- Advertisement -

Góðærisþrengingar allt lifandi að drepa

Svo merkilegt sem það er, í margboðuðu góðæri, hafa helstu stoðir samfélagsins sjaldan átt í eins miklum vanda og nú. Vanda þar sem þeim er svo þröngt sniðinn stakkurinn, hvað varðar peninga, að þrengja verður að og jafnvel leggja niður það sem við öll vitum að er bráðnauðsynlegt.

Þetta á við í samgöngum, mentamálum, heilbrigðismálum og víðar. „Fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir að Landspítali dragi verulega saman í rekstri á næsta ári,“ skrifar Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans í sínum vikulega pistli. Gott er að minna á að Landspítalinn býr við ómælt hallæri. Rúmanýting, svo það dæmi sé tekið, er meira en eitt hundrað prósent, sem segir okkur að sjúklingar eru hýstir í geymslum, á salernum, baðherberjum, eldhúsum, göngum og víðar. Þetta mun ekki breytast. Aðrar stofnanir eru eflaust lítt betur settar. Til alls þessa sjá stjórnvöld, ríkisstjórn Íslands.

Góðærið þrengir líka að framhaldsskólum og ekki síst háskólum. Umræðulaust er námsbrautum lokað, rannsóknum fækkað, nemendum úthýst og allt er þetta gert í boði góðærisins. Framtíð þjóðarinnar ræðst ekki síst af menntun hennar. Nei, samt er þetta gert. Og það í mesta góðæri í sögu okkar.

Eina leiðin, eina lausnin, til að færa samgöngur í viðunandi horf er að leggja á okkur ný gjöld. Ekki einum einasta Íslendingi kemur til hugar að framundan sé að vegakerfið, flugvellir eða annað verði okkur til sóma. Draumurinn er einungis um að þetta allt verði hið minnsta viðunandi og ekki til skammar. Við meira ráðum við ekki. Því miður.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Íslenska góðærið er merkilegt. Það boðar endalausar þrengingar. Líka þar sem er þjóðarsátt um að gera betur. Sátt um að taka á.

Sigurjón M. Egilsson.

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: