- Advertisement -

Framsóknarflokkur fékk ekki neitt

Stjórnmál „Framsóknarflokkurinn virðist svo ekki hafa fengið neitt, ekki eitt einasta, af sínum stóru kosningamálum nema að vísu, það er nefnt nánast eins og í háðungarskyni, að í fjármálaráðuneytinu verði áfram unnið að markvissum skrefum til afnáms verðtryggingar. Við sem höfum fylgst með þeirri vinnu fram að þessu föttum brandarann, sem er reyndar býsna góður,“ sagði fyrrum formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, á Alþingi í gær.

Hraðasti viðsnúningurinn

Sigmundur Davíð dvaldi nokkuð við uppgjör á störfum ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, þ.e. eftir að hann sjálfur sagði af sér.

„Þeir félagar, forystumenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem komu ekki mörgu í stjórnarsáttmálann réttlæta veru sína í ríkisstjórninni með því að þeir séu að þessu til að koma á pólitískum stöðugleika. Þessir menn, af öllum mönnum, telja sig nú best til þess fallna að tryggja pólitískan stöðugleika. Þetta eru mennirnir sem sátu í ríkisstjórn með 13 þingmanna meiri hluta, stjórn sem hafði skilað mesta og hraðasta efnahagslega viðsnúningi sem sést hefur, stjórn sem var að vinna að gríðarlega stórum hagsmunamálum þjóðarinnar þegar þeir gáfust upp,“ sagði hann.

Sjoppunni lokað

Áfram beindi Sigmundur Davíð spjótum sínum að Sigurði Inga Jóhannssyni og Bjarna Benediktssyni:

„Þeir gáfust upp og boðuðu til kosninga í lok október með ókláruð fjárlög, raunar með allt óklárað, allt sem þeir höfðu ætlað sér eða átt að klára. Þó höfðu þeir þegið það að forsætisráðherra stigi til hliðar svo friður gæfist til að klára verkefnin sem varð að klára. Eftir að þeir voru beðnir að líta eftir málunum sem varð að klára var byrjað á sumarlokunum. Þegar þing kom svo saman var stjórnarandstaðan látin ráða för og loks ákveðið að loka sjoppunni, senda alla heim og boða til kosninga, kosninga sem skiluðu stjórnarkreppu. Þetta eru mennirnir sem bjóða sig nú fram til að innleiða pólitískan stöðugleika,“ sagði hann.

-sme


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: