- Advertisement -

Bjarni innkallar fjármálaáætlunina

Áætlunin morandi í villum og ekkert annað að gera en prenta leiðrétta útgáfu hið snarasta. „Það þýðir að það er vita gagnslaust að reyna að lesa fjármálaáætlunina núna þangað til það kemur leiðrétt útgáfa,“ segir Björn Leví.

„Ég var að frétta af því að það á að prenta upp annað eintak af fjármálaáætluninni vegna þess að það eru svo margar villur í henni. Í fyrra voru einhverjar villur, en ekki nægilega margar til þess að það þótti nauðsynlegt að prenta upp nýtt eintak,“ segir Björn Leví Gunnarsson Pírati nú fyrir skömmu.

Hann segir að nefndarritarar í fjárlaganefnd hafa ekki enn fengið eintak af fjármálaáætlun Bjarna Benediktssonar. „Þeir fengu ekki heldur boð á kynningarfund um fjármálaáætlunina eins og þeir fengu í fyrra. Nefndarritararnir hjálpa okkur þingmönnum við að fara yfir fjármálaáætlunina en hafa ekki getað gert það af því að þeir hafa ekki fengið eintak og þá dugar ekki að fara bara í rafræna eintakið á vefnum því það eru villur í því.“

Björn Leví segir villurnar sem hann sá hafi til dæmis verið um 10 milljarða mun á málefnasviðinu um fjármagnskostnað og lífeyrsskuldbindingar. „Billjón króna munur (já, billjón) í áætluðu markmiði um útflutningstekjur, þó nokkrar afritunarvillur þar sem markmiðin eru nákvæmlega þau sömu og í fyrra, að þar er vísað í 2018 en ekki 2019.“

Björn Leví er ekki sáttur við stöðuna: „Það sem er stórkostlega undarlegt við þetta er að þetta fréttir maður frá nefndarsviði en ekki frá forseta þingsins því villurnar virðast vera svo alvarlegar að það þarf upprentun. Það þýðir að það er vita gagnslaust að reyna að lesa fjármálaáætlunina núna þangað til það kemur leiðrétt útgáfa. Það væri kannski hægt ef maður vissi hvar villurnar væru. Það væri til dæmis hægt að koma rafrænu, leiðréttu, eintaki til þingmanna (og nefndarritara) sem fyrst til þess að það væri hægt að vinna eitthvað í málinu yfir helgina.“

Og slær út með þessu: „Efling Alþingis og ný vinnubrögð. Ha?“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: