- Advertisement -

Bjarni: Benedikt á að vita betur

- frændurnir tókust á í þingsal Alþingis

„Þetta er auðvitað allt saman einhver eftiráspeki, að standa hér í dag og segja: Ja, það var náttúrlega augljóst í júní 2016 að gengi krónunnar var að fara að styrkjast. En þetta er ekki svona. Þeir sem láta svona ættu að vita mun betur,“ sagði Bjarni Benediktson forsætisráðherra og beindi orðum til frænda síns og samráðherra, Benedikts Jóhannessonar.

Benedikt hafði áður sagt að síðasta ríkisstjórn hafi misst af, og þá var Bjarni í forystu, tækifæri til að þurrka upp snjóhengjuna.

„Eftir á sjá allir að Íslendingar hefðu grætt mjög mikið á því að loka dæminu þá en menn misstu af því tækifæri. Það er rétt að minna á að mikill kostnaður fylgir því að halda úti stórum gjaldeyrisforða og Seðlabankinn hefur haft að undanförnu kostnað bæði af vöxtum og gengistapi,“ sagði Benedikt um framgöngu Bjarna, sem fjármálaráðherra, á síðasta ári.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Luku ekki verkinu

Um mitt ár í fyrra fór fram útboð á aflandskrónum þar sem viðskipti urðu á genginu 190 kr. á evru. Þátttaka í útboðinu olli vonbrigðum en í ráðuneytinu heyri ég að líklegt sé að á þeim tíma hefði verið hægt að þurrka snjóhengjuna svonefndu upp að mestu leyti ef gengið hefði verið 165–170 kr. á evru. Nú sjáum við glöggt að skynsamlegt hefði verið að ljúka viðskiptunum á því gengi. Þáverandi stjórnvöld ákváðu að gera það ekki, kannski vegna þess sjónarmiðs að með því hefði verið gert allt of vel við aflandskrónueigendur.

Eftir á sjá allir að Íslendingar hefðu grætt mjög mikið á því að loka dæminu þá en menn misstu af því tækifæri. Það er rétt að minna á að mikill kostnaður fylgir því að halda úti stórum gjaldeyrisforða og Seðlabankinn hefur haft að undanförnu kostnað bæði af vöxtum og gengistapi. Núverandi stjórnvöld spila úr þeim spilum sem eru á hendi núna og hafa að sjálfsögðu hagsmuni almennings í huga og að leiðarljósi þegar samkomulag er nú gert við aflandskrónueigendur. Aðalatriðið er að almenningur getur nú keypt evrur á miklu lægra verði en eigendur snjóhengjunnar. Efnahagslífið kemst undan höftunum strax.

Eftiráspeki Benedikts

Mér finnst það skjóta skökku við þegar menn koma hingað upp og segja að útboðið, sem haldið var um mitt ár í fyrra, hafi ekki verið vel heppnað. Staðreyndin er sú að við fengum þátttöku í því útboði sem var langt umfram það sem tekist hafði að fá fram í fyrri útboðum; langt, langt, langt umfram það. Veruleg fjárhæð sem þá losnaði, rétt um 70 milljarðar, ef ég man rétt, sem við náðum að losa í útboðinu. Vissulega stóð eftir há fjárhæð en engu að síður vel heppnað útboð sem var undanfari þess að við gátum hafið afnámsferli á innlenda aðila.

Einnig má segja, gagnvart þeim sem stilla þessu þannig upp að við höfum tapað einhverju með því að ganga ekki lengra á þeim tímapunkti, að hægt sé að horfa á þetta á hinn veginn og segja: Það var eins gott að við héldum útboð í fyrra, ekki satt, þegar gengi krónunnar var eins hátt og það er nú orðið í sögulegu samhengi. Þetta er auðvitað allt saman einhver eftiráspeki, að standa hér í dag og segja: Ja, það var náttúrlega augljóst í júní 2016 að gengi krónunnar var að fara að styrkjast. En þetta er ekki svona. Þeir sem láta svona ættu að vita mun betur.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: