- Advertisement -

Haldlaus orðræða Bjarna um EES

„Í ljósi þess hversu mikil fríverslun er fyrir Ísland er full ástæða til að finna að því hvernig sumir ráðherrar núverandi ríkisstjórnar, einkum þá hæstvirtur fjármálaráðherra, hafa undanfarið gengið fram með haldlausa orðræðu um galla EES-samningsins, okkar almikilvægasta viðskiptasamnings,“ sagði Smári McCarty á þingi rétt í þessu.

Hann byrjaði ræðu sína á að tala um velmegun Íslendinga: „Velmegun Íslands byggist nær alfarið á útflutningi og þjónustuviðskiptum, þar með talið ferðaþjónustu. Við framleiðum t.d. sem nemur 6 milljónum fiskmáltíðum á dag en annar útflutningur okkar er á áli, vélbúnaði, landbúnaðarafurðum, lyfjum, hugbúnaði og ýmsu fleira. Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að það er grundvallaratriði að hafa góða fríverslunarsamninga við önnur ríki svo tollar og kvótar hindri ekki framgang íslenskra fyrirtækja.“

Hann vék næsta að EES: „Í dag erum við aðilar að EES-svæðinu sem veitir okkur því sem næst óhindraðan aðgang að hagkerfum 30 Evrópuríkja í viðskiptum með vörur og þjónustu ásamt fjárfestingum og frjálsu flæði á vinnuafli og ótrúlega mörgu öðru. EES-samningurinn er mikilvægasti samningur Íslands, algjörlega.“

„Það er algjörlega innan marka skynseminnar að skoða hvernig EES-samningurinn hefur verið að virka með ítarlegum hætti líkt og gert var í Noregi fyrir ekki alllöngu en það að tala niður Evrópusamstarfið okkar í einhverri illa ígrundaðri Brexit-vímu er landsmönnum ekki bjóðandi,“ sagði hann í lok ræðu sinnar.

 

 

Þú gætir haft áhuga á þessum

Booking.com

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: