- Advertisement -

Engin svör um 100 milljónirnar til FH

„...að bæjarstjóri og formaður bæjarráðs viti ekki hvernig þeim 100 milljónum sem greiddar voru til FH þann 16. ágúst var varið...“

Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir, bæjarfulltrúi Bæjarslistans í Hafnarfirði, reynir hvað hún getur til að fá að vita hvers vegna Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri greiddi FH eitt hundrað milljónir króna.

Guðlaug bókaði um tilraunir sínar til að fá svör.

„Óska eftir upplýsingum um það hvenær nákvæmlega (dagsetning) 100 milljónir króna voru greiddar til Fimleikafélags Hafnarfjarðar, sem fjallað var um í viðauka í bæjarstjórn í gær,“ segir í fyrirspurn Guðlaugar.

Því var svarað á þennan veg síðar sama dag:

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sæl Guðlaug,

Á fundi Kaplakrikahóps þann 16. ágúst s.l. var samþykkt að greiða kr. 100 millj. til Fimleikafélags Hafnarfjarðar skv. rammasamkomulagi milli Hafnarfjarðar og FH og var greiðslan innt af hendi í lok þess dags.

Með kveðju, Rósa Steingrímsdóttir, Sigríður Kristinsdóttir.

Framhaldsfyrirspurn var send stuttu síðar sama dag:

Takk.

Á félagið FH semsagt?

Og í hvað var féð notað? Hvað var verðið á dúknum finnska?

Var þetta hluti af kaupverði húss? Hvar er þá sá kaupsamningur?

Óska eftir fundargerð hópsins.

Og annað: hvernig stendur á því að endurskoðandi bæjarins er orðinn hluti af framkvæmdavaldi bæjarins? Hver á að endurskoða þessa gjörninga?

Fimm dögum síðar barst eftirfarandi svar:

ágúst kl. 11:52

Sæl Guðlaug,

Fyrirspurn þín er móttekin.

Verið er að vinna að svari við henni.

„Í dag er 13. september og enn liggur ekki fyrir svar frá bæjarlögmanni, sviðstjóra stjórnsýslu, við þessum fyrirspurnum. Hér í dag er því svarað að upplýsingar verði lagðar fram á næsta fundi starfshóps, sem hingað til hefur ekki skilað frá sér fundargerðum,“ bókar Guðlaug.

„Ég undrast þennan vandræðagang, að Hafnarfjarðarbær geti ekki lagt fram gögn eða staðfest eigin embættisfærslur með skjölum. Það eitt og sér er slæmt, að þriðja stærsta sveitarfélag landsins geti ekki aflað gagna um eigin stjórnsýsluframkvæmdir. Ef það er hins vegar ekki skýringin á þessum drætti á svörum, þá er hér um afar ámælisverða leyndarhyggju að ræða, sem er til þess fallin að skapa vantraust og tortryggni á þessum viðskiptum öllum.

Undirrituð óskar staðfestingar hér í dag á því að ekki liggi fyrir fundargerðir Kaplakrikahóps, með öðrum orðum að ekki sé vitað hvað fram fór á fundum hans í síðasta mánuði. Einnig óska ég að það sé staðfest sem fram kom í umræðum í bæjarráði í dag, að bæjarstjóri og formaður bæjarráðs viti ekki hvernig þeim 100 milljónum sem greiddar voru til FH þann 16. ágúst var varið og geti ekki fengið þær upplýsingar frá viðskiptaaðilanum, nema gegnum fundarsetu í Kaplakrikahópi. Vakin er athygli á því að enginn aðalbæjarfulltrúi á sæti í umræddum starfshópi, sem bendir þá til þess að kjörnir fulltrúar geti ekki fengið upplýsingar um málið með beinum hætti.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: