- Advertisement -

Hvernig getur VG varið skattalækkanirnar?

Ólafur Ísleifsson og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir tókust á um skattalækkanir. „Hvernig getur háttvirtur þingmaður forsvarað það að skattalækkun skuli vera upp á ríflega 60% í þágu þeirra sem standa fjármagnsmegin í tilverunni?“ „Varðandi bankaskattinn þá sagði ég hér áðan og stend enn við það; ég treysti því að lækkun bankaskattsins skili sér í minni vaxtamun, annars er tilganginum ekki náð.“

Bjarkey treystir á að bankarnir láti andvirði lækkunar bankaskattsins renna til viðskiptavina sinna.

Þau voru margt forvitnileg orðaskipti þingflokksformannanna, Ólafs Ísleifssonar í Flokki fólksins, og Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, Vinstri grænum, um fjármálaáætlunina.

„Það kemur auðvitað misjafnlega á óvart stuðningur einstakra flokka sem að ríkisstjórnin standa við þá forgangsröðun sem þar birtist. En ég verð að leyfa mér að segja að það kemur afar mikið á óvart, svo ekki sé meira sagt, að flokkur Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur geti staðið að þeirri forgangsröðun sem birtist m.a. í því að tekjuskattur skuli lækkaður á þann veg að það skuli ekki nýtast hinum tekjulægstu og þeim sem standa hér höllustum fæti annars vegar og svo hitt að það skuli eiga að slá af bankaskattinum, ekki 10, 20%, ekki 30, 40, 50%, heldur meira en 60%,“ sagði Ólafur.

Ekki vilji VG, segir Bjarkey

„Varðandi tekjuskattinn og lækkun hans er það auðvitað svo að ef við hefðum verið ein í ríkisstjórn hefðum við væntanlega ekki farið þessa leið,“ sagði Bjarkey.

„Það er samkomulagsmál að gera þetta. Það er hins vegar þannig að persónuafslátturinn verður tekinn til skoðunar í tengslum við vinnumarkaðinn og annað slíkt, hvort það sé leiðin sem aðilar telja heppilegast að fara. Ég er sammála því að það ætti að gera.“

Bankarnir fá 60% skattalækkun

Ólafur sagði einnig: „Hvernig má það vera að flokkur sem að mörgu leyti á virðulega fortíð og tengsl við íslenska verkalýðshreyfingu, sumir af mikilhæfustu verkalýðsleiðtogum 20. aldar sátu á Alþingi sem fulltrúar þess flokks sem kannski einna helst er forveri flokks háttvirts þingmanns, Alþýðubandalagið, hvernig getur háttvirtur þingmaður varið það að ekki skuli notað það tækifæri, fyrst talið er óhætt að lækka neðra þrep tekjuskatts um 1%, að það skuli ekki vera nýtt í gegnum persónuafsláttinn til að rétta hlut þeirra sem standa höllustum fæti, aldraðra, öryrkja, tekjulágra fjölskyldna og einstaklinga, barnafólksins? Hvernig getur háttvirtur þingmaður forsvarað það að skattalækkun skuli vera upp á ríflega 60% í þágu þeirra sem standa fjármagnsmegin í tilverunni?

Bankarnir lækka vextina

Þá var það Bjarkey: „Varðandi bankaskattinn þá sagði ég hér áðan og stend enn við það; ég treysti því að lækkun bankaskattsins skili sér í minni vaxtamun, annars er tilganginum ekki náð. Bankarnir geta í rauninni ekki gert annað en skilað því til baka til okkar. Við höfum kvartað mjög mikið yfir háum vöxtum á Íslandi. Ég tel því að það geti orðið gríðarleg bót fyrir allt samfélagið ef við, og ekkert ef, ég treysti því bara að það nái fram að ganga.“

Ólafur vitnaði bæði til Biblíunnar og Njálu.

Vitnaði í Biblíuna og Njálu

Ólafur hélt áfram og vitnaði bæði í Biblíuna og Njálu: Ég vona að háttvirtur þingmaður fyrirgefi mér þótt ég vitni í helga bók og segi: „Kona, mikil er trú þín“ að telja að beint samband sé á milli skattlagningar af því tagi sem við erum að tala um og vaxtanna sem bankarnir krefja. Af hverju segi ég þetta? Vegna þess að bankarnir starfa ekki í neinu því umhverfi sem hægt er að kalla með nokkrum hætti samkeppnisumhverfi þannig að þeir hafi allt önnur tök á því að verðleggja þjónustu sína en ella væri.

Ég verð líka að segja, svo ég vitni í annað höfuðrit. Það er þannig að Njáll lét segja sér þrim sinnum áður en hann trúði. Ég verð að leyfa mér að segja, háttvirtur þingmaður, að það verður að segja mér a.m.k. þrim sinnum að það sé leiðin til þess að byggja upp traust og öflugt velferðarsamfélag á Íslandi að gefa eftir gagnvart þeim sem standa fjármagnsmegin í tilverunni, þá ekki síst vogunarsjóðunum, meira en 60% af því sem á þessa aðila eru lagt á þessu ári.

 Verðum að gera bankana samkeppnisfæra

„Það má vel vera að ég sé svona óskaplega trúgjörn, en ég hef ekki verið það neitt sérstaklega, frekar verið skeptísk á eitt og annað. Við erum að reyna, og verðum að horfast í augu við það, að gera bankaumhverfið samkeppnishæfara. Það var líka mikið baulað og ýmis orð látin falla þegar bankakerfinu var bjargað eftir hrun. Þá töldu margir að það væri verið að laga hér til eingöngu fyrir fjármagnskerfið. En auðvitað vitum við að það þurfti að komast á fæturna til að geta starfað og til að samfélagið virkaði. Ég ætla mér að treysta því. Það er ekkert sem segir að við getum ekki breytt þessu síðar. Það er bara þannig,“ sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.

 


Booking.com

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: