- Advertisement -

Hvað er að okkur hér, 63 þingmönnum?

„Það fer nú að styttast í löggjafarþingi okkar, númer 148. Enn þá erum við á sama stað og við vorum í haust, enn þá líða tæplega tíu prósent barna mismikinn skort. Enn þá skattleggjum við fátækt. Enn þá skerðum við öryrkja krónu á móti krónu. Enn þá komum við í veg fyrir að aldraðir og aðrir sem treysta sér til en þurfa að reiða sig á almannatryggingakerfið hafi tækifæri til þess að fara út á vinnumarkaðinn og vinna ef það treystir sér til,“ sagði Inga Sæland á Alþingi, fyrir nokkrum augnablikum.

Ofboðslega dapurt

„Mér finnst alveg ofboðslega dapurt að við skulum fljótlega ganga inn í sumarið, inn í sumarfrí, vitandi það að rétt um tíu prósent barnanna okkar líða hér mismikinn skort. Hvað er að? Hvað er að okkur hér, 63 þingmönnum, kjörnum til þess að hugsa um hag fólksins okkar og bera hag þess fyrir brjósti svo best og mest við megum og getum? Getum við ekki öll sammælst um að það er þjóðarskömm að skattleggja fátækt? Það er þjóðarskömm að vera meðvirkur í því og vita það, vitandi vits, að börn, sum hver, búa við fátækt?“

Þarf bara vilja

„Ég hefði haldið, virðulegi forseti, að þetta væri nú eitt af þeim málum sem við gætum virkilega, í hvaða flokki sem við stöndum, tekið saman höndum og útrýmt því að börn þurfi að vera fátæk í þessu mikla velferðarástandi sem nú ríkir í landinu. Ég hvet alla til þess. Gerum þetta. Sýnum að við getum gert þetta. Við þurfum bara vilja, það er ekkert annað sem við þurfum. Ég trúi ekki að neinn einasti þingmaður myndi mæla því mót ef við myndum virkilega stíga fram og sýna djörfung og dug og útrýma fátækt barna á Íslandi,“ sagði Inga Sæland.

 

 

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: