- Advertisement -

Ísland er á mjög alvarlegum tímamótum

Jóhannes Björn skrifar: Ísland stendur á mjög alvarlegum tímamótum. Forréttindastéttir hafa sópað inn auðæfum og tryggt sér ofurlaun (oft í gegnum pólitísk ítök) á meðan stór hluti þjóðarinnar hangir á horriminni og vinnur fyrir launum sem hrökkva ekki fyrir nauðþurftum. Við þetta bætist lénsfyrirkomulag verðtryggðra okurlána, tug milljarða gjafir til kvótagreifa á sameign þjóðarinnar og velferðarkerfi sem búið er að rústa.

Seðlabanki Ísland vinnur meira að segja beint gegn venjulegu fólki. Á meðan toppar þjóðfélagsins skömmtuðu sér 40 – 50% launahækkanir þagði þessi stofnun þunnu hljóði, en um leið og vinnandi fólk setti fram kröfur um lágmarkslaun sem eru miklu lægri en gengur og gerist á hinum Norðurlöndunum, byrjaði seðlabankastjórinn að vara við óstöðugleika … og gengið byrjaði að falla, sem væntanlega var hugsað sem fyrirbyggjandi aðgerð.

Launabilið í þjóðfélaginu er bæði siðferðilegt og hagfræðilegt stórslys. Það verður að stórhækka lægstu launin, laga velferðarkerfið og stokka upp fjármálageirann (sem í vaxandi mæli hefur byggst upp á „peningaverkfræði“ þar sem brask með pappíra er oft mikilvægara heldur en raunveruleg verðmætasköpun). Öflug millistétt gerir hvert samfélag aðlaðandi; lönd sem litlar yfirstéttir ráða eru alltaf mjög fráhrindandi. Veljum jöfnuð og bræðralag.

Greinin er fengin af Facebooksíðu höfundar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: