- Advertisement -

Hvar er frjálslyndið í íslensku samfélagi?

Hvar er frjálslyndið í mínum stjórnmálaflokki?

Skrítið með okkur mannfólkið að við viljum bara lesa eða hlýða á fréttir sem eru slegnar fram með sláandi eða neikvæðum hætti. Um síðustu helgi var í Fréttablaðinu rætt við listamann okkar í Grafarvogi, Aron Can. Fyrirsögnin á vísi.is var „reif sig upp úr ruglinu.“ Þar er þessi frábæri ungi rappari spurður um kjaftasögurnar um neyslu og ólifnað. Hann blés á sögurnar en sagðist hafa gert margt sem hann sæi eftir, en einbeitningin væri á tónlistina. Já hann er ekki í neinu rugli, samt sem áður slær fyrirsögnin byr undir báða vængi með kjaftasögurnar. En það er til fólk sem les bara fyrirsagnirnar, þannig að Aron mun halda áfram að búa við sögusagnir sem eru einfaldlega ekki sannar.

Verð að minnast á fréttir þess efnis að fátækt er að aukast verulega í Danmörku. Hvernig getur það staðist? Í draumalandi jafnaðar- sósíalskra manna. Við höfum Samfylkingu og fleiri flokka sem berjast fyrir sömu stefnu og þar ríkir. Þar eru allir jafnir, þar er gott að lifa á kerfinu, allt frítt, háir skattar, öllum refsað skattalega séð sem skara framúr í nafni jöfnuðar. Hvernig getur þá fátækt farið vaxandi í dramalandinu góða? Er jafnaðarstefnan brotlent? Getum við lært af ástandinu þar og séð hvað gengur upp og hvað ekki? Á meðan lífsgæði dala, miðað við þessa niðurstöðu, er verið að stofna enn einn vinstri flokkinn á Íslandi sem glögglega er tímaskekkja, en dreifir ennfrekar atkvæðum á vinstri vængnum og því ber að fagna.

Ein önnur rannsóknin birtist í íslenskum fjölmiðlum í vikunni um skaðsemi sykurlausra gosdrykkja. Ég er háður Coke Light og var með slíka flösku við höndina í veislu um helgina. Kona ein sá það sem skyldu sína að lesa yfir mér um óhollustuna og áhættuna sem ég iðka með drykkju minni. Elliglöp, heilablæðingar og fleira og ég var orðinn bugaður á lífið og tilveruna að hlusta á fyrirlestur ókunnugu konunnar. Loksins er ræðuhöldin tóku enda, reif hún upp úr veskinu sígarettur og fór út í smók. Þetta svipar til að fá ráðgjöf um holla fæðu frá spikfeitum næringafræðingi.

Frá og með næstu áramótum er bannað að deyja í Reykjavík. Fólk í slíkum hugleiðingum er vinsamlegast beðið um að gera það í öðrum landshlutum. Ef það vill láta brenna sig, endilega skipuleggið ykkur vel og setjið ykkur í samband við ættingja með arinn eða eigendur ljósabekkja. Já líkhúsið í Fossvogi á orðið heima á Árbæjarsafni og buddan hjá Kirkjugörðum Reykjavíkur er galtóm. Einnig er bent á að hægt er að leigja kerrur til að flytja hina látnu á urðunarstaði Sorpu. Já fasteignaverð er í hæstu hæðum, blússandi kaupmáttur, bónusarnir flæða til stjórnenda bankanna, lífið og tilveran er frábær í íslensku samfélagi. En það er ekki til staðar fjármagn til að veita okkur örlitla reisn við hinstu för okkar.

Það er vandlifað í henni veröld. Verslanir í Hörpu eru sakaðar um ódýrt túristadrasl og skort á fagurfræði. Íslensk og erlend hönnun, lopapeysur og blómvendir eru yfir meðlimi Sifónuhljómsveitarinnar hafin. Þau geta víst ekki látið bjóða sér svona ófögnuð, ef marka má fréttir þess efnis. Á sama tíma standa samfélasmiðlar og commentakerfi á öndinni yfir fyrrum fegurðardrottningu sem fór offari í fagurfræðinni. Tinna Alavis birti myndir úr afmæli dóttur sinnar og netverjar gubbuðu yfir þessa smekklegu mömmu sem lagði sig alla fram við að gera daginn eftirminnilegan fyrir barnið sitt. Frozen kökur, blöðrur og sérmerktar servéttur er ekki boðlegt í barnaafmæli ef marka mað nýðingshátt netverja í garð Tinnu. Ég verð fyrir mitt leyti að segja að það er markt hægt að læra af Tinnu, það er margur maðurinn sem býr við skort á fagurfræði, en auðvitað gerir hver með sínu nefi. Ég skil ekki æsinginn, algengt er að fara með barnaafmælin í lazertag, bíó, á pizzastaði og framvegis, allt kostar þetta. Það er alið á öfund í samfélaginu og að fólk sjái þörf sína að röfla yfir fallegu barnaafmæli, þá er tímabært að setjast niður og hugsa sinn gang. Sumir eru bara að kafna úr eigin óhamingju og leiðindum. Tinna mín, ég væri til í að fá þig til að stílsetja næsta stórafmæli hjá mér, þú ert snillingur.

Á meðan ástandið á Kóreuskaga mælist nánast á jarðskjálfamælum og andrúmsloftið rafmagnað, sitja íslenskir þingmenn og rífast yfir rafrettum. Þvílík lúxus vandamál sem stjórnmálamennirnir okkar búa við. Starfsbræður þeirra sofa ekki úr stressi yfir kjarnorkuvá, en nei þá kafna okkar þingmenn í frekjuköstunum yfir rafrettum. Og ef við lítum til Kanada þá er forsætisráðherrann þar að ræða lögleiðingu kannabis og bendir á fáranleikann að í kanadískum fangelsum sitja inni einstaklingar sem hafa fengið sér jónu.Hve margir af okkar þingmönnum hafi fengið sér í haus á einhverjum tímapunkti í lífinu? Nú er verið að tengja rafretturnar við kannabisolíu og það er eins og himinn og jörð séu að farast. Hvar er frjálslyndið í íslensku samfélagi? Hvar er frjálslyndið í mínum stjórnmálaflokki? Frumvarp sem felur í sér taumhald ríkisins á eigum eldra fólks með það að leiðarljósi að börn þeirra geti keyft fasteign. Boð og bönn á rafrettur sem hjálpa fólki að hætta að reykja og lifa heilbrigðara lífi. Skattahækkanir,jafnlaunavottun og rúsínan í pylsuendanum í umræðunni á þinginu er vottun hótela um að þau leyfi ekki vændi á hótelherbergjum. Er þetta innskot fyrir komandi áramótaskaup? Verða viðkomandi hótel með siðgæðisvörð í hverju herbergi eða verður skellt skirlífsbelti á gesti við innritun? Forsjáhyggjan er allsráðandi á Alþingi um þessar mundir. Ég hvet félaga mína í Sjálfstæðisflokknum til að setjast niður um helgina og lesa stefnu flokksins og fara að vinna eftir henni. Eini maðurinn sem starfar eftir stefnu flokksins er Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Hann er á fullu í viðskiptatengslum tl að auka útflutning og afla gjaldeyristekna fyrir þjóðarbúið.

Góða helgi,

Árni Árnason.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: