- Advertisement -

Íslendingar eru yfirvinnuslóðar

Þorsteinn: „Stærstu tækifærin til að stytta vinnutímann til skemmri tíma litið, að mínu viti, eru að breyta öðrum þætti, nokkuð séríslensku fyrirbrigði í kjarasamningum, þ.e. hversu hátt yfirvinnuálag er í íslenskum kjarasamningum.“

„Við erum óttalegir yfirvinnusóðar. Ég held að það megi alveg færa sannfærandi rök fyrir því. Stærstu tækifærin til að stytta vinnutímann til skemmri tíma litið, að mínu viti, eru að breyta öðrum þætti, nokkuð séríslensku fyrirbrigði í kjarasamningum, þ.e. hversu hátt yfirvinnuálag er í íslenskum kjarasamningum. Það er 80% en mjög algengt er að sjá, í það minnsta á fyrstu unnar yfirvinnustundir, hjá hinum Norðurlöndunum á bilinu 30–50% yfirvinnuálag. Ég held að þetta sé ein ástæða þess að við sækjum mjög í yfirvinnu.“

Þannig mælti Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, á Alþingi þegar talað var um hugsanlega styttingu vinnuvikunnar. Þorstein finnst ekki klókt að Alþingi fari á undan hvað það varðar:

„Það var einmitt reynslan af því þegar lögunum var breytt 1971 með lögboði frá þinginu að það breytti engu um vinnutíma heldur hækkaði launakostnað fyrirtækja verulega og fór beint út í verðlag, jók verðbólgu verulega á þeim tíma. Vissulega er hér gert ráð fyrir því að vinnutíminn sé einfaldlega styttur, ekki endilega með því að sömu laun hljótist fyrir. Auðvitað ber að taka tillit til þess en ég hygg engu að síður að það sé mun skynsamlegra að virða þær leikreglur sem aðilar vinnumarkaðarins hafa komið sér saman um og bent ítrekað á, m.a. í umsögnum um þetta mál þegar það hefur áður komið fram, bæði af hálfu Alþýðusambandsins og samtaka vinnuveitenda, að best fari á því að um þetta sé samið á vinnumarkaði hverju sinni.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þorsteinn sér fyrir sér að þegar, og ef, yfirvinnuálagið lækkar muni dagvinnulaun hækka.

„Auðvitað myndu þá laun á dagvinnutíma hækka án þess að í því fælist endilega kostnaðarauki fyrir atvinnulífið. Ég held að það sé mjög mikilvægt að huga að slíku. Oft eru einföld tæknileg atriði í kjarasamningum að búa til það sem við gætum kallað neikvæða hvata. Við köllum þetta yfirvinnusnap í daglegu tali og þetta er mjög landlægt í mörgum atvinnugreinum, að það sé alveg nauðsynlegt að vinna einn til tvo yfirvinnutíma á dag og jafnvel helst fyrir hádegi um helgar. Þessu má alveg umhella, ef mætti orða það þannig, í dagvinnu-vinnuviku, á hærri grunntöxtum þá á móti.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: