- Advertisement -

„Þessir fjórir  milljarðar eru naglfastir“

- þetta sagði Willum Þór Þórsson formaður fjárlaganefndar á Alþingi og sagði í framhaldi að; „...þessi hópur á þessa fjóra milljarða og sá starfshópur sem er að vinna að verkefninu gerir það með þessa fjóra milljarða. Það er þannig.“

Willum Þór Þórsson og Ágúst Ólafur Ágústsson tókust nokkuð á þingi í dag þegar fjárlagafrumvarpið var til umfjöllunar.

Að standa við orð sín

„Formaður fjárlaganefndar kallar þetta ábyrgar ráðstafanir og segir að ekki sé verið að taka neitt af neinum. Hins vegar liggur alveg fyrir að verið er að skerða framlög til öryrkja um rúmlega einn milljarð frá því sem áður hafði verið boðað í frumvarpi sem er einungis tveggja mánaða gamalt. Allt í einu eru 4 milljarðar sem áttu að koma inn 2019 orðnir 2,9 milljarðar. Þetta er afskaplega skýrt og hér er við að þyrla upp ryki og stunda blekkingarleik,“ sagði Ágúst Ólafur.

Hann sagðist ekki átta sig á; „…pólitík þessara þriggja flokka, að telja að breiðu bökin megi finna hjá öryrkjum, hjá öryrkjum af öllum hópum. Ábyrgur stjórnmálamaður stendur við orð sín og ég man ekki eftir svona vinnubrögðum, að menn skeri niður til öryrkja milli umræðna í þingsal. Það er fáheyrt, herra forseti.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hækka úr 3,4% í 3,6%

Willum Þór steig næst í ræðustól þar sem hann sagði: „Ég sagði í ræðu minni, háttvirtur þingmaður, að þetta væri naglfast í ríkisfjármálaáætlun. Þessir fjórir milljarðar fara í þetta verkefni og það stendur. Það er ábyrgð.“

Og formaður fjárlaganefndar var ekki hættur, alls ekki: „Hins vegar vil ég segja að ég vísa því til föðurhúsanna þegar við erum að tala um ábyrgð. Það er óábyrgt að tala svona. Það er óábyrgt að láta þennan hóp velkjast í vafa um að við ætlum að gera breytingar á kerfinu, að láta hann velkjast í vafa um það hvort bætur eru að hækka. Þær eru að hækka úr 3,4% í 3,6%. Við erum ekki að skerða eitt né neitt í launabótum. Laun þessa fólks standa. Þannig að við skulum ekki valda misskilningi í því.“

Helmingur öryrkja með 270.000 fyrir skatt

„Hér er enginn misskilningur á ferðinni,“ sagði Ágúst Ólafur. „Fjórir milljarðar verða með einu pennastriki 2,9 milljarðar. Það minnir mig á orð þess fjármálaráðherra sem hér situr, sem skildi ekki af hverju öryrkjar föttuðu ekki hversu gott þeir hefðu það á hans vakt. Við skulum bara rifja það upp að helmingur öryrkja hefur minna en 270.000 kr. fyrir skatt til að lifa á, 70% öryrkja er undir 300.000 kalli fyrir skatt. Það er ótrúlegt að bjóða fólki upp á þann málflutning að öryrkjar ættu nú bara að skilja hversu gott þeir hafa það. Þeir hafa það ekki gott.“

Og svo þetta: „Hér er á ferðinni vond pólitísk forgangsröðun og hún er Vinstri grænum, Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum til skammar. Það eru 20.000 öryrkjar í þessu landi og ég stórefa að nokkur öryrki muni nokkurn tímann kjósa ykkur aftur ef þið standið við þetta.“

Og lokasvar Willums var þetta: „Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að svara henni oft. Þessir fjórir milljarðar eru naglfastir, þessi hópur á þessa fjóra milljarða og sá starfshópur sem er að vinna að verkefninu gerir það með þessa fjóra milljarða. Það er þannig.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: