- Advertisement -

Dino karatemeistari, ég og efasemdirnar

Viðhorf Fyrir meira en þrjátiu árum var ég ásamt mínu fólki á Mallorca. Allt stefndi í dæmigerða sólarlandaferð. En svo varð ekki alveg. Við gistum á litlu hóteli nokkuð ofarlega í byggðinni. Ef ég man rétt var kannski tuttugu mínútna gangur á ströndina. Sem Íslendingum þótti mikið. Gott og vel með það.

Mallorcaferðin sótti á mig meðan ég horfi á leik Alsír og Rússlands. Og þá vegna þess að næturvörðurinn á hótelinu var frá Alsír. Og með okkur tókst ágætur kunningsskapur. Hann hét Dino. Aðrir Íslendingar höfðu mörg orð um Dino við mig. Vöruðu mig við honum. Sögðu hann þetta og sögðu hann annað. Þar sem fólkið kom, til Mallorca, með sama flugi og ég, taldi ég víst að það þekkti Dino ekki neitt. Sem það gerði ekki. Dino var skemmtilegur maður. Lifandi og glaðlyndur.

En það var svo sem eitt og annað til í að hann var ekki alltaf nákvæmur í frásögnum. Efasemdir fólks og varnaðarorð þess varð til þess að ég tók að gera athugasemdir um eitt og annað í fari Dinos. Eitt sinn sagði Dino mér að hann hefði keppt í karate og ekki bara það, að hann hefði sigrað á Evrópumeistaramóti og eftir að hann hafði sagðt þetta hljóp hann eins hratt og hann gat og kom til baka með mynd, mynd þar sem hann var í ótrúlegu karatestökki. Ég, hálffullur af efasemdum, smellti í góm og lét í ljós efasemdir. Áður en ég vissi af stökk Dino hátt í loft upp, teinréttur í baki og með ógnarhraða sparkaði hann hægri fæti svona feti fyrir ofan höfuð mitt. Ég er eitthundrað áttatíu og fjórir sentímetrar. Stökkið fékk mig til að trúa.

En hvers vegna efaðist fólk og varaði við manni sem það þekkti ekki? Var það vegna húðlitarins? Vegna trúarinnar? Vegna þess að hann var öðruvísi í háttum? Ég veit það ekki.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég og Dino kepptum í sjósundi og veðjuðum hamborgara. Ég vann. Alsírbúar kunna ekki skriðsund, allavega ekki Evrópumeistarinn Dino. Þar sem hann tapaði varð hann að splæsa hamborgara. Ég gleymi ekki viðbrögðum hans þegar ég beit í hamborgarann. Hann hló og hann hló, og bara vegna þess að ég setti ekki olíu á „hamborgararessann“.

Dino fór með okkur í hjólatúr í annað þorp, þar hafði hann unnið á veitingstað. Þegar við komum þangað urðu fagnaðarfundir og við sem vinir Dinos fengum flottustu tertu staðarins að borða. Hún var mun flottari en 1.290 króna sneiðin við Mývatn.

Hraðbankar voru nýjung. Á heimleiðinni þurfti Dino að stoppa við hraðbanka. Setti kortið í, en fékk enga peninga. Hann reyndi aftur,og aftur. En ekkert gerðist. Ég úttroðinn af efasemdum taldi að stundin væri kominn. Svo ég bauð Dino peninga. Hann áttaði sig á hvers vegna. Hann móðgaðist ekki bara. Honum sárnaði. Ég baðst afsökunar, aftur og aftur. Hann horfði á mig, gekk að mér og faðmaði mig. Hafði áttað sig á aulaskap mínum

Síðar kom í ljós að Dino hafði yfirsést svoldið mikið, þegar hann sagði mér af sínum högum, en hann átti konu, Söru. Sem birtist einn daginn. Saman fórum við til Palma. Dino sá um að leigja bílinn. Hann vildi spara og sex fórum við á Fiat Pöndu. Það var þröngt. Svo var brotist inn í bílinn. Og enn efaðist ég um heilindi félaga míns.

Samskipti okkar við Dino krydduðu ferðalagið. Gerðu það eftirminnilegra en ella. Meðan ég horfði á leik Alsír og Rússlands hugsaði ég hversu rangt og óréttlát er að gefa sér hvernig fólk er, bara vegna þess hvaðan það kemur, hver hörundsliturinn er eða vegna hverrar trúar það er.

Kannski mótaði Dino, og efasemdirnar um hann, mig. Ég á mörg minningarbrot um Dino. Flest skemmtileg. Hann var mun betri maður en þau töldu sem þekktu hann ekki. Verð samt að segja að um hálfu ári eftir ferðalagið hringdi Dino til mín. Sagði sig og Söru vera í vanda og hann vildi koma til mín, flytja til Íslands. Ég sagði nei.

Sigurjón Magnús Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: