- Advertisement -

Gunnar Smári segir sína sögu

Eftir vellukkaðan stofnfund Sósíalistaflokks Íslands fyrsta maí varð ég svolítið hugsi yfir þeim hávaða sem hafði skapast um mína aumu persónu vikurnar áður. Mesta fyrirferðin var á Stundinni, arftaka gamla DV, sem birti langlokugreinar eftir Karl Th. Birgisson, Jón Trausta Reynisson og Inga Frey Vilhjálmsson, sambland af sálgreiningu og dómsuppkvaðningu, sem meira og minna fjölluðu um hvað ég væri glataður gaur.

Hvað var þetta eiginlega? Ég kann því miður ekki svar við því, forðast raunar að hugsa um hvað þarna er á ferðinni.

En mig langar að segja ykkur aðra sögu.

17. október 2008, einni og hálfri viku eftir Guð blessi Ísland-ávarp Geirs H. Haarde, skrifaði ritstjórn DV (greinin er ekki merkt, en þá voru feðgarnir Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson ritstjórar) grein um þá sem helst báru ábyrgð á „hvernig komið er fyrir hagkerfi Íslands“.  Þetta var þunnskipaður hópur: Björgólfur Thor Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson, Lýður og Ágúst Guðmundssynir í Bakkavör, Sigurður Einarsson í Kaupþing, Jón Ásgeir Jóhanesson í Baugi, Pálmi Haraldsson í Fons, Hannes Smárason og Bjarni Ármannsson. Þetta er ekki alvitlaus listi og hefði líklega sloppið sem slagfær blaðamennska í ljósi þess hversu stutt var þá umliðið frá Hruninu, ef ritstjórar DV hefðu ekki bætt mér og Gísla Gíslasyni lögmanni á listann.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hvað var það? Ekki get ég svara því. Ég veit hins vegar að Reyni Traustasyni hættir til þráhyggju og fær menn á heilann, getur skrifað um tiltekna menn árum saman og fléttað þá inn í allskyns mál. Hann kallar þetta að pönkast á mönnum og flokkar það undir blaðamennsku, skammast sín ekki neitt heldur hreykir sér af þessu.

Hinir níu á listanum voru allir meðal helstu persóna í Rannsóknarskýrslum Alþingis um Hrunið. Allir koma þeir þar oft við sögu, tengdust mörgum málum er vörðuðu mikla hagsmuni og háar upphæðir. Við Gísli erum þar hins vegar aldrei nefndir. Ég veit ekki hvað margt fólk kemur við sögu í þessum skýrslum, nokkur hundruð; en við Gísli erum ekki þess á meðal

Hluti þeirra ellefu sem DV setti á lista yfir helstu sökudólga Hrunsins voru ákærðir og dæmir í svokölluðum Hrunmálum og aðrir sæta enn rannsókn með réttarstöðu grunaðra. Hvað ætli margt fólk hafi verið kallað til yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara, ýmist sem vitni eða grunað um lögbrot? Fimm hundruð eða þúsund manns? Ég veit ekki um Gísla, en sérstakur saksóknari sá aldrei ástæðu til að óska eftir neinu frá mér. Það kom aldrei upp mál hjá embættinu sem starfsmenn þess töldu mig vita nokkuð um, hvað þá að þeir hafi grunað mig um nokkurn skapaðan hlut.

Þegar Panamaskjölin urðu opinber mátti sjá þar nöfn flestra þeirra sem voru á sökudólgalista DV. Mitt nafn var þar hvergi. Auðvitað ekki.

Hvers vegna var mín ekki getið í Rannsóknarskýrslum Alþingis, ég ekki ákærður í Hrunmálum og ekki einu sinni kallaður til sem vitni, og hvers vegna var ég ekki í Panamaskjölunum eins flestir hinna á listanum?

Jú, það er vegna þess að mennirnir á listanum voru fjárfestar (eða þóttust vera það) en ég var starfsmaður. Ég átti nokkur hlutabréf í fyrirtækjunum sem ég vann hjá, bæði vegna þess að ég hafði tekið þátt í því að kaupa Fréttablaðið út úr þroti og vegna þess að ég var færður í störf þar sem forverar mínir höfðu samið um kauprétt á hlutum í félögunum. En ég var ekki fjárfestir. Og allra síst í líkingu við hina á listanum, sem marga mætti kalla dólgafjárfesta. Ég var enginn aðili að skipulögðum bankaránum fyrirhrunsáranna, var ekki í innsta hring þeirra sem véluðu um milljarða og hundruð milljarða, mig er hvergi að finna á mynd af útrásarvíkingum í glórulausu partíum þessara ára og kom engum digrum sjóðum undan, vegna þess að ég átti enga.

Þegar ritstjórn DV skrifaði greinina hafði ég verið atvinnulaus í rúmt ár, hafði selt mín fáu hlutabréf löngu fyrr enda löngu ljóst að íslensk hlutafélög voru maðkétin hræ, og ég var gat með engu móti talist stór player í þeirri spilaborg sem var að hrynja. Ég var því skiljanlega meira en lítið hissa þegar ég sá nafn mitt á lista yfir helstu stórlaxa Hrunsins.

Og þó. Ég var þá fyrir löngu orðinn ýmsu vanur. Frá stofnun Fréttablaðsins lagði skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins fæð á blaðið. Þá var uppi sú staða á fjölmiðlamarkaði að svo virtist að áratuga vinna Davíðs Oddssonar væri að skila árangri; að honum hefði tekist að snúa alla fjölmiðla landsins undir sig. (Þetta er merkileg saga sem ég ætla ekki að þreyta ykkur á, en Davíð upplifði alla fjölmiðla á móti sér þegar hann varð forsætisráðherra 1991 en þeir voru svo til allir orðnir honum vinveittir 2001 og margir komnir í eigu manna sem hann treysti eða við það að falla í eigu þeirra.)

Þegar Fréttablaðið fór í þrot og ég náði saman hluthöfum til að endurreisa blaðið minnkaði ekki andúðin. Skrímsladeildin beitti þeirri aðferð að gera engan greinarmun á blaðinu og Baugi, kallaði Fréttablaðið Baugsmiðil og þá sem í það skrifuðu Baugspenna. Þessu fylgdi hugmynd um að allt sem ég skrifaði væri í raun skilaboð frá Baugi og á móti að ég væri allra innsti koppur í búri Baugs, væri þar innviklaður í ákvarðanir langt út fyrir fyrirtækið sem ég vann hjá. Ég var því ekki starfsmaður sem vann hjá fyrirtæki sem Baugur átti hlut í heldur var ég orðinn Baugsverji og bar því ábyrgð á öllu því sem Baugur gerði.

Þótt þetta sé yfirþyrmandi heimskuleg framsetning þá náði hún rótfestu í huga margra. Og þó Reynir Traustason hafi örugglega ekki trúað þessu, hentaði honum líklega að ganga út frá þessu vegna þess að ég var einn af þeim mönnum sem hann lagði fæð á. Ekki veit ég hvers vegna. Kannski vegna þess að ég hafði verið fyrirferðamikill í fjölmiðlum allan þann tíma sem Reynir hafði unnið sem blaðamaður.

Þremur dögum eftir greinina í DV var fluttur ágætur Kompásþáttur Kristins Hrafnssonar og Jóhannesar Kr. Kristjánssonar um spilaborgina sem var að hrynja. Þátturinn er einkum góður fyrir framlag Indriða H. Þorlákssonar, þá fyrrum ríkisskattstjóra. Indriði útskýrir þarna tæpum tveimur vikum eftir Hrun hvernig Íslandi var rænt. Í seinni hlutanum er rætt við Vilhjálm Bjarnason, þá framkvæmdastjóra félags fjárfesta, sem segir sumt ágætt en er líka kjánalega drýgindalegur þegar hann segist vera með lista í vasanum yfir helstu sökudólga Hrunsins en vilji ekki sýna neinum. Strax á eftir telur Kristinn upp nöfn á tuttugu og sex manns, án þess að ljóst sé hvort þetta sé listi Vilhjálms.

Tuttugu og fjórir á listanum koma við sögu í Rannsóknarskýrslum Alþingis: Björgólfur Thor Björgólfsson, Björgólfur Guðmundsson, Magnús Þorsteinsson, Lýður Guðmundsson, Ágúst Guðmundsson, Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson, Ármann Þorvaldsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Ingibjörg Pálmadóttir, Kristín Jóhannesdóttir, Gunnar Sigurðsson, Pálmi Haraldsson, Jóhannes Kristinsson, Magnús Ármann, Þorsteinn M. Jónsson, Hannes Smárason, Kristinn Björnsson, Magnús Kristinsson, Bjarni Ármannsson, Róbert Wessman, Ólafur Ólafsson, Karl Wernersson og Þorsteinn Már Baldvinsson. Eins og sjá má af listanum er þetta aðeins betur unninn listi en sá sem ritstjórn DV hafði sett saman.

En samt voru á honum tveir sem ekki komu við sögu í Rannsóknarskýrslunum; ég og Kári Stefánsson. Flest hinna hafa sætt yfirheyrslum hjá sérstökum saksóknara, ýmist grunuð um stórfelld lögbrot eða sem vitni til að skýra stórkostleg lögbrot hinna. Ég veit ekki hvort Kári hefur verið kallaður til yfirheyrslu sem vitni en ég er viss um að hann verður ekki ákærður fyrir neitt sem tengist Hruninu, enda var hann nefndur í upptalningu Kristins aðeins í samhenginu „…í FL Group með Hannesi Smárasyni, sem var áður að vinna með Kára Stefánssyni í deCode.“

Kári kemur við sögu í Panamaskjölunum eins og flest af hinu fólkinu. En eins og áður sagði er ég þar hvergi; ekki frekar en í Rannsóknarskýrslunum eða nokkrum Hrunmálum. Í þeim málum hefur hins vegar fjöldi fólk verið ákært og dæmt sem ekki var á lista Kompáss.

Ég hef aldrei kvartað undan því að hafa verið settur á þessa lista og aldrei vakið athygli á hversu skrítin ákvörðun það var að telja mig meðal helstu höfunda Hrunsins, ekki fyrr en nú. Umræðan á Íslandi ber keim af smábæjarbrag lítils samfélags og þar er alltaf fólk á ferli sem reynir að stíga á tær næstu manna. Mánuðina og árin eftir Hrun var það líka til einskis að ætla að útskýra fyrir fólki muninn á starfsmanni og eiganda eða þjófi og fólki sem vann hjá fyrirtækjum sem þjófur átti hlut í. Þetta var blómatími þeirra sem vilja pönkast á fólki og finna til sín meðan á því stendur.

Það tók mig nokkurn tíma að vinna mér aftur inn málfrelsi á Íslandi. Ég kaus að skrifa um mat til að fá að vera í friði, en þau sem lásu matarskrifin muna að í raun var ég að fjalla um eyðileggingarafl kapítalismans sem hefur rústað hefðunum, misþyrmt náttúrunni, gelt framleiðslustörfin, eyðilagt matinn og er á góðri leið með að ganga frá heilsu neytenda. Smátt og smátt færði ég mig svo yfir í umfjöllun um samfélagsmál og pólitík.

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem ég hef þurft að sækja málfrelsi mitt aftur. Í lok níunda áratugarins og byrjun þess tíunda tók ég þátt í því að skerpa á blaðamennsku Pressunnar, Einstaks og annarra jaðarblaða, taka til umfjöllunar mörg mál sem áður höfðu legið í þagnargildi og gagnrýna menn og fyrirbrigði sem áður höfðu setið í öruggu skjóli. Þetta kostaði mikil átök og dómstólar dæmdu okkur sundur og saman fyrir engar sakir aðrar en að segja satt. Þegar þrengdi að í efnahagslífinu á fyrstu Davíðsárunum fóru þessi jaðarblöð á hausinn og ég fékk lengi hvergi vinnu við blaðamennsku. Náði á endanum málfrelsinu aftur með því að ritstýra unglingablaðinu Fókus, menningarritinu Fjölni og breyta umfjöllun um fréttir vikunnar í sjónvarpi í einskonar skemmtiprógram.

Eftir það kom Fréttablaðið, þar sem blaðamennskuhefðin af jaðarblöðunum var gerð að meginstraumsblaðamennsku og okkur tókst að fella Moggann af drottnandi stalli sínum á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Sem var mikið þarfaverk. Eftir fáein ár létu eigendur félagsins undan látlausum þrýstingi skrímsladeildar Sjálfstæðisflokksins um að víkja mér úr starfi ritstjóra og þá var mér sparkað upp og út. Margur tók þann boga, þegar ég sveif út úr 365, upp um Dagsbrún og eitthvað út í heim, sem eina af helstu ástæðum þess að allt á Íslandi hrundi; efnahagurinn, réttlætið, stjórnmálin, stjórnsýslan, siðferðið, blaðamennskan. En ég held að það sé steypa.

Gunnar Smári Egilsson.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: