Ísköld staða ríkisstjórnarinnar

- sauðfjárbændur reyna á þolband ríkisstjórnarinnar. „Undarleg afstaða“ landbúnaðarráðherra.

Stjórnmál „Menn verða að horfa á stöðuna ískalt,“ segir Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður atvinnuveganefndar þingsins í Morgunblaðinu í dag, um stöðu sauðfjárbænda. Páll undirbýr tvo fundi í nefndinni vegna málsins.

„Mér finnst að óbreyttu það ekki koma til greina,“ sagði Benedikt Jóhannesson fjármlálaráðherra, við fréttastofu Ríkisútvarpsins í gær, þegar hann var spurður hvort komi til geina að setja meiri peninga til lausnar vanda bændanna.

Benedikt benti einnig á að samningurinn hvetji til offramleiðslu, Sem síðan leiði til mikils verðfalls á dilkakjöti. Þetta hafi verið fyrirséð. Skilvirkasta leiðin til að taka á vandanum sé að setjast niður og semja upp á nýtt.

Ætlum að kosta nokkru til

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Menn verða að horfa á stöðuna ískalt. Við höfum tekið þá grundvallaafstöðu í þessu landi að við ætlum að hafa hér landbúnaðarframleiðslu. Og við ætlum að kosta nokkru til eins og allar þjóðir gera. Hér er kominn upp vandi sem er þess eðlis að við þurfum að horfast í augu við hann og taka ákvörðun um það hvað best er að gera,“ segir Páll hins vegar við Moggann.

Hér fer ekki á milli mála að Páll heldur uppi merki Sjálfstæðisflokksins í nálgun við landbúnaðinn. Ólíkt því sem Viðreisn vill gera, en þar eru jú bæði fjármálaráðherrann sem og landbúnaðarráðherrann. Ljóst er að enn teygist á þolbandi ríkisstjórnarinnar, eða hvað?

Sindri Sigurgeirsson:
„…þá held ég að við verðum að gefa okkur meiri tíma í það og það er um margt undarlegt, undarleg afstaða.“

Ómöguleg staða

Benedikt opnar á að leysa bráðavanda sauðfjárbænda, en með því skilyrði að búvörusamningurinn verði endurskoðaður hið bráðasta svo sama staða komi ekki upp að ári. „Það er alveg ómögulegt, það sér hver maður,“ sagði fjármálaráðherra við RÚV.

Páll segir vandann vera tvíþættann. Í fyrsta lagi bráðavandi sem blasir við í haust. Og í öðru lagi verði að marka langtímastefnu varðandi framleiðslu á lambakjöti. „Spurningin er sú hvort við ætlum að miða hana eingöngu við innanlandsmarkað eða hvort við eigum að halda áfram að framleiða til útflutnings,“ segir Páll Magnússon í samtali við Morgunblaðið.

„Endurskoðun búvörusamnings verður grunnur að nýju samkomulagi við bændur sem miðað er við að ljúki eigi síðar en árið 2019,“ segir í stjórnarsáttmálanum.

„Ég held að við verðum bara  að halda okkur við það að við erum að ræða endurskoðun búvörusamninganna og ef að þessi ríkisstjórn ætlar að gera einhverja kröfu um það að ekkert komi til aðstoðar öðruvísi en að gerðar verði einhverjar veigamiklar breytingar þá held ég að við verðum að gefa okkur meiri tíma í það og það er um margt undarlegt, undarleg afstaða,“ sagði Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins.

-sme
Booking.com

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: