Hin rotna Reykjavík

Sverrir Guðjónsson og Elín Edda Árnadóttir, íbúar í Grjótaþorpinu, sendu borgarstjóra eftirfarandi skeyti:

Opið skeyti til Borgarstjórnar Reykjavíkur, Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar, Sýslumannsembættis Reykjavíkurborgar og Umboðsmanns borgarbúa.

Nú er svo komið að við undirrituð, íbúar í Íbúasamtökum Grjótaþorps getum ekki orða bundist.

Miðborgin eitt allsherjar partý

Þú gætir haft áhuga á þessum

Veitinga-og skemmtistaðir miðborgarinnar keppast um athygli og barsölu og eru flestir komnir með hátalarabox utan á veggi húsanna, til þess að fanga athygli gesta og gangandi án nokkurs tillits til þeirra nærumhverfis. Sumir þessara skemmtistaða tíðka það einnig að setja stór hátalarabox við útidyrnar, til viðbótar við hátalara utandyra og streyma þannig tónlist út á götur og torg. Hér er um að ræða: American Bar; The Drunk Rabbit; Austur; Burro disco-bar og fleiri!

Samkvæmt reglum Reykjavíkurborgar er ekki leyfilegt að streyma tónlist út á götur borgarinnar, hvað þá að halda vöku fyrir íbúum miðborgar og hótelgestum, sem síðan rita um sínar svefnlausu nætur. Undirrituð hafa rætt við eigendur viðkomandi skemmtistaða, sem í raun breyta miðborginni í eitt alsherjar partýsvæði þar sem óleyfilegir „útitónleikar“ halda vöku fyrir íbúum langt fram á nætur, ekki aðeins um helgar, heldur alla daga vikunnar. Einnig hafa undirrituð haft samband við lögreglu sem virðist gjörsamlega lömuð í tengslum við þennan óskunda og telja þetta vonlausa baráttu, þar sem tónlistin er skrúfuð í botn um leið og lögreglan snýr við „þeim“ baki. Um nýafstaðna Verslunarmannahelgi kastaði þó tólfunum, þegar hávaðinn og hamagangurinn náði hámarki svo allt lék á reiðiskjálfi eftirlits- og stjórnlaust fram til dögunar, í boði Innipúkans og Reykjavíkurborgar, eða „Free Outdoor Party“, eins og það var kynnt í „The Reykjavik Grapevine“.

Bannað að raska næturró

Eins og fram kemur þá hafa undirrituð gert tilraun til þess að ræða við eigendur nokkra þessara staða, en ekki átt erindi sem erfiði. Við förum því fram á það að eigendur viðkomandi veitinga- og skemmtistaða taki niður hátalarabox sem eru staðsett utandyra og sjái jafnframt til þess að hátölurum sé ekki stillt upp við útidyr. Einnig verði viðkomandi gerð grein fyrir þeirra ábyrgð í tengslum við hávaðamengun og truflun sem þeir valda á friðhelgi einkalífs, sem er tíunduð í 4.grein Lögreglusamþykktar frá 19.nóvember 2008:

Bannað er að hafast nokkuð að sem veldur ónæði eða raskar næturró manna. Lögreglustjóri getur bannað notkun hátalara, hljómflutningstækja, hljóðfæra eða annars þess háttar á eða við almannafæri ef ástæða er til að ætla að hún valdi verulegu ónæði eða truflun. Borgarstjórn getur bannað neyslu áfengis á almannafæri á tilteknum tíma á tilteknum svæðum í þéttbýli. Slíka samþykkt skal tilkynna lögreglustjóra og birta almenningi. Undirrituð hafa búið síðastliðin tuttugu ár í miðborg Reykjavíkur, og það má halda því fram að hinn „náttúrulegi“ borgarniður sé sú „tónlist“ stórborga sem við sækjumst eftir. Þetta samhengi hlutanna spryngur gjörsamlega í loft upp, þegar nokkrum krám í borginni líðst að halda heilu hverfi miðborgar í gíslingu með yfirgengilegum hávaða og tillitsleysi, sem óneitanlega er farið að minna ástandið í kringum hið lágkúrulega „súlustaðatímabil“ Reykjavíkur. Að okkar mati þurfa stjórnendur Reykjavíkurborgar að gera það upp við sig hvort ástæða sé til þess að styðja við þá íbúabyggð sem enn þrífst í miðborginni, og þá hvernig það sé best framkvæmt og því síðan fylgt eftir með viðeigandi ráðstöfunum og viðurlögum.

Við undirrituð förum hér með fram á fund við fyrsta tækifæri ásamt ráðamönnum Reykjavíkurborgar.

Virðingarfyllst.

Sverrir Guðjónsson

Elín Edda Árnadóttir

Grjótagötu 6

Grjótaþorpi

101 Reykjavík.

 
Booking.com

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: