- Advertisement -

Ísland situr á botninum

Minnst frelsi fjölmiðla á Norðurlöndum er hér á landi. Hanna Katrín kallar eftir alvöruaðgerðum og stuðningi við íslenska fjölmiðla.

„Ég kalla eftir alvöruaðgerðum og ég kalla eftir alvörustuðningi við fjölmiðla á Íslandi,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, á Alþingi, þegar hún ræddi stöðu fjölmiðla.

Fréttamenn án landamæra gátu út skýrslu um vísitölu fjölmiðlafrelsis fyrir árið 2018 og niðurstöðurnar eru dapurlegar fyrir fjölmiðlafrelsi í heiminum enda eru árásir gegn fjölmiðlafólki, bæði líkamlegar og í formi kúgunar að hálfu stjórnvalda, bæði viðvarandi og alvarlegar.

Dapurleg staða

„Staðan er líka dapurleg fyrir okkur því að Ísland færist niður um þrjú sæti, fer úr sæti 10 frá árinu 2016 í sæti 13 og situr þar neðst Norðurlanda,“ sagði Hanna Katrín.

„Þetta er áhyggjuefni fyrir okkur vegna þess að fjölmiðlar gegna lykilhlutverki í upplýsingagjöf til almennings og í því að veita okkur aðhald. Í janúar sl. afhenti nefnd um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra tillögur til að bæta rekstrarskilyrði þeirra. Þar kemur m.a. fram að stjórnvöld á hinum Norðurlöndunum telja það skyldu sína, á grundvelli tjáningafrelsisákvæðis stjórnarskránna, að stuðla að tjáningarfrelsi og frelsi með beinum og óbeinum stuðningi við frjálsa fjölmiðlun,“ sagði hún.

Ráðherra bregst ekki við

„Sömu sögu er því miður ekki að segja hér því að þótt fjölmiðlamarkaðurinn hafi gengið í gegnum miklar breytingar á undanförnum árum þá eru þær leiðir sem farnar eru til að styðja við fjölmiðla sambærilegar við þær leiðir sem farnar voru fyrir áratugum síðan,“ sagði Hanna Katrín.

Hanna Katrín segir Lilju Dögg Alfreðsdóttur ekki bregðast við alvarlegri stöðu.

„Rekstrargrundvöllur fjölmiðla hefur nefnilega breyst mikið og frjálsri og lýðræðislegri fjölmiðlaumfjöllun stafar hætta af þeim tekjumissi sem fjölmiðlar hafa þurft að þola. Á meðan við stöndum frammi fyrir brýnni þörf á umbótum í rekstrarumhverfi fjölmiðla, á meðan við föllum niður listann yfir frelsi fjölmiðla, þá hefur hæstvirtur menntamálaráðherra ekki brugðist við. Boðuð lækkun á virðisaukaskatti áskriftarfjölmiðla er ekki svarið, er ekki leiðin til að sýna lýðræðislegu hlutverki fjölmiðla stuðning.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: