- Advertisement -

Framíð ríkisstjórnarinnar í óvissu

Mikið ber í milli í afstöðu þingmanna Sjálfstæðisflokksins og þingmanna Viðreisnar, varðandi aðkomu ríkisins að lausn kjaradeilu sjómanna og útgerðarinnar. Meðan sjálfstæðismenn margir hverjir kalla eftir aðkomu ríkisins þverneita ráðherrar Viðreisnar, þau Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Benedikt Jóhannesson, að höggva á hnútinn.

Páll Magnússon, formaður atvinnuveganefndar, sagði í Kastljósi að leysi ríkisstjórnin ekki úr vandanum, verði þingið að gera það. Engum dylst að Páll hótar þar með eigin ríkisstjórn. Meðan ekkert gerist er víst að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar er vægast sagt í óvissu, jafnvel í hættu.

Vitað var að ríkisstjórn með minnsta hugsanlega meirihluta stendur tæpt. Páll hefur verið ósáttur frá myndun ríkisstjórnarinnar og hann er það sýnilega enn. Og það sem meira er, hann er ekki einn um að vera ósáttur og líklegur til að nýta sér tæpan meirihluta á þingi.

„Heldur þú að ríkisstjórnin lifi þetta af,“ spurði einn mig í dag, maður sem fylgist grannt með því sem er að gerast. Já, ég held það. Reynslan sýnir að ráðherrar éta oft hrátt og soðið til að halda í stólana sína. Svo verður eflaust nú.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hitt er annað. Það er búið að opna sár og fleiri opnast. Það setur ríkisstjórnina í vanda, setur hana í óvissu.

Nú er að sjá hver sigrar. Sá hluti Sjálfstæðisflokks sem tekur undir kröfuna um að ríkið borgi það sem á vantar til að samningar takist og flotinn haldi til veiða, eða ráðherrar Viðreisnar.

Hitt er svo annað. Það er verk að vinna úr ósættinu og með öllu óvíst hvort það takist, og þá hvenær.

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: