- Advertisement -

Formaður Framsóknar er fullur efasemda

- vogunarsjóðirnir verða ekki settir fremst í röðina eins og gert var í þetta sinn undir forystu hæstvirtar fyrrverandi ríkisstjórnar, segir fjármálaráðherra.

Svo er að heyra að fyrrverandi forsætisráðherra sé ekki viss um að hann fái rétt svör.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, hefur efasemdir um viðskiptin með Arionbanka. Hann nýtti fyrirspurnartíma á Alþingi, þar sem hann lagði nokkrar spurningar fyrir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.

„Í hvaða samskiptum áttu kaupendur við yfirvöld, fjármálaráðherra og/eða Seðlabanka, í aðdraganda kaupanna? Kynntu kaupendur á einhverjum tímapunkti áform sín um að kaupa hluti í Arion banka? Það má líka spyrja: Hafa hæstvirtur fjármálaráðherra eða starfsmenn hans hitt þessa vogunarsjóði til að ræða kaup þessara aðila á Arion banka? Er fjármálaráðherra tilbúinn að leggja fram fundargerðir frá New York fundinum með upplýsingum um hverjir sátu þann fund og um hvað var rætt?“

Arðurinn úr landi

Þú gætir haft áhuga á þessum

Efasemdir þingmannsins eru augljósar. Hann hélt áfram: „Forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa keppst við að lofa þetta, kallað þetta tímamót og sagt þetta sýna styrkleika í efnahagslífi þjóðarinnar. Tímamótin virðast því miður aðallega felast í því að nú virðist arðurinn eiga að renna úr landi, frá bankanum til erlendra eigenda, og vaxtagreiðslur heimilanna renna þar af leiðandi þangað. Því er áhugavert að bæta við þeim spurningum hvort salan á 30% hlut Arion banka sé í samræmi við eigendastefnu stjórnvalda. Og verða erlendis sjóðir jafn velkomnir fjárfestar þegar kemur að sölu á ríkisbönkunum? Verður það líka talið styrkleikamerki og tímamót?“

Hef ekki átt í neinum samskiptum

Benedikt Jóhannesson svaraði: „Því er til að svara við fyrirspurn hváttvirts þingmanns að ég hef ekki átt í neinum samskiptum við þessa kaupendur. Mér er ekki kunnugt um að neinn þessara kaupenda hafi átt í samskiptum við starfsmenn fjármálaráðuneytisins. Það er rétt að minna á að það er ekki ríkið sem er að selja þessa hluti, það er Kaupslit sem er að selja þessa hluti minnir mig að það heiti, þ.e. það er slitabú Kaupþings sem er að selja hlutina.“

Hann minnti því næst Sigurð Inga á verk fyrri ríkisstjórnar: „Þegar gerðir voru stöðugleikasamningarnir við þessi slitabú í fyrra var það gefið upp að þeir mættu selja hlutina samkvæmt ákveðnum reglum. Ég reikna með því að háttvirtur þingmaður sem sat þá í ríkisstjórn hafi fallist á þær reglur fyrir sitt leyti.“

Stend við orð mín

Nú um fundinnn í New York. „Það vill nú svo til, af því hann hefur áður vísað til þessa fundar sem leynifundar, að háttvirtur þingmaður vissi nú af þeim fundi fyrir fram og hverjir myndu sitja hann fyrir Íslands hönd, en ég get vel upplýst það hér. Það voru Benedikt Árnason úr forsætisráðuneytinu, Guðmundur Árnason úr fjármálaráðuneytinu og Jón Sigurgeirsson úr Seðlabankanum. Ég get alveg staðið við þau orð mín síðast að ekki var gengið frá neinum samningum á þeim fundi enda var ég búinn að lofa því að upplýsa það ef eitthvað slíkt yrði þegar í stað.“

Með blessun stjórnvalda

Sigurður Ingi var ekki sáttur og spurði hvort það væri mat Benedikts að kaup erlendra vogunarsjóða séu til þess fallin að auka trú almennings á Íslandi á bankakerfinu?

„Telur hæstvirtur fjármálaráðherra að með þessu sé eignarhald á Arion banka gagnsætt? Í ljósi orða ráðherrans hér fyrr í umræðum: Telur ráðherra að þessi sala falli undir vönduð vinnubrögð? Er þetta það að vanda sig? Ég vil ítreka spurninguna sem ég spurði hér áðan: Verða erlendir sjóðir jafn velkomnir fjárfestar þegar kemur að sölu á ríkisbönkum? Verður það einnig talið styrkleikamerki og tímamót?“

Hann hélt áfram: „Ég verð að lýsa því yfir hér, frú forseti, að það er mjög erfitt að komast að annarri niðurstöðu í ljósi alls sem gerst hefur í samskiptum við aðila sem vilja fjárfesta á en að kaupendur hafi orðið sér út um blessun yfirvalda áður en var gengið til kaupanna. Það kaupir enginn banka á Íslandi eða erlendu landi án þess að ráðfæra sig við yfirvöld. Það virðist af svörum ráðherrans að þetta sé í samræmi við svokallaða eigandastefnu stjórnvalda. Vill ráðherrann bregðast við því?“

Fyrri ríkisstjórn setti vogunarsjóðina fremst

Benedikt fékk tækifæri til að svara. „Ég vil fyrst svara því í sambandi við vinnubrögðin að háttvirtur þingmaður þekkir það auðvitað mjög vel að hér er samfélag þar sem menn virða samninga og ríkisstjórnin sem háttvirtur þingmaður sat í á sínum tíma gerði samninga um hvernig sýsla mætti með þessi hlutabréf, þannig er það gert.“

Benedikt vill vita hverjir kaupendurnir eru. „Ég held hins vegar að það sé alveg rétt að ástæða sé til þess að íhuga hverjir hinir endanlegu eigendur eru. Eru allir sem eiga vogunarsjóði slæmir eigendur? Eða gæti það verið að einhverjir sem eiga vogunarsjóði séu bara mjög virðingarverðir eigendur sem við viljum mjög gjarnan hafa sem eigendur að íslenskum bönkum? Ég held hins vegar að þegar aðrir hlutir sem eru í eigu ríkisins verða seldir muni verða viðhöfð önnur vinnubrögð. Vogunarsjóðirnir verða ekki settir fremst í röðina eins og gert var í þetta sinn undir forystu hæstvirtar fyrrverandi ríkisstjórnar.“

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: