þegar tilmæli Rannsóknarnefndarinnar voru tekin til meðferðar í þinginu lagði meirihluti nefndarinnar (fulltrúar VG, Framsóknar og Hreyfingarinnar: Atli Gíslason, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Eygló Harðardóttir og Birgitta Jónsdóttir) til að allir ráðherrarnir yrðu ákærðir, líka Ingibjörg Sólrún. Fyrsti minnihluti Samfylkingarþingmanna (Magnús Orri Schram og Oddný G. Harðardóttir) vildi hins vegar sleppa Björgvin G. Sigurðssyni við ákæru, það er fara á móti Rannsóknarskýrslunni ekki aðeins með því að ákæra Ingibjörgu heldur líka með því að sleppa ákæru á Björgvin. Rökin voru að honum hefði verið haldið utan ýmissa ákvarðana og frá upplýsingum um raunverulega stöðu mála. Annar minnihluta Sjálfstæðismanna (Unnur Brá Konráðsdóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir) vildi engan ráðherra ákæra.

Framsókn klofnaði

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þegar málið kom til afgreiðslu greiddu allir 16 þingmenn Sjálfstæðisflokksins gegn ákæru á alla ráðherranna en allir 18 þingmenn VG og Hreyfingarinnar með ákæru á alla ráðherrana. Framsókn klofnaði; sex þingmenn vildu ákæra alla en þrír þingmenn Framsóknar engan (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson og Guðmundur Steingrímsson). Áður en kom að atkvæðum Samfylkingarþingmanna var staðan því að 24 þingmenn vildu ákæra alla ráðherranna eins og meirihluti nefndar þingsins (svokallaðrar Atlanefndar) en 19 þingmenn vildu engan ráðherra ákæra.

Ekki Björgvin

Jónína Rós Guðmundsdóttir var eini þingmaður Samfylkingarinnar sem vildi ákæra alla ráðherrana fjóra en ellefu þingmenn flokksins tóku sömu afstöðu og Sjálfstæðisflokkurinn og þeir þrír þingmenn Framsóknar sem síðar áttu eftir að yfirgefa flokkinn (stofna Bjarta framtíð og Miðflokkinn). Þetta voru þau Árni Páll Árnason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Anna Margrét Guðjónsdóttir, Guðbjartur Hannesson, Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller, Róbert Marshall, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir. Eftir þetta var staðan orðin 25 atkvæði með að ákæra alla ráðherrana en 30 atkvæði með að ákæra engan.
Auk nefndarmanna Samfylkingarinnar greiddi Valgerður Bjarnadóttir atkvæði með því að allir ráðherrarnir nema Björgvin yrðu ákærðir og Mörður Árnason í raun, en hann greiddi atkvæði með ákæru á alla en greiddu ekki atkvæði þegar kom að Björgvin. Þar með var staðan orðin 29 atkvæði með ákæru á Geir, Árna og Ingibjörgu á móti 30 atkvæðum. En Björgvin G. Sigurðsson var sloppinn. 25 vildu ákæra hann en 33 ekki gera það.

Árni slapp

Enn áttu fjórir þingmenn Samfylkingarinnar eftir að greiða atkvæði. Tveir þeirra greiddu atkvæði eins og rannsóknarnefndin lagði upphaflega til, Ólína Þorvarðardóttir og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir; að þrír ráðherrar yrðu ákærðir, Geir, Árni og Björgvin, en ekki Ingibjörg. Þá var staðan orðin sú að 31 vildi ákæra sjálfstæðisráðherrana Geir og Árna á móti 30 sem vildu sleppa þeim við ákæru. Og tveir þingmenn Samfylkingar enn eftir að greiða atkvæði. Ef annar þeirra greiddi atkvæði með ákæru yrðu Geir og Árni ákærðir. Ingibjörg var hins vegar sloppin; hún var komin með 32 atkvæði gegn ákæru á móti 29 sem vildu ákæra hana.

Skúli Helgason og Helgi Hjörvar reyndust einu þingmennirnir sem greiddu atkvæði í takt við lokaniðurstöðu þingsins. Þeir vildu ákæra Geir en engan annan. Við það var hann kominn með 33 með og 30 á móti ákæru. Árni rétt slapp; 31 vildi ákæra hann en 32 ekki. Samfylkingarráðherrarnir sluppu enn betur; 29 vildu ákæra Ingibjörgu en 34 ekki og 27 vildu ákæra Björgvin en 35 ekki (einn fjarverandi).

Samfylkingin réði niðurstöðunni

Með því að kjósa út og suður var það því Samfylkingin sem réð þessari niðurstöðu, að aðeins Geir H. Haarde var ákærður, sem þó var aðeins í takt við hvernig tveir þingmenn greiddu atkvæði. Þingheimur og þjóðin öll var því ósátt við niðurstöðuna.

Þetta var hinn pólitíski hráskinnaleikur sem vitnað er til. Hann fólst annars vegar í því að Atlanefndin fór ekki að ábendingum Rannsóknarnefndar Alþingis, hlutlausrar sérfræðinganefndar heldur blandaði pólitík í málið. Meirihlutinn vildi bæta Ingibjörgu Sólrúnu við til að gæta jafnræðis milli flokka. Minnihluti Samfylkingar vildi sleppa Björgvini þar sem hann hafði sér málsbætur í því að Ingibjörg og Sjálfstæðisráðherrarnir héldu mörgu leyndu fyrir honum. Og Sjálfstæðismenn vildu alls ekki fara að tillögu Rannsóknarnefndarinnar heldur ákæra engan.

Þingmenn ekki hæfir

Í stað þess að fylgja tillögum Rannsóknarnefndar hafði þingið kastað ólíkum leiðum á loft. Og í skjóli þess stilltu þingmenn Samfylkingarinnar atkvæðum sínum þannig að þeirra ráðherrar sluppu við ákæru.

Eftir dóm Mannréttindadómstólsins í dag má segja að Landsdómur fá fína einkunn, bæði formið og hvernig staðið var að málum. Eini gallinn við þetta ferli kom fram á Alþingi. Þingmenn risu ekki undir ábyrgð sinni að ákæra fyrrum samherja í pólitík fyrir vítavert gáleysi í aðdraganda mestu efnahagshörmunga sem dunið hafa á þjóðinni. Það er því svolítið hlægilegt að þingmenn dagsins í dag tali eins og það sé þeirra að breyta lögum um ráðherraábyrgð og ákvarða hvernig ráðherrar verði dregnir til ábyrgðar fyrir brot sín. Þingmenn eru hins vegar ekki hæfir til þess, hafa sýnt það og sannað, ættu ekki að koma nálægt þessu máli. Þeir hafa gert nægar skammir þegar.

(Fyrirsagnir og millifyrirsagnirnar eru Miðjunnar).


Booking.com

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: