- Advertisement -

Börnin sem átu byltinguna sína

Ólafur Sigurðsson, skiltakarl skrifar: Flestir þekkja söguna um byltinguna sem át börnin sín, söguna um byltingarsinnana sem urðu að lokum jafnspilltir sjálfir.

Sjaldnar heyrast sögur af því að bylting og mótmæli hefðu nýst sem farvegur fyrir spillta einstaklinga til að komast til valda. Þetta fannst mér þó vera það sem gerðist eftir stærstu mótmæli sem hér voru haldin þann 4/4/16 þegar ríkisstjórn Sigmundar forsætisráðherra féll út af  Panamaskjölunum.

Þessi mótmæli voru boðuð og skipulögð af Skiltakörlunum, um tveimur vikum áður. Þegar nær dró, varð þó ljóst að þetta yrði meiri viðburður en það sem til stóð en upphaflega voru þetta mótmæli gegn þjófnaði umboðslausrar ríkisstjórnar á eignum landsmanna, úr bönkum og fjármálastofnunum, á bak við luktar dyr og undir verndarvæng Bjarna Benediktssonar. Þetta var meginþema mótmæla okkar Skiltakarlanna, að vekja athygli á þjófnaði tiltekinna Engeyinga og fleiri úr þrotabúum bankanna. Kjörorðið var ákveðið ,,Kosningar Strax!“ og samin yfirlýsing, boðuð mótmæli og fært inn á fasbókarsíðu Skiltakarlanna.

Skiltakarlarnir eru undirritaður og vinur minn Leifur A. Benediktsson. Við erum báðir á sjötugsaldri, vinnum enn fullan vinnudag og höfðum einfaldlega áhyggjur af framtíðinni og börnunum. Við tókum sum sé upp á því að styðja við ýmis mótmæli og aðgerðir stuttu eftir hrun. Gerðum skilti, komum með fána og borguðum stundum auglýsingar í útvarpinu. Það var þó ekki fyrr en í mótmælunum í Landsbankanum sem við héldum sjálfir, að við neyddumst til að heita eitthvað til að geta auglýst mótmælin í útvarpinu. Okkur fannst þetta gott nafn því við vorum alltaf að gera skilti.

Þú gætir haft áhuga á þessum
„Seinna komumst við að því að þögnin var ekki vegna þess að erlendu blaðamennirnir vildu ekki tala við skipuleggjendur mótmælanna, það hafði bara einhver skipað sig blaðafulltrúa og skipuleggjanda mótmælanna og tók eiginlega öll viðtölin en það vissum við ekki þá.“

Þegar nær dró var okkur Leifi ljóst að þetta yrði eitthvað stærra en það sem við vorum vanir, það myndu sum sé fleiri en fimm til tíu manns mæta á mótmælin í þetta sinn. Kastljósþáttur um Panamaskjölin var auglýstur á sunnudeginum 3. apríl og fórum við þá strax í að fá fleiri í lið með okkur. Var talað við aðra aðgerðarhópa eins og Arkestra sem spiluðu á blásturshljóðfæri, Beinar Aðgerðir og graffarar bæjarins létu heldur ekki sitt eftir liggja og máluðu stóra dúka á göngubrýr fyrir morgunumferðina. Einnig töluðum við Leifur við Jæjahópinn sem auglýsti svo mótmælin á fasbókarsíðunni sinni líka.

Til að gera lengri sögu stutta, gengu mótmælin mjög vel. Það komu bara alltof margir því við vorum alls ekki undirbúin því að hafa ofan af öllu þessu fólki sem streymdi að allan daginn. Ég hafði reyndar tekið með mér forláta ferðafón og nokkrar vinylplötur, meðal annars MA Kvartettinn. Fór það vel ofan í mannskapinn og var gaman að sjá fólkið raula með laginu „Tóta litla tindilfætt…“  Þetta varð því bara frábær dagur og veðrið yndislegt. Við Leifur söfnuðum svo á Austurvelli í tvær stórar plastfötur til að geta borgað fyrir auglýsingar, hljóðkerfi, bíla o.fl. Vorum við báðir dauðþreyttir eftir þessa törn en það gekk allt svo vel.

Eftirleikurinn

Fyrir mótmælin var mikið á seyði. Símarnir hjá okkur gjömmuðu alla daga en daginn eftir á þriðjudeginum, þá þögnuðu símarnir, það voru ákveðin viðbrigði en mér fannst það ágætt því báðir vorum við í fullri vinnu. Seinna komumst við að því að þögnin var ekki vegna þess að erlendu blaðamennirnir vildu ekki tala við skipuleggjendur mótmælanna, það hafði bara einhver skipað sig blaðafulltrúa og skipuleggjanda mótmælanna og tók eiginlega öll viðtölin en það vissum við ekki þá.

Þá bar það til að okkur gekk illa að fá endurgreiddan útlagðan kostnað og kvörtuðu fleiri af samstarfsaðilum okkar um það líka. Við fórum því fram á fund um þetta því við Leifur höfðum tveir safnað næstum öllum peningnum sem átti að vera til að borga kostnaðinn.

Á þeim fundi (13/4) mætti Jæja fólkið og gjaldkeri þeirra. Bárum við saman bækur okkar og var ljóst að það hafði safnast um 300 þús. krónur. Þetta var jú eitt hlutverk Jæjahópsins, að telja peninginn, greiða reikninga og skipta svo restinni milli Jæjahópsins og Skiltakarlanna.

Við Leifur höfðum áður heyrt þær gróusögur frá fleirum en einum aðila að við höfðum safnað pening á Austurvelli og tekið hann fyrir okkur sjálfa. Við bárum þetta upp á þessum fundi við Söru Óskarsson sem er forsvarsmaður Jæjahópsins og baðst hún þá afsökunar á þessum misskilningi sínum. Það var fyrirgefið og var einnig lofað að borga öllum sitt og skipta svo afganginum í tvennt. Vorum við svo kátir félagarnir í skiltagerðinni að losna undan þessum lygasögum að við söfnuðum fyrir Jæjahópinn á nokkrum mótmælum þeirra, því þau vantaði víst alltaf pening.

En þetta var svikið. Reikningar frá okkur Leifi sem við afhentum voru jú greiddir en við heyrðum að aðrir hefðu aftur lent í leiðindum með að fá greitt útlagðan kostnað og uppgjörið lét standa á sér. Síðar fréttum við að um 140 þús. kr. væru afgangs en að við ættum ekki að fá okkar hluta sem væri gott að nota til áframhaldandi aðgerða. Þetta fannst okkur undarlegt eftir að hafa fundað með þessu fólki, að það gangi svo jafnharðan á bakvið orð sín. Sagði fólkið hjá Jæja að þau þyrftu að nota þennan pening sjálf. Það er rétt að geta þess að við Skiltakarlarnir lögðum öll gögn okkar og bankayfirlit á borðið á fundinum með Jæjahópnum en það gerði Jæjahópurinn ekki.

„Við fréttum um þetta leyti fyrir tilviljun að gjaldkeri Jæjahópsins hefði hætt og Sindri Viborg í Jæjahópnum sem var síðar kosinn í framkvæmdaráð Pírataflokksins, hefði komið og sótt sjóðinn.“

Kosningar strax!

Okkur fannst mikilvægt að fylgja eftir kröfunni sem var sett fram um ,,Kosningar strax.“ Tókst okkur að ná öllum saman og var haldinn fundur um það stuttu eftir mótmælin en Jæjahópurinn gekk þá á bak orða sinna daginn eftir. Þetta átti að vera sameiginleg yfirlýsing frá öllum hópunum sem stóðu að mótmælunum. Þetta kom soldið á okkur öll því við skildum ekki af hverju þau létu svona. Okkur fannst það svo mikilvægt að vinna úr málum eftir mótmælin, það þyrfti meira til en að mótmælin ein og sér. Þetta var miður.

Svo kom að prófkjöri hjá Pírötum. Þá tókum við eftir því að Sara Óskarsson formaður Pírata á Seltjarnarnesi og Jæjahópsins eignar sér allan heiður af mótmælunum 4/4 á auglýstri kosningasíðu sinni á fasbók.

Þetta kemur greinilega fram í viðtali Söru við erlendan fjölmiðil þar sem hún er titluð „….. chief organizer of Iceland´s historic protest movement.“

Hún gefur þar í skyn að hún sé aðalskipuleggjandi mótmælanna 4/4 og fjölmargra annara í mörg ár. Á sömu síðu ber hún uppá Skiltakarlana að hafa ekki „ ….tekið þátt í að borga útgjöldin tengd þeim.“  Þetta ber hún fram eftir að hafa beðið afsökunar á þessu stuttu áður. Þetta rímaði þó við þær sögusagnir sem við höfðum áður heyrt, að við höfðum stolið söfnunarfénu og værum að rukka Jæja hópinn um kostnaðinn.

Við báðum hana endilega að taka þetta niður enda vissi hún að þetta var ekki satt. Hún hlyti að skilja að fólk væri að tala um að við værum að stela af fólkinu sem mætti á mótmælin og að okkur fyndist það óþolandi. Prófkjörsvikan hjá Pírötum var að líða og þótti mér ótækt að þetta væri ekki tekið niður strax í þeirri sömu viku en þetta fékk samt að vera stóran hluta vikunnar.

Þar sem illa gekk að fá þetta leiðrétt hjá Söru, fannst okkur Leifi mikilvægt að leita þá einfaldlega til Jæjahópsins og væri þá von til að svona ósannindi yrðu tekin niður ef aðrir gætu talað við hana því flest var þetta gott fólk. Sendum við þá bréf til Jæjahópsins í skilaboðum en það sem gerðist þá var, að hún einfaldlega lokaði fasbókarsíðu Jæjahópsins á okkur báða. Við gátum þá hvorki kvartað þangað meir, né gert athugasemdir á fasbókarsíðu Jæjahópsins og er svo enn. Leitaði ég þá til forystumanna innan Pírata um þetta og var þetta tekið af síðunni og var þá einnig lofað óvænt að sjóðurinn yrði líka gerður upp en það var samt svikið.

Við fréttum um þetta leyti fyrir tilviljun að gjaldkeri Jæjahópsins hefði hætt og Sindri Viborg í Jæjahópnum sem var síðar kosinn í framkvæmdaráð Pírataflokksins, hefði komið og sótt sjóðinn. Sendi ég honum þá strax skilaboð um að koma okkar hluta til skila enda hefði það verið ákveðið á sameiginlegum fundi og svo framvegis. Hann hafnaði því algerlega, sagði að við Skiltakarlarnir hefðum fengið allt okkar, þetta væri þeirra sjóður (Jæjahópsins) og hann myndi „blocka“vbmig eins og Sara hefði þurft að gera og hann væri búinn að fá nóg af mér og Sara líka!

Þegar þarna var komið við sögu var okkur ljóst að Sara og reyndar fleiri í Jæjahópnum væru markvisst að rægja okkur Skiltakarlana og ætluðu að ræna sjóðnum. Þau töldu sig hafa skipulagt mótmælin og að þau ættu hann, – en gefum Söru bara orðið …. „En að því sögðu tók ég hitann og þungan af skipulagningu þessa dags, bæði fyrir og eftir og eins og áður segir fjárhagslega.“

Okkur átti sum sé að skiljast, að það væri Jæjahópurinn sem hefði skipulagt og haldið mótmælin og að Skiltakarlarnir hefðu verið að safna fyrir Jæjahópinn, jæja! Þar með vorum við komnir í þref við þau um hver hefði haldið stærstu mótmæli Íslandssögunnar. Þetta var orðið drama.

Verst þótti mér þó að hún vissi ekki um hvað mótmælin áttu að vera í upphafi því hún segir í viðtalinu sem hún birti á auglýstri fasbókarsíðu sinni„ …. the initial demands were that the prime minister resign, but as it got closer to this protest on Monday, we began to realize it was on a much bigger scale than just him. So it kind of shifted a bit from being just about him resigning over to, “We just want an election right away.”

„Það verður stundum að þola tækifærissinnana, þeir eru allsstaðar, í öllum flokkum en ef flokkurinn sem ætlar að berjast gegn spillingunni en sér svo ekkert athugavert við hana þegar hún blasir við.“

Prófkjör Pírata

Prófkjör Pírata fór vel fram, Sara og fleiri í Jæjahópnum náðu langt. Það mætti segja að það væri styrkur fyrir Pírataflokkinn að hafa öfluga og vel skipulagða aðgerðarsinna innan sinna raða, með beint samband inn í þingið. Það er því vel skiljanlegt ef Píratar hefðu kosið þannig.

Að svo komnu settum við upp tilkynningu á fasbókarsíðu Skiltakarlanna að það væri alls ekki rétt sem hefði komið fram um þjófnað Skiltakarlanna á söfnunarfénu og að við hefðum skilað öllu af okkur og þetta hefði verið sameiginlegt verkefni fjölda aðila. Einhvers staðar urðum við að bera af okkur sakir.

Þar sem kosningar voru í nánd var fljótlega hringt frá Pírötum, enda viðkvæmt mál fyrir Pírataflokkinn ef ljóst væri að væntanlegur þingmaður flokksins hefði hagað sér svona og  vorum við eindregið beðnir að taka niður tilkynninguna á fasbókarsíðu Skiltakarlanna og myndi þá Jæjahópurinn efna fyrri loforð um að standa í skilum á söfnunarfénu og setja út tilkynningu um að söfnunarféð hefði skilað sér og allt gert upp í góðri sátt. Það var gert og var það von mín að það myndi hjálpa til að slá á slúðrið og lagði ég alltaf áherslu á þetta atriði. Fengum við þó síðar að heyra það að frekjan í okkur hefði orðið til þess að Jæjahópurinn hefði þurft að borga okkur stórfé úr eigin sjóðum! Fórum við með þessar 70 þús. kr. í sömu viku og gáfum Fjölskylduhjálpinni.

Þetta hafðist þá loksins, bara með því að fara réttu leiðina og hefði þetta átt að vera sögulok en eftir stóð að Pírataflokkurinn sem hrósar sér af því að berjast gegn spillingu, veitir svo þessu fólki sem beitti rógi og blekkingum greiða leið í æðstu valdastofnanir sínar og það þótti mér soldið súrt. Sérstaklega þar sem þau sjálf vissu um hvað væri að ræða.

Eitt er hvernig ungt fólk finnur sér leiðir til frama innan stjórnmálanna en það sem knýr mig til að segja þessa sögu er hvernig Pírataflokkurinn meðhöndlaði málið.

Trúnaðarráðið

Svo vill til að innan Pírataflokksins er trúnaðarráð þar sem félagar geta leitað til flokksins með deilumál og býður Trúnaðarráðið „…. sáttamiðlun og aðstoð þegar upp kemur ágreiningur eða annar vandi í samskiptum og starfi félagsmanna.“ Einnig er mikið lagt upp úr Píratakóðanum innan Pírata, að við högum okkur vel í samskiptum og séum réttsýn osfrv.

Þess vegna leituðum við formlega til flokksins með þetta mál því okkur fannst við verða að vita í hvernig flokki við værum og hvort ætti nokkuð að gera í þessu?

Skrifuðum við Skiltakarlar þá saman bréf til Trúnaðarráðs þar sem sagan var rakin, öll gögn send með viðeigandi tilvísunum , afritum af samskiptum og fleira, rúmar 20. blaðsíður.

Aðal spurning okkar var að biðja um skoðun flokksins. „Því er þetta erindi sent Trúnaðarráði, til að hreinsa æru okkar Skiltakarlanna, meðlimi Pírataflokksins og spyrja álits þegar félagi okkar hirðir allan heiðurinn af því sem fjölmargir hafa unnið og þjófkennir samstarfsfólk og félagana sína í þokkabót á sama tíma og þau sjálf halda sjóðnum  öllum hjá sér! …. og notar þetta svo í prófkjörsbaráttu sinni.“

Haldin var stuttur fundur með tveimur aðilum trúnaðarráðsins sem þökkuðu sérlega góða og skýra greinargerð og viðurkenndi annar þeirra að hafa heyrt sögur af því að Skiltakarlarnir hefðu tekið söfnunarfé eða ekki skilað því inn. Þeir ætluðu svo að tala við Söru og svara loks skriflega.

Það var þó ekki fyrr en eftir fimm mánuði að svar barst frá trúnaðarráði, eftir ítrekun. Kjarninn í svarinu var einfaldur, þetta væri ekki á þeirra færi enda ekki hægt að ná sáttum (sem var reyndar ekki erindið) og svo hafði verið sent bréf.

Trúnaðarráð svaraði sum sé því til að það gæti ekki gert neitt og benti á; „…að Sara hafnar öllum ásökunum um að vera elta ólar við Skilta kallana öllu fremur lítur Sara á að málinu hafi verið lokið með yfirlýsingu sem nú þegar hefur verið birt.“

Flokkurinn getur ekkert gert því við viljum ekki vera vinir eftir þetta allt og svo er Sara búin að senda yfirlýsingu? Þó er ekki getið um innihald yfirlýsingarnar sem átti að útskýra mál Söru, enginn texti birtur eða afrit af þessari yfirlýsingu eða þýðingu hennar fyrir málið.

Það verður stundum að þola tækifærissinnana, þeir eru alls staðar, í öllum flokkum en ef flokkurinn sem ætlar að berjast gegn spillingunni en sér svo ekkert athugavert við hana þegar hún blasir við, heldur styður við hana með því að veita þannig fólki fullan frama innan flokksins og gerir heldur ekkert þó þeim sé bent á slíkt og fá öll gögn því til staðfestingar,  þá er sá flokkur ekkert öðruvísi en hinir og sagði ég mig þá úr Pírataflokknum í kjölfarið. Þarna átti ég ekki heima.

Eftir svar trúnaðarráðsins leið okkur eins og krakka á skólalóðinni sem verður fyrir einelti en er svo sendur heim eftir kvörtun svo hinir krakkarnir geti haldið áfram að leika sér í friði og svo svarar skólastjórinn skriflegri kvörtun um meðferðina með því að vitna í að krakkana sjálfa og bréf sem einhver þeirra skrifaði.

Sara komst á þing sem varamaður og er varaformaður þingflokksins. Jómfrúrræða hennar á Alþingi var um spillingu.

 Lokaorðin

Rétt er að geta þess að þetta er mest persónuleg frásögn okkar Skiltakarlanna af þessari reynslu en studd fjölda gagna. Í Jæjahópnum var sumt ágætisfólk og þó sumir í Pírataflokknum hafi tekið afstöðu með Jæjafólkinu og ráðist á okkur fyrir þessa gagnrýni, þá er margt mjög gott fólk þarna sem er alls ekki ætlunin að kasta rýrð á. Er það von undirritaðs að það geti bætt hér úr.

Ef einhver hefur áhuga á öllum gögnum málsins má senda tölvupóst á olisigur@gmail.com

Ólafur Sigurðsson, skiltakarl.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: