- Advertisement -

Fjármálaáætlunin fékk falleinkunnir

Engar breytingar gerðar í fjáralaganefnd þar sem fjármálaráðuneytið vildi það ekki. Engin menntasókn. Að óbreyttu verða einbreiðarbrýr allt til ársins 2042.

Ágúst Ólafur Ágústsson.
Ekki króna er sett í barnabætur til viðbótar. Ekki króna er sett í vaxtabætur.

„Hin nýafgreidda fjármálastefna fékk 80 athugasemdir og ábendingar frá fjármálaráði og falleinkunn frá flestum hagsmunaaðilum. Þrátt fyrir það vildi meiri hluti fjárlaganefndar ekki gera eina einustu breytingu á stefnunni því ráðuneytið vildi líklega ekki gera breytingar,“ sagði Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar í umræðum á Alþingi.

Ágúst Ólafur sagði margt sem valdi vonbrigðum í áætluninni.

„Það er í raun nokkurt afrek að uppskera óánægju flestra sem hafa fjallað um hana hingað til, sérstaklega í ljósi þess að um er að ræða samanlögð ríkisútgjöld til fimm ára og því erum við að tala um tæplega 4.500 milljarða útgjöld. Ekki króna er sett í barnabætur til viðbótar. Ekki króna er sett í vaxtabætur, helmingi minna er sett í uppbyggingu leiguíbúða, framhaldsskólinn fær nánast ekkert viðbótarfjármagn á næstu fimm árum og háskólastigið fær minni prósentuhækkun en það sem fyrri ríkisstjórn var búin að ákveða og háskólarnir fá í rauninni einn þriðja af því sem var lofað í stjórnarsáttmálanum sem lýtur að OECD-viðmiðinu.“

Ágúst Ólafur sér ekki boðaða menntasókn. „Þá er aukningin til aldraðra og öryrkja fyrst og fremst vegna fjölgunar í þeim hópi. Meira að segja samgönguátakið mikla nær ekki einu sinni langtímameðaltali fjármagns í þann málaflokk.“

Álfheiður Eymarsdóttir:
Að óbrettu verða einbreiðar brýr allt til ársins 2042.

Álfheiður Eymarsdóttir, varaþingmaður Pírata, skrifar um þetta á Facebook. „Framlög til samgöngu- og fjarskiptamála LÆKKA eftir þriggja ára átakið 2019-2021. Skv. fjármálaáætlun til næstu fimm ára verða framlögin árin 2022 og 2023 lægri en framlögin 2017 og 2018. Samgönguráðherra fór því með rangt mál þegar hann hélt því fram að framlög til samgöngumála hækkuðu á tímabilinu.

Ef við fylgjum þessari fjármálaáætlun, þá heyra einbreiðar brýr á þjóðvegi eitt ekki sögunni til fyrr en 2042,“ skrifar Álfheiður.

„Vanræksla á ofangreindum atriðum og skattstefna brauðmolakenningarinnar kemur kannski ekki á óvart í tilviki Sjálfstæðisflokksins þótt það ætti að gera það í tilviki Vinstri grænna,“ sagði Ágúst Ólafur.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: