- Advertisement -

Fullveldishamborgari með frjálsum kartöflum

Magnús R. Einarsson skrifar: Það var kalt og hvasst á Austurvelli á fundinum þar sem Klausturfokkið var tilefnið og þess krafist að sexmenningarnir hafi sig á brott af Alþingi.

Ég gekk í bæinn til að taka þátt í fundinum en fann nú ekki fyrir mikilli hátíðastemningu á leiðinni. Frá einum barnum við Laugaveg heyrðist Satisfaction með Stones. Þar inni var enginn yfir þrítugu. Frá öðrum bar kom alvöru hiphop, en þar inni voru eingöngu miðaldra asíubúar. Merkilegt.

Hvorki fána né myndir að sjá við helstu götu verslunar í fullveldinu. Túristarnir voru með símana á lofti niðri við Stjórnarráðshúsið og þar norpaði kór og lúðrasveit. Sándið var afleitt og allt hljomaði þetta soldið falskt eins og vill verða í kulda og trekki. Númerið var Draumalandið, tempóið var grave funebre. Ég vorkenndi blásurunum með ísköld hljóðfærin.

Niðri á Austurvelli var smá halarófa fyrir utan þinghúsið sem beið þess að komast inn til að skoða sali valdsins og þá þingmenn sem enn er hægt að hafa til sýnis.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Á milli Reykjavíkurapóteks og Hótel Borgar er bar sem heitir Benedorm. Kannski til heiðurs Gunnari Braga sem hefur sagt Benidorm á Spáni sinn uppáhaldsstað utan fósturjarðarinnar. Á Spáni kostar sjússinn ekki neitt. Ég pældi soldið í því af hverju barinn kallaðist Benedorm en ekki Benidorm. Kannski sofna menn vel áfengisdauða þarna austan meginn við Austurvöllinn. Benedorm barinn er með öfluga hátalara utandyra og daman á barnum blastaði “If You Wanna Be My Lover” fyrir Jón Sívertsen á stallinum. “If you want my future, forget my past”. Hvað myndi Johnny segja við því ef hann hefði mál?

Ég brá mér aðeins innfyrir og spurði hvort hún ætti ekki eitthvað meira viðeigandi, einn góðan kvennakór til dæmis? Daman svaraði “ínglís plís”. Dónúörríabádidd sagði ég og fór aftur út í kuldann. Eftir smástund kom hellingur af fólki, þúsundir manns. rétt áður en Dómkirkjan sló klukkan 2.

Sólveig Anna Jónsdóttir hélt þrusuræðu og var besti ræðumaður dagsins. Það var svo kalt að ég fór áður en fundi lauk og verslaði í matinn. Það verður fullveldishamborgari með frjálsum kartöflum í matinn fyrir mig og dóttur mína í kvöld. Þó líði ár og öld.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: