- Advertisement -

Einn flokkur fær allan ríkisstyrkinn

Samfélag Auðvitað, og sem betur fer, stenst fyrirsögnin ekki. Hún er röng. Þannig séð.

Stjórnmálaflokkar eru lýðræðinu nauðsyn. Þeir eru ekki einir um það. Fjölmiðlar eru það líka. Það er þeirra að halda uppi lýðræðislegri umræðu auk svo margs annars.

Ríkisvaldið, og þar eiga allir flokkar aðkomu, hefur valið að láta ríkispeninga renna til allra flokka sem ná kjöri til Alþingis sem og þeirra sem ná ekki kosningu, en voru nærri því.

Ríkisvaldið, og þar eiga sömu flokkar aðkomu, hafa ákveðið að láta verulega ríkispeninga renna til fjölmiðlis, enn bara til eins fjölmiðils. Aðrir, sem þó hver og einn gerir hvað hann getur til að sinna lýðræðislegu hlutverki sínu, fá ekki eina krónu. Ekki eina krónu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Afleiðingarnar eru augljósar. Aðrir fjölmiðlar berjast við dauðann hvern dag. Undantekningarnar eru þeir fjölmiðlar sem hafa aðgang að duldum, leyndum eða öðrum sjóðum. Sjóðum sem vilja fá sitt. Skilyrða starf fjölmiðlanna. Skekkja myndina með því að ætla sínum fjölmiðlunum að verja eða sækja fram með hagsmuni fárra. Það er vont.

Það er líka vont að kjörnir fulltrúar skuli gera allt sem þeir geta til að kæfa frjálsa fjölmiðla. Það sem hér er skrifað er ekki sagt gegn starfsfólki ríkisútvarpsins. Þar starfar margt mjög hæft fólk og annað ekki eins gott. Bara einsog gengur.

Það styttist í fullnaðarsigur stjórnmálanna. Frjálsu fjölmiðlarnir eru að drepast eða hið minnsta að veikjast verulega. En hvers vegna kjörnir fulltrúar þjóðarinnar vilja hafa þetta svona er með öllu óskiljanlegt.

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: