- Advertisement -

Reykjavík kostar legstein við leiði Elku

Elka Björnsdóttir.

Mannlíf Reykjavíkurborg hefur samþykkt að heiðra minningu Elku Björnsdóttur verkakonu með því að reisa minningarmark við gröf hennar í Hólavallagarði við Suðurgötu, á fæðingardegi hennar 7. september nk.

Haædið verður málþing þar sem sjónum verður beint að sögu Elku og verkakvenna í Reykjavík í upphafi síðustu aldar. Málþingið er skipulagt í samvinnu við verkalýðshreyfinguna og Borgarsögusafn.

Elka Björnsdóttir verkakona fæddist 7. september 1881 að Reykjum í Lundarreykjadal. Árið 1906 fluttist hún til Reykjavíkur þar sem hún bjó til æviloka 3. mars 1924. Elka byrjaði að skrifa dagbók árið 1915 og gerði það nánast samfellt til ársins 1923. Dagbækurnar voru árið 2012 gefnar út í heild sinni og höfðu fram að því verið notaðar við rannsóknir sagnfræðinga og fleiri á atburðum sem áttu sér stað á ritunartíma hennar og sem samtímaheimild um líf fólks í Reykjavík á fyrstu áratugum síðustu aldar, ekki síst verkafólks og þeirra sem áttu undir högg að sækja í samfélaginu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í kynningu á Elku á kápu dagbókanna segir um hana að hún hafi verið verkakona í Reykjavík í upphafi 20. aldar. Hún var trúuð, þátttakandi í verkalýðsmálum, áhugasöm um menntir og menningu og framfarir en um leið íhaldssöm og fastheldin á hefðir. Hún var höfðingjadjörf og jafnréttissinnuð sveitakona sem fylgdist grant með því sem var að gerast í þjóðmálunum og tileinkaði sér margt af því sem nútíminn hafði upp á að bjóða.

Elka hefur sterka tengingu við Reykjavíkurborg þar sem hún vann við að ræsta skrifstofur Reykjavíkur á Tjarnargötu 12, þar á meðal skrifstofu borgarstjóra, sem og húsnæði slökkviliðsins sem á þeim tíma var á sama stað. Nefnir hún húsnæðið í dagbókum sínum „hið veglega ráðhús höfuðstaðarins við Tjörnina“ en þar vann hún og bjó til ársins 1922. Húsnæðið er enn í fullri notkun hjá Reykjavíkurborg og hýsir í dag m.a. skrifstofur borgarfulltrúa.

Leiði Elku Björnsdóttur verkakonu í Hólavallagarði er með öllu ómerkt og því vel viðeigandi að Reykjavíkurborg heiðri minningu þessarar merku konu með þeim hætti að merkja leiði hennar og lyfta um leið minningu hennar og verkum á loft með þessum hætti. Í garðinum eru þekktar og skráðar um 10 þúsund grafir en talið er að allt að 30 þúsund einstaklingar hvíli þar.


Booking.com

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: