- Advertisement -

Hafa þegar gert fjórtán samninga

Vinnumarkaður Verkalýðsfélag Akraness hefur nú gert fjórtán kjarasamninga og í tveimur tilfellum eru samningarnir langtum hærri en kröfugerð Starfsgreinasambandsins. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.

Þar segir einnig að í  öðru tilfellinu hafi starfsmenn hækkað frá 117.000 upp í 136.000 kr. á mánuði og í hinu tilfellinu hækkuðu starfsmenn um 70-80.000 kr.

„En það eru tveir aðilar í íslenskri verkalýðsbaráttu sem gagnrýna þetta harðlega. Annar er forseti ASÍ og hinn er fyrrverandi varaforseti ASÍ og formaður Stéttarfélags Vesturlands. Enda eru þessir aðilar talsmenn samræmdrar láglaunastefnu sem Verkalýðsfélag Akraness vill ekki og ætlar ekki að taka þátt í. Það að fá gagnrýni fyrir að gera góða samninga frá svokölluðum „samherjum“ er eitthvað sem er formanni og reyndar verkafólki almennt óskiljanlegt því það hljóta allir að gleðjast yfir því ef árangur næst í kjarasamningsgerð,“ segir á heimasíðunni.

Þar segir einnig að formaður Stéttarfélags Vesturlands hafi meðal annars gagnrýnt formann VLFA fyrir að skilja jafnvel konur eftir í sinni kjarasamningsgerð. „Það er greinilegt að hún hefur ekki fylgst með þeim samningum sem VLFA hefur gert og nægir að nefna í því samhengi bónussamninginn sem félagið gerði við HB Granda á dögunum sem tryggði fiskvinnslukonum allt að 51.000 kr. launahækkun. Það eru svona samningar sem forsetarnir tveir virðast vera á móti og því spyr maður sig að því hverslags verkalýðsbarátta sé rekin á þeim vígstöðvum.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: