- Advertisement -

Dagur vill flugráð í bókasafnið

Kjartan segir borgarstjóra vera í kosningaham og hirða ekkert um kostnaðinn. „...einstaklingar sem þekktir eru af því að elska bækur, auka læsi og vera hugmyndaríkir...“

Dagur B, Eggertsson borgarstjóri hefur lagt fram tillögu um að stofnað verði tímabundið flugráð sem falið verið að fara í hugarflug vegna útfærslu á Grófarhúsi, menningarhúsi, húsinu sem hýsir Borgarbókasafnið.

Í tillögunni segir að unnið sé að stækkun Grófarhúss sem verði Hús orðsins og nái utan um samtal, lýðræði, orðlist og bækur og allra handa lifandi upplýsingamiðlun.

„Í þeirri vinnu verði einnig litið til svæðisins í kring og hvernig það geti stutt við starfsemi hússins, til dæmis með ævintýrasvæði fyrir börn og leikvelli, ásamt þjónustu við alla aldurshópa. Í þessum tilgangi verði sett á fót flugráð með breiðum hópi fólks á ólíkum aldri, svo sem fulltrúum barna og unglinga, rithöfundum, kennurum, innflytjendum og fleirum, ásamt fulltrúum umhverfis- og skipulagssviðs, borgarbókaverði og öðrum fulltrúum menningar- og ferðamálasviðs,“ segir í tillögu borgarstjóra.

Borgarstjóri í kosningaham

Bókasafn. „Í Grófarhúsi getur þróast sannkallað Hús orðsins með áherslu á barnabókmenntir, fjölþætt menningarstarf fyrir alla aldurshópa og margmiðlun.“

Kjartani Magnússyni, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, fannst tillaga Dags bera þess merki að kosningar eru framundan. „Því miður hefur Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tileinkað sér slík vinnubrögð í æ ríkari mæli í örvæntingarfullri baráttu fyrir borgarstjórnarkosningar í næsta mánuði þar sem kostnaður virðist ekki skipta máli. Sjálfsagt er að skoða nýjar hugmyndir um nýtingu hússins en óviðunandi er að í slíkri vinnu sé látið eins og kostnaður við verkefnið sé aukaatriði. Eru áðurnefndar spurningar því enn ítrekaðar og jafnframt óskað eftir því að fyrri kostnaðaráætlanir vegna verkefnisins verði lagðar fram án tafar.

Þeir sem elska bækur

Félagar Dags í meirahlutanum svöruðu Kjartani og sögðu bókasöfn um allan heim þróast á spennandi hátt og sama á við í Reykjavík. „Í Grófarhúsi getur þróast sannkallað Hús orðsins með áherslu á barnabókmenntir, fjölþætt menningarstarf fyrir alla aldurshópa og margmiðlun. Tillagan gerir ráð fyrir að einstaklingar sem þekktir eru af því að elska bækur, auka læsi og vera hugmyndaríkir og framsýnir verði kallaðir saman til að leggja á ráðin um hvernig hægt er að nýta þau frábæru tækifæri sem borgin á við þróun Grófarhúss til hins ítrasta.“

Tillaga Dags borgarstjóra var samþykkt.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: