- Advertisement -

Klausturdónarnir auka skammirnar

Sigurjón M. Egilsson.

Sögð orð eru sögð orð. Einfalt. Því er lífsins ómögulegt að skilja hvers vegna Klaustursdónarnir hengja vörn sína á hvort Bára hafi verið ein á ferð kvöldið „góða“ eða ekki. Framganga dónanna getur ekki verið annað en aum smjörklípa.

Klaustursdónamálið snýst um það eitt að þar sátu dónar sem svívirtu fólk. Fólk sem átti ekki skilið að vera ausið þeim viðbjóði sem hraut af vörum þingmannanna.

Annað skiptir engu máli. Ekki hvort Bára var ein á ferð eða ekki. Ekkert bendir til annars en atburðarásin hafi verið eins og Bára hefur lýst.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það eina einasta sem þingmennirnir geta gert er að sýna iðrun. Þeim virðist vera það fullkomlega um megn. Í stað þess að taka gerðum hlut reyna þeir allt hvað þeir geta til að draga Báru með sér í flórinn þar sem þeir liggja flatir. Og að því er virðist, hjálparvana.

Klaustursmálið snýst ekki um Báru. Málið er allt annað. Það er orðfæri og gróft hugarfar þeirra sem sátu á barnum og svívirtu fjölda fólks.

Hversu mikinn þunga þeir ætla að leggja á herðar Báru bætist staða þeirra ekkert við það. Hún versnar. Bára á bakland. Sem mun aldrei bregðast henni. Þar munar miklu á hennar stöðu og þeirra.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: