- Advertisement -

Framsókn er undir í ríkisstjórninni

Umræðan Framsóknarflokkurinn þarf að lúta í gras, aftur og nýbúinn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur betur í átökunum sem eru milli flokkanna. Framsóknarflokkurinn, með varaformanninn í öndvegi, varð að beygja af leið og afleggja annars tilbúið lagafrumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Sjálfstæðisflokkurinn beitti neitunarvaldið og sá til þess að frumvarpið var ekki lagt fyrir Alþingi.

En hvers vegna? Jú, vegna þess að Framsóknarflokkurinn gat ekki sæst á tvær veigamiklar kröfur Sjálfstæðisflokksins. Sú fyrri var um að skýrt yrði kveðið á um að veiðiheimildirnar yrðu eign útgerðarinnar og hins vegar að öll kvótaviðskiptin yrðu gerð fyrir opnum tjöldum, á kvótaþingi. Þetta varð til þess að Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra fór í fýlu, sagði frumvarpið ekki verða lagt fram á þessu þingi og ekki heldur á því næsta. Sigur Sjálfstæðisflokksins, sem vildi halda lögunum óbreytt, varð algjör.

Smábátasjómenn vilja skerf af veiðiheimildum í makríl. Það á vel við stefnu Framsóknarflokksins sem vill að veiðiheimildir verði einnig notaðar til félagslegra úrræða. Það vill Sjálfstæðisflokkurinn ekki. Þá varð úr að skella á aukaveiðigjöldum í makríl, veiðigjöldum sem aðeins þeir stærstu og ríkustu geta borgað. Þar með er vandinn með trillukarlana frá.

Spenna er að myndast vegna frumvarps um flutning ríkisstofnanna. „Ágreiningur hefur verið innan stjórnarflokkanna um frumvarpið og nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins gagnrýnt hvernig staðið hefur verið að flutningi Fiskistofu. Brynjar Níelsson er einn þeirra, sem og Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, og Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður sjálfstæðismanna,“ segir í Morgunblaðinu í dag.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Nú er að sjá hvor flokkurinn hefur betur. Framsókn þarf að rétta hlut sinn.

 Sigurjón Magnús Egilsson.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: