- Advertisement -

Innflytjendur í stríði á HM

Gunnar Smári Egilsson.

Fögnuður Xherdan Shaqiri þegar hann skoraði sigurmark Svisslendinga gegn Serbíu dró fram hvers vegna þessi ákafa undiralda var í leiknum, sem var með 3:3 jafntefli Portúgal og Spánar líklega besti leikur keppninnar til þessa; hraði, barátta, ákafi og góður fótbolti. Shaqiri hljóp að áhorfendum og myndaði með höfnunum tvíhöfða örn yfir brjósti sér, krækti þumlunum saman svo þeir táknuðu höfuð arnarins og lét aðra fingur mynda blakandi vængi. Félagi hans, Granit Xhaka, hafði fagnað jöfnunarmarki sínu á sama hátt og minnt á að þarna fór ekki bara fram landsleikur Sviss og Serbíu heldur líka langvarandi barátta Albana fyrir sjálfstæði undan Serbum.

Shaqiri og Xhaka er Albanir frá Serbíu með ríkisfang í Sviss eins og Valon Behrami. Blerim Džemaili er Albani frá Svartfjallalandi og Mario Gavranović Albani frá Bosníu. Behrami og Shaqiri eru synir flóttafólks frá Kósóvó og hefðu mögulega spilað með landsliði Kósóvó, ef Serbía hefði ekki staðið gegn því að það yrði viðurkennt. Í nýju landsliði Kósóvó eru þó nokkrir leikmenn sem búa og starfa í Sviss, synir flóttafólks sem sest hefur þar að og fyllir lægst launuðu störfin. En Behrami og Shaqiri eru af þeirri kynslóð Kósóvó Albana sem átti sér ekkert landslið og kusu því að spila með yngri landsliðum Sviss og svo aðalliðinu. Það sama á líklega við um Xhaka, Džemaili og Gavranović. Þótt fjölskyldur þeirra hafa ekki komið til Sviss frá Kósóvó er meira en mögulegt að þeir gætu sýnt fram á næg tengsl við Kósóvó til að eiga rétt á að spila með landslið landsins. En eins og Behrami og Shaqiri eru þeir af kynslóðinni sem hafði ekki kost á að spila með sínu landsliði. Þess vegna háðu Albanirnir í Svissneska liðinu sinn eigin landsleik inn í hinum leiknum. Og unnu kúgara þjóðar sinnar. Ef blanda mætti pólitík og íþróttum saman er þetta líklega eitt af helstu afrekum HM.

Svissneska liðið er líklega með því franska það lið sem hefur flesta innflytjendur í sínum röðum, af fyrstu og annari kynslóð. Behrami, Shaqiri, Xhaka, Džemaili og Gavranović eru fimm Albanir af þeim fjórtán leikmönnum sem spiluðu við Serbíu. Auk þeira eru Haris Seferović frá Bosníu og Josip Drmić frá Króatíu. Breel Embol er frá Kamerún og Manuel Akanji á nígerískan föður og svissneska móður. Ricardo Rodríguez á spænskan föður og móðir hans kemur frá Chile. Samanlagt eru þetta tíu leikmenn af fjórtán sem eru innflytjendur eða af erlendum uppruna. Fjórir leikmenn eru af innlendum ættum; Yann Sommer í markinu, Fabian Schär og Steven Zuber, og svo auðvitað fyrirliðinn Stephan Lichtsteiner. Lichtsteiner er ekki bara svisslendingur langt aftur í ættir heldur hefur hann bankamannapróf upp á vasann og getir hafið störf í einhverjum af svissnesku bönkunum um leið og ferli hans í fótboltanum líkur.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sviss er nú í sjötta sæti á heimslistanum og hefur aldrei verið hærra. Fyrir tíu árum eða svo, áður en innflytjendastrákar fóru að setja mark sitt á liðið, var Sviss í kringum 20. sætið á listanum, á þeim slóðum sem Ísland hefur verið að undanförnu. Þrátt fyrir stigvaxandi uppbyggingu og glæsilegan árangur landsliðsins fara margir í Sviss ekki leynt með óánægju sína með hversu margir innflytjendur eru í liðinu, að landsliðið sé ekki lengur „strákarnir okkar“. Þetta eru sömu raddir og hafa heyrst í öðrum löndum. Þessar þjóðernisáherslur héldu til dæmis aftur af vali á enskum leikmönnum af afríkönskum uppruna, frá Afríku eða úr Karíbahafinu, frá landsliðinu, og gera mögulega enn. Umfjöllun enskra miðla nú um hversu hreinn fyrirliði landsliðsins, Harry Kane, er af tattúum, kurteis og vel upp alinn, eru af þessum toga; að landliðið eigi að vera hreint og leikmennirnir verðugir fulltrúar sinnar þjóðar. Slíkt tal er ætíð illa dulbúin skilaboð til þeirra sem ekki uppfylla þessi skilyrði.

Það á eftir að koma í ljós hvort Svisslendingar sættast almennt við landsliðið sitt. Þegar Frakkar urðu heimsmeistarar 1998 voru það fyrst og fremst innflytjendastrákar sem unnu titilinn, undir forystu Zinedine Zidane, sem þó var ekki fyrirliði, það varð hann ekki fyrr en löngu seinna. Zidane söng aldrei þjóðsönginn og eftir að hann hætti að spila sást hann frekar á pöllunum þegar landslið Alsír var að spila en franska liðið. Og þegar hann var rekinn út af í síðasta landsleik sínum var það vegna viðbragða við hatursummælum Marco Materazzi um systur hans og fordóma hans gagnvart konum frá Alsír, en ekki til að verja heiður Frakklands.

Fyrst eftir 1998 var sigri Frakka tekið sem sigri hins fjölmenningarlega Frakklands. En þegar frá leið kom í ljós að útlendingaandúðin var meiri en svo að sigrar á fótboltavellinum gætu breytt yfir hana. Franska landsliðið hefur gengið í gegnum allskyns erfiðleika, sundurlyndi inn í búningsklefanum og ágreining milli leikmanna og þjálfara, sem ætíð eru fulltrúar hins gamla Frakklands. Frá því að Didier Deschamps hætti sem fyrirliði um aldamótin voru innflytjendastrákar fyrirliðar; Marcel Desailly, Patrick Vieira, Zidane, Lilian Thuram, Thierry Henry og Patrice Evra. Það var í Afríku 2010 sem sauð upp úr, leikmönnunum fannst þjálfarinn Raymond Domenech sýna Nicolas Anelka óvirðingu þegar hann sendi hann heim og leikmennirnir fóru í einskonar verkfall. Þegar upp var staðið gerðu Frakkar aðeins jafntefli við Uruguay en töpuðu fyrir Mexíkó og Suður-Afríku og fóru heim eftir riðlakeppnina. Eftir að Hugo Lloris var gerður að fyrirliða 2012 hefur verið meiri friður. Lloris er spanskættaður og alinn upp í Mónakó í fjölþjóðlegu samfélagi millistéttarfólk og hefur ekki á sama hátt og Evra og fleiri klemmst eins á milli leikmannanna og forystu franska knattspyrnusambandsins, sem er hvít, öldruð, rík og spillt, eins og forystan í knattspyrnuheiminum er svo gjarnan.

Leikmennirnir úr fátækrahverfum innflytjenda í gullaldarliði Frakka vissu fullvel að þeim stæði ekki til boða að fá fulla viðurkenningu sem Frakkar. Þegar Thierry Henry gekk til liðs við New York Red Bulls sagði í viðtali við útvarpsstöð í New York að í Bandaríkjunum gæti svartur íþróttamaður orðið hetja og notið virðingar. Sú væri ekki raunin í Evrópu, en Henry spilaði í Frakklandi, á Ítalíu, í Englandi og á Spáni. Hann sagði að það skiptu engu hversu mörg afrek svartur leikmaður í Evrópu ynni hann upplifði hvar sem hann kæmi að hann væri annars flokks.

Af fjórtán leikmönnum sem spiluðu síðasta leik Frakka á HM, gegn Perú, eru ellefu með erlendan bakgrunn. Paul Pogba er ættaður frá Guineu, N’Golo Kanté frá Malí, Samuel Umtiti frá Kamerún og Steven Nzonzi frá Kongó. Faðir Blaise Angóla er frá Kongó en móðir hans frá Kongó, faðir Ousmane Dembélé er frá Malí en móðir hans frá Senegal og faðir Kylian Mbappé er frá Kamerún en móðirin frá Alsír. Nabil Fekir er ættaður frá Alsír og faðir Raphaël Varane er frá Martinique, afkomandi afríkanskra þræla þar. Þetta eru samtals níu leikmenn af fjórtán sem eiga afríkanskan uppruna. Sem fyrr segir er Hugo Lloris af spænskum ættum og það á líka við um Lucas Hernández. Og Antoine Griezmann, sem á föður af þýskum ættum og móður af portúgölskum. Þá eru bara eftir tveir leikmenn; Benjamin Pavard, sem fæddist og ólst upp við Belgísku landamærin, er eiginlega Vallóni eins og Frakki; Olivier Giroud , sem er frá Savoy, sem lengst af var sjálfstætt ríki og ekki hluti af Frakklandi fyrr en á seinni hluta nítjándu aldar. Það mætti því halda því fram að það sé enginn Frakki í franska landsliðinu, alla vega ef fólk ætlar að nota þjóðernislegan mælikvarða á hvað það er að vera Frakki.

-gse


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: