- Advertisement -

Kvótinn kostar þúsund milljarða

- Það er ekki einfalt að úthluta verðmætum sem felast í aflaheimildum,“ sagði Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra á Alþingi. Veiðigjöldin verða 0,7 prósent af verðmætinu.

„Ætla má í grófum dráttum að markaðsvirði aflaheimilda á Íslandsmiðum sé um 1.000 milljarðar króna út frá því verðmati sem unnið var á eignum Ögurvíkur.“ Ljósmynd: Hringbraut.

Þorsteinn Víglundsson skrifar um frumvarp Kristjáns Þórs um breytingar á veiðigjöldunum. „Frumvarp sjávarútvegsráðherra um breytt fyrirkomulag við útreikning veiðigjalda er ekki líklegt til að skapa þá sátt sem nauðsynlegt er að ríki um auðlindagjöld sjávarútvegs,“ segir Þorsteinn.

Hann talar um góða afkomu greinarinnar.

„Fyrirhuguð kaup HB granda á öllu hlutafé í Ögurvík sýna glögglega þá miklu arðsemi og þau verðmæti sem greinin hefur skapað. Ætla má í grófum dráttum að markaðsvirði aflaheimilda á Íslandsmiðum sé um 1.000 milljarðar króna út frá því verðmati sem unnið var á eignum Ögurvíkur.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það er greinilega flókið að úthluta kvótanum.

„Það sem ég er fyrst og fremst að draga upp hér er að það er ekki einfalt að úthluta verðmætum sem felast í aflaheimildum.“

„Það sem ég er fyrst og fremst að draga upp hér er að það er ekki einfalt að úthluta verðmætum sem felast í aflaheimildum.“ Þetta sagði Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra á Alþingi. Þar var hann ekki að tala um úthlutun verðmæta, sem felast í aflaheimildum, heldur um byggðakvótann sem er ætlaður til að létta stöðu brothættra byggða, byggðarlaga í miklum vanda.

Aftur til Þorsteins.

„Það er ljóst hvernig sem á er litið að arðsemi útgerðar á Íslandi sker sig úr í samanburði við aðrar atvinnugreinar. Arðsemi eigin fjár og EBITDA sem hlutfall af rekstrartekjum hefur að jafnaði verið í það minnsta tvisvar sinnum meiri en í að jafnaði í oðrum atvinnugreinum hér á landi. Þetta er auðvitað fagnaðarefni fyrir okkur öll. Það er í alla staði jákvætt að þessi mikilvæga atvinnugrein sé svona arðbær.“

Skrif sín endar Þorsteinn svona:

„Það er einmitt þessi auðlindarenta sem umræðan snýst um. Hver á hlutdeild þjóðarinnar að vera í henni og hvernig á að tryggja eignarhald þjóðarinnar til framtíðar. Sé tekið mið af markaðsvirði veiðiheimilda Ögurvíkur má s.s. áætla að markaðsvirði allra veiðiheimilda hér á landi sé um 1.000 milljarðar. 7 milljarðar veiðigjald samsvarar 0,7% af því virði. Ljóst er að virði veiðiheimildanna er talsvert meira en ríkið ætlar sér að taka. Það sést bersýnilega á því veðri sem útgerðin greiðir í viðskiptum sín á milli. Ég er ekki í nokkrum vafa um að útboðsleiðin myndi skila ríkissjóði talsvert hærra gjaldi en fyrirhugað er í frumvarpi sjávarútvegsráðherra. Miðað við arðsemi greinarinnar er það heldur ekkert óeðlilegt.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: