- Advertisement -

Kröftug mótmæli í Costco

Mótmæli á Íslandi hafa aukist og orðið markvissari en áður var. Austurvöllur hefur verið vettvangur mótmælanna. Allt fram að þessu. Mótmælin hafa færst til. Nú eru þau í Kauptúni í Garðabæ. Það er í Costco.

Við sem lesum skrif fólks sem fer í Costco sjáum að viðbrögð þess eru tvennskonar. Fyrst feiginleiki að komast í verslun, og það á Íslandi, þar sem nauðsynjavörur, sem og annað minna nauðsynlegt, stendur fóki til boða á allt öðru og lægra verði en fólk hefur kynnst hingað til.

Hitt er augljóst að fólk er reitt. Þegar það sér hversu miklu munar á verðinu í Costco, og í þeim verslunum, sem við höfum til einföldunnar nefnt lágvöruverðsverslanir. Stór orð hafa fallið. Niðurstaðan er augljós. Mun ódýrara er að kaupa inn í Costco en þar sem fólk gerði það áður. Reiði fólksins er öllum ljós.

Er sanngjarnt að bera saman verðlagningu annarra stærstu verslunarkeðju í heimi og þau fyrirtæki sem fremst hafa farið hér? Fram hefur komið að Costco er hið minnsta sjö hundruð sinnum stærra en Krónan, svo dæmi sé tekið. Costco nýtur gengismunar, lægri vaxta og svo tröllslegra innkaupa.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Er hægt að bera þetta saman? Nei, kannski er það ósanngjarnt. En fólki er bara nákvæmlega sama. Þessi rök, og kannski fleiri, slá ekkert á tilfinningar fólks.

Mótmæli á Austurvelli.

Hvers vegna ætli það sé? Jú, fólki þykir að illa hafi verið farið með það, ekki bara árum saman, heldur í áratugi. Dæmi er um, og hefur sést í skrifum fólks, að því þyki hefndin góð.

En hvað verður? Stjórnendur Haga og Festis og allra hinna keðjannna geta ekki lengur gegnið áhyggjulitlir, svo ekki sé talað um áhyggjulausir, til starfa sinna. Það er engin aflsöppun í boði. Sumir hafa varið dögunum í að gæta þess að vera ögn dýrari eða ögn ódýrari en hinn. Þannig hefur verð á einstaka vörutegundum hækkað eða lækkað pínupons, jafnvel nokkrum sinnum á dag. Annað ekki.

Nú er öldin önnur. Costco hefur rænt alla þessa menn friði. Nú dugar ekki að hækka eða lækka eyrnarpinna eða aðra vöru um fáar krónur. Nú þarf að grípa til róttækra aðgerða ef ekki á illa að fara. Stjórnendur hafa verið dregnir inn á vígvöll þar sem þeir þekkja ekki til. Nú er ekkert elsku mamma.

Við þekkjum ekkert annað en að stóru verslunarfyrirtækin hafa skilað eigendum sínum þúsundum milljóna í arð á hverju ári. Nú er mál að linni. Fólk er ekki lengur tilbúið að hlaða í þann stafla. Vissulega er það svo að almenningur er jafnvel stærsti eigandi þessara fyrirtæki í gegnum lífeyrissjóðina. Það hefur ekkert að segja og dugar hvergi til að fólk taki upp fyrri siði og haldi áfram að versla þar sem það keypti inn fyrir komu Costco. Ekki séns.

Costco.

Fólk hefur ekki það sterkar tilfinningar til lífeyrissjóðanna. Fólk velur ekki eða kýs ekki stjórnendur þeirra. Það gera hins vegar fulltrúar verslana sem annarra fyrirtækja. Þó lífeyrissjóðirnir séu eign fólksins hefur verið séð til þess að auðveldara er fyrir fulltrúa Haga, eða umboðsmanna þess fyrirtækis að komast til valda í lífeyrissjóðunum, en er fyrir hinn venjulega Íslending. Eigendurna sjálfa.

Einn af stjórnendum hinna verslunarfyrirtækjanna sagði ekkert að óttast. Sagði Costco ná hálfu þriðja prósenti af markaðnum. Það yrði alltof sumt. Hlutdeild Costco, þessa fyrstu daga, er nánast fimmtán sinnum meiri en það. Fimmtán sinnum meiri.

Auðvitað á þetta allt eftir að jafna sig og hlutdeild Costco á markaðnum kann að lækka nokkuð. Það breytir ekki því að keppinautarnir verða að finna ráð. Og það önnur en þeir hafa brúkað í minniháttar átökum sín á milli til þessa.

Mótmælt er enn í Costco. Fólk er enn reitt. Reiði er sterk tilfinning. Komi ekki fram skýringar, sem fólk tekur gildar, á dýrtíðinni sem hér hefur verið, halda mótmælin áfram. Ef svo fer verða uppskipti í íslenskum verslunum.

Sigurjón M. Egilsson.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: