- Advertisement -

Fær sjaldnast rétt reiknuð laun

- launadeild Reykjavíkurborgar vill aðeins tala við yfirmanninn hennar, ekki hana sjálfa.

Texti og mynd, Alda Lóa: „Vinkona mömmu er íslensk og býr með manni sínum heima í Mexíkó. Ung dóttir þeirra hjóna varð ástfangin og gifti sig, of snemma að mati foreldranna. Þess vegna sendu þau hina dóttur sína til Íslands í von um að hún myndi einbeita sér að námi og forða henni frá strákunum, en sú dóttir kynntist manni á Íslandi og giftist hérna, hún var enn þá yngri en sú sem gifti sig í Mexíkó. „Þetta er þín sök!“ sagði vinkona mömmu við mexíkanska manninn sinn, „þú tókst þér íslenska konu og núna er lífið að jafna býttin, Ísland vildi fá eitthvað til baka og tók dóttur okkar.“ Ég kom hingað að heimsækja vinkonu mína, þessa dóttur þeirra, þá var ég bara 25 ára og kynntist mínum manni og er hérna enn þá tuttugu árum síðar.

Maðurinn minn er hálf þýskur og alin upp af afa sínum og ömmu sem komu hingað eftir stríðið. Þau tóku mér ekki fagnandi, sérstaklega ekki amman og vildu ekkert af mér vita. Ég held að amman hafi verið með fordóma af því ég kem frá Mexíkó, hún var stríðsbarn, hún sá mig ekki eins og manneskju, og vildi ekki vita af mér, þetta var togstreita í mörg ár, en maðurinn minn stóð alltaf með mér. En þetta olli því að ég fór aldrei í neitt frekara háskólanám og fór í staðin að vinna, til þess að sanna að ég gæti staðið undir mér.

Löngu síðar kynntist ég ömmunni, þá var hún að byrja fá Alzheimer, hún tók upp á því að koma við hjá mér þótt ég væri ein heima með börnin, hún kom með mat handa mér af því henni fannst ég vera svo mjó. Sem betur fer kynntumst við betur áður en hún dó.

Ég á þrjú börn, 11, 12 og 17 ára og ég er í þrem vinnum sem samanlagt gera 100% vinnu. Ég baða í Hvassaleiti, aðstoða í eldhúsinu á Sléttuvegi og tek vaktir í heimaþjónustunni í Furugerði. Ég hjálpa þeim að baða sig sem treysta sér ekki sjálfir, hjálpa þeim að þvo á sér hárið. Heimaþjónustan er öðruvísi, ég er þar með innlit, hátta og gef meðölin. Samstarfskonur mínar urðu agndofa þegar ég missti það út úr mér að ég kyssti gamla fólkið á kinnina góða nótt. Það var eins og ég hefði gert eitthvað af mér. Ég skildi ekkert, ég hélt bara að þær gerðu það líka. En ég er glöð hérna ég held að ég hafi lent á góðum vinnustað, við erum stór hópur hérna sem vinnum mjög vel saman, ég get unnið með öllum hérna, sem ég held ekki að sé endilega sjálfgefið á svona stórum vinnustað. Það er hlýja á vinnustaðnum og ég gleymi eigin vandamálum um leið og ég kem í vinnuna og hitti félaga mína.

Maðurinn minn er samt farinn að líta eftir annarri vinnu fyrir mig og ég þarf að ítreka við hann að mér líði vel með mínum félögum. En það er erfitt fyrir hann að horfa upp á mig alltaf svona stressaða þegar líða fer að mánaðamótum, að fá launaseðilinn minn veldur mér svo miklum kvíða af því málið er að ég fæ sjaldnast rétt laun. Það telst til undantekningar að launin mín séu rétt reiknuð og þá þarf ég að hafa samband við launadeild Reykjavíkurborgar og fá þau leiðrétt.

Ég þarf alltaf að fara í gegnum launaseðilinn minn gaumgæfilega og skoða hvort þau borgi mér rétt laun og nýti persónuafsláttinn minn rétt. Ég var að breyta og fara úr því að vera á tímakaupi og fara í það að vera fastráðin, en þá fékk ég ekki greitt fyrir vinnuna í heimaþjónustunni, ég hringdi og spurði um kaupið mitt, mér var sagt að þau höfðu gleymt sér og ég fengi það sem upp á vantaði greitt um næstu mánaðamót, ég fékk sem sagt bara borgað fyrir eldhúsvinnuna og baðþvottinn. Skýringin sem ég fæ er að það séu svo fáliðuð hjá launadeild borgarinnar.

Í sumar tóku þau allt of of mikið af mér og mér var sagt að það væri skatturinn, ég fékk 50 þúsund krónur útborgaðar. Ég fór í skattinn og þeir sögðu mér að þetta væri launadeildin. Þá viðurkenndi launadeildin mistökin og sagði mér að ég fengi þetta leiðrétt um næstu mánaðamót. En kreditkortið getur ekki beðið og vextirnir safnast upp. Ég þarf alltaf að fara yfir launaseðilinn minn, og ég fór líka í Eflingu og þar var maður sem skoðaði tímana og staðfesti að ég reiknaði rétt.

Ég má ekki hringja sjálf, mitt símtal er ekki tekið, ég þarf alltaf að fara til míns yfirmanns og útskýra og hann verður að taka samtalið. Síðan verður hann að tilkynna mér hvað launadeildin sagði og svona heldur sagan áfram. Lldin hjá borginni vill bara tala við yfirmanninn minn. Þetta tekur svo mikinn tíma, ég átti frí og ég veit ekki hvað ég talaði við yfirmanninn minn oft og skattinn til skiptis, sat út í móa í útilegu með tvo síma. Ég var með fólk hjá mér í heimsókn og allt í einu átti ég bara 50 þúsund krónur. Það er alltaf eitthvað rugl, í það skiptið kom í ljós að launadeildin hafði notað persónuafsláttinn minn vitlaust. “

Marcila Soto baðar í Hvassaleiti, vinnur í heimaþjónustunni í Furugerði og aðstoðar í eldhúsinu á Sléttuvegi og er félagi í Eflingu.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: