- Advertisement -

Hjarta mitt brotnaði

- ég mun heimsækja hana í janúar þegar fargjöldin lækka og syngja og spila fyrir hana rússnesk ástarljóð.

Fólkið í Eflingu, mynd og texti; Alda Lóa: „Mamma mín er ættuð frá Rússlandi og pabbi kemur frá Úkraínu, en þau stofnuðu fjölskyldu í Lettlandi og þar er ég alinn upp. Pabbi er ágætis söngvari hann spilar á harmónikku, og við bræðurnir syngjum allir og spilum á hljóðfæri. Ég spila á gítar, og syng rússnesk dægurlög og ástarsöngva, en hérna á Íslandi hef ég engan til þess að spila ástarlögin fyrir. Ég spila einn heima fyrir sjálfan mig á kvöldin, ég gæfi mikið fyrir að hafa kærustuna hérna hjá mér og spila fyrir hana. Hún er ekki að flytja hingað, hún býr í Lettlandi og kemst ekkert frá, en þar sinnir hún syni og veikri móður sinni.

Ég er gröfukarl, með 20 ára starfsreynslu og vann sem slíkur í Lettlandi áður en ég kom hingað árið 2008. Á Íslandi vann ég á gröfu í átta mánuði, en svo kom kreppan og ég missti vinnuna og allir útlendingar fóru aftur heim til sín. En ekki ég. Ég hafði jú misst vinnuna en á sama tíma missti ég líka fjölskylduna mína, en konan heima í Lettlandi vildi skilja, eftir það hafði ég ekkert að hverfa aftur til og hjarta mitt brotnaði.

Þar sem ekkert beið mín heima, fór ég niður í Vinnumálastofnun og fékk vinnu hjá manni sem var í búðar- og veitingahúsarekstri. Ég fékk næga vinnu og vann hjá honum í nokkur ár en kaupið var lágt. Ég var hjá þessum manni þar til ég réði mig í verkamannavinnu hjá byggingarfyrirtækinu fyrir sex árum síðan.

Hérna á byggingarsvæðinu er ég almennur verkamaður, ég vinn á steypubor og brotvél, og ég er að bera hluti einsog sementspoka, flísar og ganga frá og halda vinnusvæðinu hreinu. Ég hef ekki verið á gröfu lengi, sem er ekki gott af því að þá er hætta á því að ég missi niður liðleikann. Ef það líður svona langt á milli þá gleymi ég hvernig það er að stjórna gröfu. Þetta er einsog að spila á gítar, þú tapar liðleikanum og tilfinningunni og fingurnir gleyma hvernig þeir eiga að hreyfa sig ef þú æfir þig ekki á hverjum degi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég hef verið einn of lengi, og ég hef alltaf saknað þess að eiga ekki lífsförunaut. Mér finnst erfii að fara í vinnuna og þaðan í ræktina og fara síðan heim í íbúð þar sem engin tekur á móti mér. Þess vegna vil ég helst dvelja sem lengst í vinnunni. Ég þrái konu sem elskar mig. Ég hef ekki verið heppinn, en núna ætla ég að vera heppinn, og núna hef ég eignast vinkonu í Lettlandi sem er þessum góðu kostum gædd og ég mun heimsækja hana í janúar þegar fargjöldin lækka og syngja og spila fyrir hana rússnesk ástarljóð.“

Aleksandr Trofimenko er verkamaður á byggingarsvæði og félagi í Eflingu. #fólkiðíeflinguSjá fleiri sögur um fólkið í Eflingu: http://folkid.efling.is/

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: