- Advertisement -

Freku karlarnir og Sjálfstæðisflokkur

Karlarnir sem ráða öllu í HB Granda eiga eina vörn. Ef hún bregst verður gerður uppskurður á lögum um stjórn fiskveiða. Þeirra eina vörn er Sjálfstæðisflokkurinn. Í þeim flokki er ekki nægur vilji til að gera breytingar á kerfinu. Kannski er réttast að segja að þar sé vilji til að halda óbreyttu kerfi.

Oft áður hefur kvóti verið tekinn frá íbúum byggðarlaga og þau skilin eftir í standandi vandræðum. Um þetta eru mörg dæmi. Nú gerðu kvótagreifarnir mistök. Þeir settu í rangan fisk og of stóran. Akranes er ekki hvaða byggðarlag sem er. Þar í bæ eru margt baráttufólk sem mun ekki sitja aðgerðalaust meðan ósköpin ganga yfir.

Akranesmálið er afar skýrt. Störfin sem tapast eru mun fleiri en eitt hundrað. Fjöldi Skagamanna hefur vinnu við að þjónusta fiskiðjuver Granda. Höfnin verður af tekjum og áfram er hægt að telja upp.

Missi Sjálfstæðisflokkurinn alræðisvald sitt má gera ráð fyrir uppskurði. Framsóknarflokkurinn, sem er oft grunaður um að vilja ekki breyta kvótakerfinu, reyndi í síðustu ríkisstjórn. Þrátt fyrir að flokkurinn hafi haft sjávarútvegsráðherrann, komst frumvarp hans ekki úr ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn sagði nei. Beitti neitunarvaldi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Vinstri græn eru vissulega óvissuþáttur, en trúlegast verður flokkurinn með í breytingum komi tækifæri til þeirrra.

Kvótahafar eiga mikið undir Sjálfstæðisflokknum og Morgunblaðinu. Mistakist þeim í vörninni missa þeir forréttindin. Til að svo verði ekki verður ýmislegt gert. Aukin átök eru framundan. Forréttindakarlarnir settu í stóran og öflugan fisk. Með öllu er óvíst að þeim lánist að innbyrða hann.

Kannski verður þeim um of að rústa Akranes.

Sigurjón M. Egilsson.

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: