- Advertisement -

Íslendingar vinna lengi og vinna mikið

- Snjólaug Arndís Ómarsdóttir skrifaði um íslenskan vinnumarkað, breytingar á honum og þróun í lokaritgerð sinni í félagsfræði við Háskóla Íslands. Þar kemur margt mjög svo merkilegt fram.

Endurbirt af gefnu tilefni:

Snjólaug Arndís Ómarsdóttir skrifaði um íslenskan vinnumarkað, breytingar á honum og þróun í lokaritgerð sinni í félagsfræði við Háskóla Íslands. Þar kemur margt mjög svo merkilegt fram.

Í upphafi kafla sem heitir; Íslenskur vinnumarkaður, segir Snjólaug Arndís: „Hér á landi var atvinnulíf mjög einhæft allt fram á síðasta áratug en þá var hér ráðandi atvinnustefna sem grundvallaðist á nýtingu náttúruauðlinda. Með þeirri stefnu byggðu Íslendingar afkomu sína á útflutningi fárra afurða sem er eitt af einkennum fátækra þróunarlanda frekar en ríkra iðnaðarlanda. Þegar líða tók á öldina urðu kröfur um meiri fjölbreyttni í sjálfu atvinnulífinu.“

Í rannsókninni segir að á undanförnum árum hafi íslenskt samfélag þróast frá því að vera einfalt bændasamfélag yfir í flókið neyslusamfélag. „Þegar sagt er að samfélag sé einfalt er átt við að það sé óiðnvætt. Nánar tiltekið að samfélagsgerðin sé einföld og þar sem stöður og hlutverk séu fá og áskipuð ásamt því að verkaskipting sé lítil.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Höldum okkur ögn lengur við söguna. Þar segir, að um aldamótin 1900, hófu kapítalískir framleiðsluhættir innreið sína á Íslandi og breiddust út hægt og rólega víða yfir landið. Það má rekja tilvist verkalýðsfélaga til þeirrar þróunar sem átti sér stað í samfélaginu til kapítalískra framleiðsluhátta.

„Við fjölgun í þéttbýli og atvinnugreinum spruttu upp samtök launþega sem ætlað var að vinna að bættum kjörum verkafólks,“ skrifar Snjólaug Arndís. „Á 19. öld varð síðan til víðtækt menntakerfi þar sem ríkið fór með hlutverk varðandi skólagöngu einstaklinga, en áður fyrr hafði það verið í höndum presta og kirkju.“

Kreppan skellur á

Alþjóðleg efnahagskreppa skall á haustið 1929. Hún leiddi til minnkandi eftirspurnar og verðfalls á íslenskum útflutningsvörum ásamt þrengingum á mörkuðum hérlendis.

„Landbúnaður og sjávarútvegur voru þær atvinnugreinar sem töldust til frumvinnslu en með henni voru hráefni sköpuð. Til úrvinnslugreina töldust iðnaður og önnur byggingarstarfssemi. Í þeim atvinnugreinum var eingöngu unnið úr hráefnum, en þar á meðal voru einnig handverk, vinna að orkumálum, vatnsveitur og annar iðnaður. Í stóriðjugreinum voru hráefni framleidd til iðnaðar sem hálfunnin vara en þar má nefna járn og stál. Innan þjónustugreina voru stjórnun fésýslu, verslun, viðskipti, kennsla, heilbrigðisþjónusta, ásamt hótel- og veitingarekstri.“

Verkalýðsfélög viðurkennd

„Árið 1938 var vinnulöggjöfin sett og með henni var tilvist verkalýðsfélaga viðurkennd,“ skrifar höfundur. Og heldur áfram: „Á næstu 30 árum varð algjör viðsnúningur á atvinnuháttum og árið 1960 unnu aðeins 8% manna við landbúnað, en tveimur árum áður höfðu 36% atvinnubærra manna unnið við landbúnað. Á þessum tíma flökkuðu karlar jafnt sem konur á milli þess að taka þátt í hefðbundinni skipulagðri launavinnu og vertíðarbundinni vinnu eins og heyskap, fiskiverkun og störfum tengd slátrun dýra. Mestan hluta 20. aldar höfðu verkalýðsfélögin sterk og mótandi áhrif á samfélagið, þrátt fyrir að þau hafi átt erfitt uppdráttar í byrjun eða fram á kreppuáratuginn.“

Hugmyndir frá fyrri tíð vísuðu til þeirra hefðbundnu kynhlutverka sem ætluð voru konum annars vegar og körlum hins vegar.

Konur breyttu vinnumarkaði

„Ein sú stærsta breyting sem átti sér stað á eftirstríðsárunum í hinum þróuðu ríkjum var aukin atvinnuþátttaka kvenna. Hún hafði í för með sér afdrifarík áhrif á þróun vinnumarkaðar. Þessari þróun hefur verið líkt við hljóðláta byltingu, samanber hversu víða hún teygði anga sína á svo skömmum tíma, en hún þróaðist af krafti á 6. og 7. áratugunum og jókst fram til ársins. Hugmyndir frá fyrri tíð vísuðu til þeirra hefðbundnu kynhlutverka sem ætluð voru konum annars vegar og körlum hins vegar. Í fyrri hugmyndum var talið að hlutverk kvenna og hæfileikar nýttust innan heimilisins, að þær væru húsmæður og uppalendur á meðan hæfileikar karlar voru fyrir utan veggi heimilisins sem fyrirvinnur. Það helsta sem ýtti undir atvinnuþátttöku kvenna var framboð og eftirspurn, þar sem konur voru oft á tíðum ódýrara vinnuafl og oft taldar betri til vinnu en karlar.“

Við fjölgun í þéttbýli og atvinnugreinum spruttu upp samtök launþega sem ætlað var að vinna að bættum kjörum verkafólks.

Snjólaug Arndís vísar til Gyðu Margrétar Pétursdóttur, hún hefur bent á að íslenskur vinnumarkaður er mjög kynskiptur, en það felst í því að karlar og konur sinna ólíkum störfum og starfa í mörgum tilfellum ekki alltaf saman. Á meðan konur sinna störfum sem eru samfélagslega lægra metin eru karlar í stjórnunarstöðum. Körlum líður stundum betur inni á vinnustöðum þar sem hefðbundin verkaskipting er og þegar þeir eru hærri í stigveldinu en konur. Á meðan finna konur sig betur í því að vinna á blönduðum vinnustöðum, þar sem jafnræði ríkir. Karlar telja það þó bæta starfsandann þegar hlutfall karla og kvenna á vinnustaðnum er jafnt. Samkvæmt þeim vísbendingum sem koma fram hjá Gyðu Margréti er talið að vinnumenning sé betri þegar að karlar og konur starfa saman, auk þess skili þau fyrirtæki þar sem slík skipan ríkir af sér meiri arði.

Frá reglum að frjálsræði

Snjólaug Arndís Ómarsdóttir segir að lengi vel hafi atvinnulíf á Íslandi einkennst af miklum ríkisumsvifum og regluveldi. Árið 1991 var mynduð ný ríkisstjórn sem boðaði breytingar á atvinnustefnu Íslands. „Við það þróaðist umhverfi atvinnulífs úr því að vera reglumótað yfir í frjálsræði. Þegar ríkið dró úr umsvifum sínum í atvinnulífinu voru nokkur fyrirtæki og stofnanir í eigu þess einkavædd. Eftir að tæknivæðingin tók völdin vann færra fólk en áður þekktist við framleiðslustörf. Nú til dags vinnur mikill meirihluti vinnuafls við þjónustustörf af ýmsu tagi. Til þjónustustarfa teljast til dæmis: Verslunarstörf, viðskipti, kennsla, heilsugæsla, samgöngur og ýmis konar afþreying jafnt sem persónuleg þjónustu. Þessa þróun má sjá þegar skoðuð er skipting starfsfólks í starfsstéttir á árunum 1991- 2009 hér á landi.

Myndin sýnir þróun starfa eftir starfsgreinum á árunum 1991-2009 (Hagstofa Íslands).

 

Höfum alltaf unnið mikið

Snjólaug Arndís Ómarsdóttir tekur saman og rekur að Íslendingar hafi alltaf unnið mikið.

„Í heildina má segja að atvinnuþátttaka á Íslandi hafi breyst örlítið á árunum 1991-2009 hjá körlum á aldrinum 16-24 ára en var hún á bilinu 63% til 80%. Í aldurshópnum 25-54 ára var atvinnuþátttaka karla á bilinu 94% til 97% sem verður að teljast mjög hátt. Atvinnuþátttaka karla á aldrinum 55-74 ára var á bilinu 70% til 81% sem staðfestir það sem áður hefur komið fram að Íslendingar vinna langt fram eftir aldri. Atvinnuþátttaka kvenna í aldursflokkinum 16-24 ára var á bilinu 65,6% til 81,4%. Í aldursflokknum 25-54 ára var atvinnuþátttaka kvenna á bilinu 83% til 88,3%. Atvinnuþátttaka kvenna á aldrinum 55-74 ára var á bilinu 51,8% til 61,2% (Hagstofa Íslands, 2010b).“

Samkvæmt tölum frá árinu 2008 eru að meðaltali 53% fólks í aldurshópnum 15-64 ára vinnandi í ríkjum OECD en hér á landi er hlutfallið 85%.

Þá ber að geta þess að atvinnuleysi á meðal ungs fólks á Íslandi hefur verið talsvert hærra en á meðal þeirra sem eldri eru og má rekja það til þess hversu litla reynslu á vinnumarkaði sá hópur kann að hafa. Í kjölfar heimskreppunnar árið 2008 hefur atvinnuleysi aukist töluvert og náð nýjum hæðum. Á árunum 2008-2009 jókst atvinnuleysi í öllum aldurshópum, í yngsta aldurshópnum tvöfaldaðist atvinnuleysið eða fór úr tæpum 8% í 16%. Í aldurshópnum sem á eftir kom (25- 54 ára) þrefaldaðist atvinnuleysið og mældist 6,2% á árinu 2009. Í aldurshópnum 55-74 ára tvöfaldaðist atvinnuleysið og fór í 3,5% það sama ár. Í apríl 2009 var meðalfjöldi atvinnulausra þegar mið var tekið af fjölda atvinnuleysisdaga alls tæplega 15.000 manns. Hæst fór fjöldi atvinnulausra í 17.000 manns í lok mars árið. Við heimskreppuna haustið 2008 fór að þrengja í ákveðnum atvinnugreinum meir en í öðrum en áður þekktist. Í byggingariðnaði var til dæmis mikið um fjöldauppsagnir ásamt öðrum iðngreinum sem tengdust byggingariðnaði að einhverju leyti, til dæmis má nefna hjá verkfræði-og arkitektastofum ásamt plast- og steinefnaiðnaði. Einnig náði þessi samdráttur til annarra greina en sem dæmi má nefna eins og hjá auglýsingastofum og ferðaskrifstofum. Hæst fór atvinnuleysið í byggingariðnaði í alls 30% og var rétt yfir 10% í flestum öðrum atvinnugreinum fyrir utan opinbera geirann og landbúnað, fiskveiðar og í fjármálastarfssemi. Þegar horft er til annarra greina hvað varðar samdrátt er hann hæstur í samgöngum og flutningum fyrir utan byggingariðnaðinn.“

Eftir að tæknivæðingin tók völdin vann færra fólk en áður þekktist við framleiðslustörf.

Árið 2006 var atvinnuþátttaka á Íslandi 88% í hópi fólks sem var á vinnumarkaði á aldrinum 15-64 ára. Sama ár var atvinnuþátttaka karla á aldrinum 15-64 ára 91,4 % og kvenna 84,2% hér á landi. En það er mesta atvinnuþátttaka sem fannst á meðal OECD ríkja það ár, einnig hæsta hlutfall sem finnst á meðal OECD ríkja og er Ísland eina landið þar sem atvinnuþátttaka kvenna fer yfir 80%. Til ársins 2008 hefur atvinnuþátttaka á íslenskum vinnumarkaði verið með því mesta sem þekkist á meðal OECD landanna og rekja má háar þjóðartekjur að hluta til þessarar miklu atvinnuþátttöku. Langur vinnudagur gerir það verkum að landsframleiðsla á mann er jafn há og raun ber vitni miðað við önnur OECD ríki.“

Á myndinni má sjá þróun vinnustunda á árunum 1991 til 2009 (Hagstofa Íslands 2010b).

Vinnum enn lengur en aðrir

Ásamt því að vinna lengi fram eftir aldri, vinna Íslendingar einnig mikið. „Fróðlegt er að sjá þegar línurit er skoðað að þróunin hefur verið á þá leið að meðalvinnutími karla hefur lækkað en meðalvinnutími kvenna hefur hækkað sem er áhugavert fyrir þróunina á þessu 20 ára tímabili, 1991-2009. Þróun vinnuviku á árunum 2003 til 2008 hefur nánast verið sú sama hjá körlum annars vegar og konum hins vegar. Á meðan vinnuvika karla hefur verið 46 til 47,6 vinnustundir hefur vinnuvika kvenna verið 35-36 stundir á árunum 2003-2008. Vinnuvikan hjá körlum árið 2009 lækkaði þó hins vegar í 43.8 stundir. Fjöldi vinnustunda kvenna stóð þó í stað og var áfram kringum 35 stundir fyrir hverja viku. „Þrátt fyrir styttingu meðalvinnutíma í kjölfar kreppunnar árið 2008 er vinnudagur Íslendinga enn langur ef miðað er við önnur Evrópuríki. Á fjórða ársfjórðungi árið 2009 var meðalfjöldi vinnustunda á viku hér á landi 38,9 stundir á meðan þær voru 36,9 stundir að meðaltali í öðrum ríkjum ESB. Íslenskur vinnumarkaði hefur ekki aðeins hærra hlutfall fólks á vinnualdri en þekkist í öðrum OECD löndum, heldur er starfsæfi Íslendinga einnig lengri, en hér á landi er eftirlaunaaldur hærri en á meðal hinna OECD ríkjanna. Samkvæmt tölum frá árinu 2008 eru að meðaltali 53% fólks í aldurshópnum 15-64 ára vinnandi í ríkjum OECD en hér á landi er hlutfallið 85%.“

Sem fyrr segir er lokaritgerð Snjólaugar Arndísar Ómarsdóttur til BA prófs í félagsfræði við Háskóla Íslands heimild þessarar greinar. Höfundurinn leitaði fanga víða.


Booking.com

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: