- Advertisement -

GSE: VG að missa af stóra sigrinum

Stjórnmál Best er að leita í smiðju Gunnars Smára Egilssonar með fylgi flokkanna samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins.

„Samkvæmt nýrri og stækkaðri könnun Fréttablaðsins hefur Samfylkingin, Viðreisn og Sjálfstæðisflokkur verið að bæta við sig fylgi á lokametrum kosningabaráttunnar en VG að missa frá sér fylgi. Það er engin vinstristjórn lengur í þessum spilum og ekki heldur tveggja flokka stjórn VG og Sjálfstæðisflokks. Valið mun standa á milli veikrar fjögurra flokka hægri stjórnar (Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn með Miðflokki og Framsókn) með 33 þingmenn eða veikrar mið-vinstristjórnar með 34 þingmenn (VG, Samfylking, Píratar og Framsókn). Ef Viðreisn kæmi inn í stað Framsóknar væri stjórnin með 35 þingmanna meirihluta. Svo má nefna miðjustjórn án Sjálfstæðisflokks og VG; það væri þá fimm flokka stjórn með Samfylkingu, Miðflokki, Pírötum, Viðreisn og Framsókn með 33 þingmönnum.

Sigurvegarar kosninganna væru, ef þetta gengur eftir, Miðflokkur Sigmundar Davíðs og Samfylking Loga Einarssonar. VG og Katrín vinna á en stóri sigurinn sem var í kortunum hefur gengið þeim úr greipum. Viðreisn Þorgerðar Katrínar mun sætta sig við varnarsigur en það verður erfiðara að túlka tap Sjálfstæðisflokks Bjarna Ben eða Framsóknarflokks Sigurðar Inga og Lilju með þeim hætti og enn síður mikið fall Pírata Helga Hrafns og Þórhildar Sunnu. Þetta yrði dauðadómur yfir Bjartri framtíð Óttarrs Proppé og myndi festa Ingu Sæland og Flokk fólksins sem jaðarfyrirbrigði í stjórnmálum.

Annars yrði þingheimur svona (tapaðir þingmenn og unnir innan sviga):

Sjálfstæðisflokkur 17 (-4)
VG 14 (+4)
Samfylking 10 (+7)
Miðflokkur 7 (+5)
Píratar 6 (-4)
Viðreisn 5 (-2)
Framsókn 4 (-2)
Björt framtíð 0 (-4)

Það verður snúið fyrir flokkana að vinna úr þessari stöðu. Niðurstaðan getur allt eins orðið stjórnarkreppa, utanþingsstjórn og kosningar í vor eða næsta haust.“

Og meira úr smiðju Gunnars Smára:

Þetta graf sýnir fylgi flokkana í kosningabaráttunni. VG byrjaði að rísa eftir að boðað var til kosninga en hefur nú misst þá aukningu frá sér. En ef við miðum upphaf kosningabaráttunnar við 18. september þá hafa þessir flokkar bætt við sig:

Miðflokkur +9,4 prósentustig
Samfylking +9,2 prósentustig
Viðreisn +2,3 prósentustig
Sjálfstæðisflokkur +1,1 prósentustig

En þessir flokkar misst frá sér fylgi:

Flokkur fólksins –6,5 prósentustig
Björt framtíð –5,2 prósentustig
Píratar –4,3 prósentustig
Framsókn –4,2 prósentustig
VG –3,6 prósentustig.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: