- Advertisement -

Jónas Kristjánsson

Það var ekki ónýtt að stíga fyrstu skrefin í blaðamennsku í áhöfn Jónasar Kristjánssonar. Það var um miðjan maí árið 1987 sem ég kom fyrst til starfa á DV. Þá sá ég Jónas fyrst í eigin persónu. Tíminn sem fór í hönd var eitt skemmtilegasta timabili lífs míns.
Jónas Kristjánsson var bæði mikill kennari og hann gerði miklar kröfur til sinna blaðamanna. DV átti að vera fyrst með fréttirnar. En hann vildi bara vel skrifaðar og vandaðar fréttir. Hann lagði mikla áherslu á texta og frágang.
Stundum sagðist hann vera hvers manns hugljúfi. Hann vissi að svo var ekki. Þeir blaðamenn sem sáu í honum fræðarann, vinnufélagann og manninn nutu góðs af. Það var gott að leita til Jónasar. Metnaðurinn, kröfurnar og hvatningin frá honum var fínt veganesti.
Í nokkur ár unnum við saman. Ekki minnist ég þess að skugga hafi borið á það samstarf. Eftir að við hættum að vinna saman kom fyrir að ég hringdi til hans til leita eftir hans sjónarmiðum um eitt og annað tengt fjölmiðlum og einkum blaðamennsku. Þau símtöl urðu oft lengri en til stóð í upphafi.
Ég vona að mér hafi auðnast að læra sem mest af Jónasi Kristjánssyni og um leið hafi mér tekist að færa þá hugsun yfir til mér yngri blaðamanna.

Sigurjón M. Egilsson.


Booking.com

Auglýsing