- Advertisement -

Hagsmunatengsl hluti þingstarfa

Björn Leví Gunnarsson.
„Ég tel að Alþingi þurfi að fjalla um þetta á opinskáan hátt.“

„Ég hef orðið var við það í störfum mínum á þessu vorþingi að hagsmunatengsl eru stór hluti af því að starfa hér á þingi. Ég tel að þingmenn ættu að upplýsa betur um hagsmunatengsl sín og stíga frá þeim málum þar sem þeir eru jafnvel í eftirlitshlutverki gagnvart eigin gjörðum,“ sagði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, á Alþingi fyrr í morgun.

Hann sagðist áður hafa nefnt þetta, til dæmis varðandi þingmenn, sem sitja í nefndum eða stofnunum, sem fela í sér að útdeila fjárheimildum þingsins og þurfa síðan að svara fyrir þær fjárheimildir: „Ég tel að Alþingi þurfi að fjalla um þetta á opinskáan hátt. Við skulum hafa sérstakan lið um störf þingsins þar sem við tölum opinskátt um það hvernig okkur finnst rétt að meðhöndla hagsmunatengsl hér á þingi.“

Björn Leví byrjaði ræðu sína á öðrum stað. Hann las upp texta sem lesinn var í síðustu þingmannaveislu. „Sá texti var mjög áhugaverður, finnst mér, fyrir störf okkar sem þingmanna. Þessi texti var ritaður á 17. öld, eða 1631, af skrifara Alþingis og er elsta heimild frá skrifara Alþingis. Hann hljóðar svo:

„Eg lofa og játa, að í þeim málum, sem hér verða dæmd, hvort heldur þau áhræra líf, góz eður æru, þá vil eg skrifa rétt sem hér verður dæmt, og ekki í nokkurn máta álíta vild, makt, skyldugleika, gunst eða gjafir, hatur, öfund eða óvild, heldur alleinasta hafa guð og réttdæmið mér fyrir augum og skrifa réttiliga eptir því, sem hér verður dæmt, eða alt, hvað mér ber að skrifa, svo vel fyrir þann fátæka sem þann ríka, hinn tiginborna sem hinn ótigna, svo vel fyrir þann útlenzka sem þann íslenzka. Eg vil og ekki fyrr eður síðan skrifað er heimuglega eða opinberlega taka eður upp bera, hvorki fyrir mig sjálfan né nokkurn annan, skeinkingar, gull, silfur, peninga eða peninga virði, svo að þess vegna megi nokkur maður missa síns réttar vegna míns skrifs.“

-sme


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: