- Advertisement -

Hugtakasafn Gunnars Smára

Ég dundaði mér við það í morgun að setja saman hugtakalista frá A til Ö um stjórnmál vorra daga, en lenti í því að hafa fleiri en eitt hugtak við nokkra stafi. Á ég að skera niður eða á ég kannski að bæta við og sætta mig við að sumir stafir eigi fleiri hugtök? Meðan ég var að skrifa þetta varð ég enn vissari um að þörf væri á svona hugtakasafni. Það er ekki hægt að ræða samfélagsmál út frá útrunnum hugtökum og föllnum hugmyndaheimi.

Auðræði: Alræði auðvaldsins, þegar öll meginkerfi samfélagsins hafa verið sveigð að hagsmunum hinna ríku

Arðræningi: Sá/sú sem lifir af vinnu annarra, greiðir launafólki hluta þess verðmætis sem það býr til en borgar sjálfum sér restina

Blairismi: Yfirtaka elítunnar á stjórnmálaflokkum alþýðunnar, sósíalískri efnahagsstefnu skipt út fyrir nýfrjálshyggju

Brauðmolakenningin: Endursögn meginstefs trúarsetningar nýfrjálshyggjunnar um að allir muni hagnast ef samfélagið geri betur við hin allra ríkustu, lækki skatta og álögur, dragi úr eftirliti og færi þeim meiri völd

Búsáhaldabyltingin: Árangursríkust friðsamra byltinga á Vesturlöndum á síðari árum. Á fáeinum mánuðum felldi hún ríkisstjórn, skipti út yfirstjórn í Seðlabanka og fjármálaeftirliti, kallaði saman þjóðfund, skipaði rannsóknarnefnd Alþingis og setti á fót sérstakan saksóknara í Hrunmálum. Fjaraði út; fyrst og fremst þar sem forysta verkalýðshreyfingarinnar, samtaka þeirra sem urðu verst úti í Hruninu, stillti sér upp með auðvaldinu gegn byltingunni.

Capitalism: Þjóðfélagskerfi sem miðar að því að auka arðsemi fyrirtækja og auð eigenda þeirra á kostnað meginþorra fólks

Dyflinnarreglugerðin: Schengeneglur sem Útlendingastofnun túlkar þröngt til að koma í veg fyrir að fólk utan Evrópu flytji til Íslands á eigin vegum en ekki í gegnum starfsmannaleigur eða annan innflutning fyrirtækja á ódýru vinnuafli

Elíta: Fámennisstjórn, réttlætt með yfirburðum hópsins

Endurreisn verkalýðshreyfingarinnar: Endurheimt almennings á helstu baráttutækjum sínum úr höndum elítunnar

Einkarekstur: Andstæða félagslegs reksturs, öll markmið rekstrar miðast að skammtímaþörfum eins aðila; eigandans

Eignaskattar: Leið til að vinna gegn óréttlæti kapítalismans sem færir sífellt fé og eignir frá þeim sem lítið eiga til þeirra sem eiga mikið fyrir. Eignaskattar voru lagðir af um aldamótin á Íslandi

Ég: Einstaklingshyggja nýfrjálshyggjunnar hefur snúið menningu okkar frá samfélaginu að einstaklingum. Ég er miðpunkturinn. Síðan það varð samfélagslega viðurkennt að taka sjálfsmynd hefur engin tekið ljósmynd af öðru fólki

Félagshyggja: Trú að réttlát niðurstaða fáist aðeins með virkri þátttöku fjöldans á lýðræðislegum vettvangi

Fjármálavæðing: Tímabil kapítalismans frá 1980 fram að Hruni 2008 þar sem eina markmið fyrirtækjarekstrar er að draga sem mest fé upp úr honum til eiganda

Gamma: Skammaryrði yfir braskara sem níðast á þeim sem verr standa í gegnum okurlánafyrirtæki, leigufélög, starfsmannaleigur o.s.frv.

Gjaldtaka: Eitt af þrepunum í niðurbroti velferðarþjónustu: 1. Lækkun skatta á hin ríku 2. Auknar skuldir ríkis- og sveitasjóða 3. Gjaldtaka fyrir opinbera þjónustu 4. Niðurskurður velferðarkerfisins

Húsþræll: Alþýðumanneskja sem þjónar hagsmunum hinna ríku í skiptum fyrir hærri laun og aðild að elítunni

Hagræðing: Lækkun launa, fækkun og aukið vinnuálag almenns launafólks til að auka arð eigenda í einkafyrirtækja, hjá opinberum fyrirtækjum til að lækka skatta á fyrirtæki og fjármagn

Identity politics: Tvístruð mannréttindabarátta á tíma nýfrjálshyggjunnar; yfirleitt einstaklingsmiðuð og án stéttarvinkils

Innflytjendur: Á íslandi fyrst og fremst ódýrt vinnuafl frá Austur-Evrópu sem fyrirtæki flytja inn beint eða í gegnum starfsmannaleigur til að halda niðri launum

Íslenska lífeyrissjóðakerfið: Allir borga sama hlutfall launum inn án jöfnunartækja skattkerfisins en fá út lífeyri í takt við tekjur á vinnumarkaði. Viðheldur ójöfnuði öfugt við almannatryggingakerfið.

Innviðir: Skólar, sjúkrahús, samgöngur og annað sem kostað er af sameiginlegum sjóðum og gerir líf einstaklinga auðveldara og rekstur fyrirtækja ódýrari. Þetta gildir ekki ef innviðir eru einkavæddir.

Jafnaðarmaður: Nafngift sem elítan sem tók yfir forystu í arftökum hinna sósíalísku flokka notar um sjálfa sig (sjá: Blairismi)

Kreppa: Tímabil þar sem hin ríku sölsa undir sig eignum þeirra sem standa verr fjárhagslega og hafa minna aðgengi að lánsfé

Létt-fasismi: Fyrsta stig í vörnum þeirra sem auðguðust á tímum nýfrjálshyggjunnar gegn upprisu almennings

Leigufélög: Spilavítiskapítalismi á húsnæðismarkaði. Við hrunið misstu fátækustu fjölskyldurnar húsnæði sitt sem braskarar keyptu á lágu verði til að selja aftur þegar verðið hækkaði, þeir leigja hinum fátæku íbúðir á meðan þeir bíða og taka út lán í bönkum út á áætlaðan framtíðarsöluhagnað til að greiða sér arð

Markaður: Vettvangur þar sem hin ríku ráða mestu; þar sem hver króna hefur eitt atkvæði öfugt við hinn lýðræðislega vettvang þar sem hver einstaklingur hefur eitt atkvæði. Einkenni nýfrjálshyggjutímans var að æ fleiri ákvarðanir voru fluttar frá hinum lýðræðislega vettvangi yfir á markaðinn, frá fólkinu til hinna ríku.

Nýfrjálshyggja: a. Tímabilið frá 1980-2008 þegar nýfrjálshyggja var ríkjandi hugmyndakerfi b. Safnhaugur trúarsetninga, kenninga og stjórnmála til að réttlæta auðræði

Okur: Verðlagning fyrirtækja í einokunar- eða fákeppnisaðstöðu, verð hækkað upp að þolmörkum neytenda, leigjenda eða lántakenda til að skila eigendum fyrirtækjanna sem mestum arði. Okurleiga, okurlán o.s.frv.

Óligarkar: Þjófarnir sem drottna yfir þjófræðinu, hafa komist yfir auðlindir almennings og nýta innviði samfélagsins (húsnæði, banka, tryggingarfélög o.s.frv.) til að blóðmjólka almenning

Popúlismi: Lýðhyggja, andstæða klíku- og elítustjórnar

Róttækni: Stefna sem horfist í augu við að breyta þarf grunnkerfum samfélagsins til að auka jöfnuð og réttlæti

Sósíalismi: Stjórnmálastefna sem byggir á hagsmunum þeirra sem verst standa

Stéttabarátta: Barátta hinna kúguðu stétta fyrir réttlæti

Stöðugleiki: Óbreytt ástand; hinir ríku efnast en aðrir eru skyldir eftir

Stritandi fátækt: Fólk sem ekki nær endum saman þrátt fyrir að vera í fullri vinnu

Tryggingastofnun ríkisins: Leifarnar af almannatryggingakerfinu, sem byggt var upp af kröfu verkalýðshreyfingarinnar á fyrri hluta síðustu aldar og byggði á samhjálp og tekjudreifingu. Öfugt við lífeyrissjóðakerfið greiðir fólk eftir þörfum inn í almannatryggingakerfið í gegnum skattinn en fær út úr því eftir þörfum.

Umhverfisvá: Auðlindarán, mengun og eyðilegging kapítalismans á náttúrugæðum

Uppsöfnunarsjóðir: Lífeyrissjóðir byggðir á þeirri blekkingu að hagkerfið geti varðveitt verðmæti umfram framleiðslugetu

Útgerðaraðall: Um fimmtán fjölskyldur sem hafa fengið úthlutað stærstan hluta af auðlindum almennings og orðið af nýtingu þeirra auðugasta fólkið á Ísland

Vor í verkó: Aukin virkni og völd almennra félaga innan verkalýðsfélaganna

Velferðarkerfi: Ókeypis heilbrigðiskerfi og skólar, félagslegt húsnæðiskerfi og stuðningur við hin verr stæðu sem byggt var upp á síðustu öld að kröfu verkalýðshreyfingarinnar en brotið niður á síðustu áratugum síðustu aldar og því sem liðið er af þessari af auðvaldinu og þeim sem þjóna því

X: Vald almennings miðast í dag við að setja x við flokka eða valkosti í kosningum en ekkert aðgengi að þeim stöðum þar sem ákvarðanir eru teknar á vinnustað, í stjórnsýslunni, í verkalýðshreyfingunni, á markaði eða þar sem lífskilyrði hans eru mörkuð.

Zúismi: Trúfélag sem lofaði að endurgreiða félagsfólki sóknargjöldin. Félag lykilmanna er verkalýðsfélag yuggt á sömu hugmynd, að endurgreiða einstaklingum gjöld sem áður runnu til félagslegrar uppbyggingar

Þjófræði: Þegar fámenn klíka hefur náð undir sig helstu auðlindum almennings

Ætt. Eftir því sem félagslegur hreyfanleiki minnkar í kapítalismanum hefur auður fyrst og fremst safnast upp innan ætta þar sem hann gengur í erfðir

SA: Ríkjandi viðhorf auðvalds og elítu, lítur á öll önnur viðhorf sem ógn við völd sín og kallar öfga

Gunnar Smári Egilsson.

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: