- Advertisement -

Arnþrúður segir Reyni vera „fjöldamorðingja“ og fréttafalsara

- Reynir ætlar í mál við útvarpsstjórann.

„Hvað heldurðu að hann hafi mörg mannslíf á samviskunni þar sem hann hefur lagt heilu fjölskyldurnar og fólk í rúst út af athugasemdakerfinu sem hann lét með lygafréttum sem hann framleiddi. Hvað heldurðu að það séu margir sem eru búnir að gráta úr sér augun yfir lygunum í þeim?“

Þetta er bein tilvitnun á vef Fréttablaðsins í orð Arnþrúðar Karlsdóttur útvarpsstjóra á Útvarpi Sögu.

Reynir Traustason staðfestir í samtali við Fréttablaðið að hann muni verja mannorð sitt og blaðamannsheiður af fullri hörku og að Arnþrúður muni þurfa að standa fyrir máli sínu fyrir dómstólum ef ekki vill betur til.

Meira úr útvarpsþættinum: „Hvað heldurðu að hann hafi mörg mannslíf og fjölskylduhamingju á samviskunni, bæði frá því sem ritstjóri DV og ritstjóri Stundarinnar og þá stjórnarformaður Stundarinnar?“ spurði Arnþrúður Pétur Gunnlaugsson, umsjónarmann símatímans, á miðvikudaginn.

Reynir segist, við Fréttablaðið, ýmsu vanur á löngum og stormasömum blaðamannsferli en hér hafi Arnþrúður gengið allt of langt og hann muni ekki sitja þegjandi undir slíkum ærumeiðingum og atvinnurógi.

„Hún mun fá bréf frá lögmanni mínum og mun þurfa að gera grein fyrir því hvenær ég gerðist fjöldamorðingi,“ segir Reynir við Fréttablaðið og bætir við að hann sætti sig í raun enn síður við að vera sakaður um að skrifa falsfréttir í annarlegum tilgangi.

„Orðsporið er okkur blaðamönnum dýrmætt og eftir allan minn langa feril sætti ég mig ekki við að vera sakaður um að stunda fréttafölsun. Arnþrúður hefur sagt margt í gegnum tíðina en nú gekk hún of langt og þessum rakalausa atvinnurógi og ærumeiðingum verður mætt af fullri hörku.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: