- Advertisement -

Biðlisti Katrínar

Fátækir, eldra fólk og öryrkjar eru sett í biðstofuna. Mál þeirra fara í málstofur sem óvissa er um hvenær ljúka eigi störfum.

„Fyrirhugaðar eru breytingar á örorkulífeyriskerfinu sem vinna á í samráði við forsvarsmenn heildarsamtaka örorkulífeyrisþega,“ segir í grein sem Katrín Jakobsdóttir skrifar í Morgunblaðið í dag.

„Framlög til velferðarmála jukust um 11,7 milljarða í síðustu fjárlögum en ætlunin er að auka framlög til þessa málaflokks um aðra 28 milljarða á tímabilinu, sem er langt umfram lýðfræðilega þróun,“ segir hún og bætir við. „Sú aukning mun ekki síst nýtast til að bæta kjör örorkulífeyrisþega.“

Þuríður Harpa Sigurðardóttir: „Þetta þarf að gerast núna.“

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, segir: „Þetta þarf að gerast núna. Það er verið að halda fólki niðri, föstu í fátæktargildru, með kerfisbundnu ofbeldi. Því verður að ljúka strax. Það sjá það allir að það gengur ekki að einum þjóðfélagshópi sé beinlínis refsað fyrir sjálfsbjargarviðleitni. Þetta eru aðgerðir sem ekki þola bið.“ Eins segir formaður ÖBÍ. „Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar mun halda við og búa til félagsleg vandamál, frekar en að færa fram lausnir. Það er ekki verið að græða sár, sem við þurfum svo mjög á að halda, heldur er þetta eins og að setja plástur yfir gröft.“

Katrín minnir fátæka á þolinmæðina. „Við ætlum að vinna að því með verkalýðshreyfingunni að draga úr skattbyrði lágtekjuhópa.“

„Það er forgangsverkefni þessarar ríkisstjórnar að stuðla að félagslegum stöðugleika í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og þegar horft er til þess hvernig við forgangsröðum fjármunum,“ skrifaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Enn er boðuð bið eftir því sem fyrir hálfu ári var kallað réttlæti.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: