- Advertisement -

Erindisleysi heilbrigðisráðherra

Hvað er fyrir utan þetta box, sem allir tala um? Allt er á fallandi fæti og vanmáttur Svandísar eykst dag frá degi.

„Hins vegar er það afstaða mín að þegar hnúturinn er orðinn svo harður sem raun ber vitni þurfi að hugsa út fyrir boxið,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á Alþingi, þegar hún talaði um erfiða stöðu í ljósmæðradeilunni.

Vilhjálmur vill líka hugsa út fyrir boxið.

Stjórnarþingmaðurinn, Vilhjálmur Árnason Sjálfstæðisflokksins, var greinilega með þessi viðhorf Svandísar og sagði: „Ég tel því að það sé mikilvægt, eins og hæstvirturráðherra kom inn á, að horfa út fyrir boxið og reyna að finna viðunandi lausn sem fyrst.“

Það er stórmerkilegt að þetta geti verið gilt svar, að það þurfi að hugsa út fyrir boxið. Hvað er átt við? Hvað er fyrir utan þetta box? En sennilega er vitað hvað er innan þess. Þar er eflaust átt við grjórharða afstöðu Bjarna Benediktssonar, þar sem hann hefur ekki enn gefið samninganefnd ríkisins umboð til samninga. Heldur mætir nefndin umboðslaus ítrekað í karphúsið.

Bjarni Benediktsson.

Aumingja Svandís, sem ber ábyrgð á heilbrigðismálum, sagði á þingi: „Ég mun áfram beita mér eins og ég get, ég mun beita mér í gegnum Landspítala, háskólasjúkrahús, í gegnum fjármálaráðherra og forsætisráðherra og líka með samtölum við ljósmæður.“

Ekki er annað að sjá en að það sé fullreynt með fjármálaráðherrann, þá á hún eftir að lobbýast í spítalanum, Katrínu og langþreyttum ljósmæðrum, sem hver af annarri segir upp störfum. Allt er á fallandi fæti og vanmáttur Svandísar eykst dag frá degi.

Ofan á þetta bætist að ljósmæður eru ekkert einsdæmi. Konur hér og þar eru að gefast upp. Þær hafa alltof lág laun og vinnuálag er umfram allt eðlilegt.

„Hvað þann þátt varðar hef ég möguleika til að beita mér í gegnum Landspítalann og aðrar heilbrigðisstofnanir. Það hef ég gert og mun gera áfram, bæði til að lyfta kjörum ljósmæðra en einnig annarra kvennastétta í heilbrigðisþjónustu,“ sagði Svandís. Hún ítrekar að vettvangur hennar sem ráðherra er ekki í stjórnarráðinu, hennar vettvangur er í lobbýismanum.

Svandís veit að lobbýisminn dugar skammt: „Að mínu mati þarf pólitískan vilja til að stíga skref í átt að raunverulegum kjarabótum fyrir þær kvennastéttir sem hér um ræðir,“ sagði hún. Enn svo illa er fyrir henni komið að hún finnur sýnilega ekki þennan pólitíska vilja innan eigin ríkisstjórnar. Það hlýtur að vera fúlt. Þetta mál er stærsta skrefið í sundrungu milli ríkisstjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: