- Advertisement -

Fótboltinn gefur eftir

Íslandsmótið. Fáir koma til að horfa á leikmennina spila.

Hversu fáir áhorfendur koma til að horfa á leiki í Íslandsmótinu í fótbolta er eftirtektarvert. Um nýliðna helgi komu innan við átján hundruð áhorfendur á leik KR og FH, sem er eflaust fádæma fáir á leik þessara liða. Mun færri áhorfendur sáu aðra leiki um helgina. Meðalfjöldi áhorfenda á leik efstu deildar um helgina voru innan við eitt þúsund.

Hvað veldur svo miklu áhugaleysi? Samanburður við fótbolta í sjónvarpi kann að skýra eitthvað. Annað er einnig líklegt og mikið alvörumál sé það rétt. Það er að meðalaldur áhorfenda hækkar með hverju ári. Nýliðun áhorfenda er lítil og trúlega nokkuð undir því sem þarf til að halda í horfinu.

Sennilega er fátt, eða þá nokkurt, sem fær aðra eins kynningu í fjölmiðlum og Íslandsmótið í fótbolta. Þrátt fyrir það tekst ekki að fjölga áhugasömum, allavega ekki svo áhugasömum að þeir sæki leikina.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Staða Akureyringa er nokkuð sérstök. KA leikur nú í efstu deild eftir, ef rétt er munað, þrettán ára fjarveru. Samt komu aðeins rúmlega sex hundruð á völlinn þar um helgina. Þó hefur liðinu gengið umfram vonir. Færri sá leik á Akureyri um helgina en í Grindavík, svo dæmi sé tekið.

Fótbolti og ágæti hans er eitt. Annað er aðstaða áhorfenda. Hún þarf ekki bara að vera boðleg, hún þarf að vera góð. Keppt er við aðra afþreyingu sem stendur fólki til boða. Það eru breyttir tímar.

Áður hefur verið fjallað um aðstöðuna hjá KR, á þessum vettvangi. Sjá greinina; Staðnað stórveldi í vesturbæ.

Stjórnendur félaganna og Knattspyrnusambandsins hafa vonandi áhyggjur af þeim breytingum sem nú eru að verða.

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: