- Advertisement -

Falskur tónn Viðreisnar og hægri glundroði

Styrmir Gunnarsson skrifar um nýafstaðnar kosningar í Morgunblað morgundagsins. Hann veltir sýnilega fyrir sér hægr væng stjórnmálanna. Einkum í Reykjavík.

Viðreisn fær sína sneið frá ritstjóranum fyrrverandi:

„Viðreisn hefur sömuleiðis fest sig í sessi með því að fá fulltrúa kjörna í borgarstjórn en það er einhver falskur tónn í þeirri ákvörðun flokksins að ganga til samstarfs við flokka á vinstri kanti, sem misstu meirihluta sinn í kosningunum, þegar horft er til málflutnings frambjóðenda Viðreisnar í kosningabaráttunni. Ágreiningur um aðild að ESB kemur ekki við sögu í borgarstjórn.“

Víst er að Styrmir er ekki einn um þessa skoðun, einkum þar sem Viðreisn kom hægra megin að Sjálfstæðisflokknum í kosningabaráttunni.

Styrmir skoðar stöðu síns gamla flokks:

„Þau umskipti, sem urðu í fylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í kosningunum, eru mikilvæg fyrir flokkinn, þótt fylgið í höfuðborginni sé auðvitað langt frá því, sem það var fyrr á tíð. Í flestum stærstu sveitarfélögum landsins fór það hins vegar minnkandi.

En það er umhugsunarefni fyrir flokkinn hve mikil áherzla er lögð á að halda honum utan meirihluta í borgarstjórn. Að einhverju leyti er það ímyndarvandi frá því á árum áður en þýðingarmikið að Sjálfstæðisflokkurinn horfist í augu við hann.

Kannski á hinn nýi borgarstjórnarflokkur eftir að láta til sín taka í þeim efnum en augljóst er að þar er komið til sögunnar nýtt afl í innanflokksmálum sjálfstæðismanna.“

Það er auðvelt að skilja vangaveltur Styrmis. Hvers vegna keppast aðrir flokkar við að segjast ekki vilja vinna með Sjálfstæðisflokki? Sennilega þarf ekki að leita langt til baka eftir skýringum. Formaður flokksins er trúlega sá stjórnmálamaður sem almenningur hefur hvað minnstar mætur á. Þar spilar nokkuð stóra rullu aflandsfélögin og önnur misheppnuð þátttaka hans í viðskiptum.

En svo er það Miðflokkurinn: „Miðflokkurinn hefur fest sig í sessi og ekki hægt að útiloka að þar sé að verða til flokkur af þeirri gerð, sem í nálægum löndum hefur ýmist höggvið skarð í þá hægriflokka, sem fyrir eru, eða jafnvel ýtt þeim til hliðar, eins og m.a. hefur gerzt í Danmörku. En jafnframt er athyglisvert að flokkar, sem hafa orðið til enn lengra til hægri, hafa engum árangri náð.“

 

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: